10.12.06

Gleðin og hamingjan sem fylgir því að læra fyrir próf!

Síðasta vika hefur verið brjáluð. Alveg snælduklikkuð. Þannig er nefnilega mál með vexti og vaxtavexti á sérstaklega óhentugum kjörum, að á mánudaginn á ég að skila tveimur stórum verkefnum og á þriðjudaginn á ég að skila stóru verkefni og fara í 100% próf. Ég hef því verið að vinna í því gjersamlega frá morgni til kvölds síðustu daga að klára öll þessi verkefni svo ég geti nú farið að læra fyrir prófið. Ég náði að klára það síðasta (sem ég vann með fólkinu sem er á hreyfimyndinni) kl. 23:15 á föstudaginn, eftir næstum því 15 klst törn (mínus eitt samlokustopp).

Þó svo að maginn á mér væri byrjaður að melta sjálfan sig sökum hungurs, þá var ég með stærra bros á vörunum heldur en alla hina dagana í desember til samans, þegar ég hljóp til þess að ná strætó heim úr skólanum þetta kvöldið. Í dag og í gær hef ég sitið samviskusamlega við prófalærdóm, sátt eins og kisa, japlandi á harðfisk og liggjandi á mátulega hlýjum ofni.

Björgvin Halldórsson hvað það er gott að geta einbeitt sér algjörlega að einum hlut! Ég er viss um að ef ég hefði ekki verið að elta fjórar kanínur í einu síðustu daga, hefði ég ekki verið næstum því eins dugleg og ég er búin að vera.... Hvað þá beinlínis ánægð að hafa tækifæri á því að læra fyrir próf í merkilega þurru fagi.

Hakuna matata!

Engin ummæli: