7.11.06

Oft þarf bara einn hlut til að gera lífið ánægjulegra..

Fyrir tveimur vikum síðan, fékk ég endanlega nóg. Ég var að búa til fiskibollur og þær festust svo rosalega við pönnuna að útkoman var eiginlega bara fiskibolluefnistæjur. Ég hefði kannski ekki orðið svona súr yfir þessu, ef ekki væri fyrir þá staðreynd að hérna eru fiskibollur munaðarvara. Úti í búð er annað hvort hægt að kaupa:

A) Laxafars. Lax er ekki almennt góður fiskur nema hann sé reyktur, grafinn eða grillaður takk fyrir. Þegar hann er maukaður niður í bleikar öreindir með beinum, brjóski og slori þá er hann jafnvel minna kræsilegri en slagsmálaatriðið í Borat myndinni.

B) Tilbúnar fiskibollur sem eru með 56% fiski innihaldi. Ég er ekki að djóka. Hvað varð um hin 44%? Skattaálagning?

Sem sagt, þegar ég bý til fiskibollur, eru þær sem sagt búnar til úr rándýrum þroskflökum sem ég hakka saman við lauk, krydd og smá mjólk og hveiti.

Þegar ég var að skrapa fiskibolluefnistæjurnar á diskinn minn ákvað ég að nú skildi ég sko ekki púkka lengur upp á þessa pönnu ómynd, heldur skipta henni út fyrir sér yngri leikmann! Eða leikmenn. Ég hef nefnilega lengi verið að væla yfir því hvað mig langar í voc pönnu, án þess að tíma að kaupa mér hana vegna þess að hún yrði örugglega eftir í Danmörku þegar við flytjum aftur heim.

Í síðustu viku fórum við svo í IKEA, þar sem jólin eru allt árið. Þar fann ég afskaplega klaufalegt eintak sem mér leist strax vel á. Þið vitið hvernig múlasnar eru. Ekki alveg asnar og ekki alveg hestar? Hálf kjánalegir. Pannan mín er svoleiðis. Hún er undarlegt afbrigði sem brjálaðir vísindamenn hafa kokkað saman á meðan að þeir voru að bíða eftir þrumuveðri fyrir hinar tilraunirnar. It's aliiiihiiiiihiive!! Hún er hálf voc panna og hálf venjuleg panna með loki. Hún getur allt!

Á sunnudaginn gerði ég t.d. chilly og af því að pannann er ofboðslega djúp (voc pönnu djúp) gat ég steikt hakkið á henni fyrst og bætt svo öllum hráefnunum út í og leift að malla með lokinu í nokkra klukkutíma. Venjulega hefði ég þurft að setja allt í pott til þess að það myndi sjóða almennilega og fá rétta áferð.

Með tilkomu pönnunnar er ég líka dottin ofan í asískt tímabil í matargerð. Alveg hreint magnað hvað soðið grænmeti getur verið óspennandi eitt og sér, en heillandi og bragðgott þegar það er í góðri sósu með góðu kjöti/kjúklingi/fiski.

Ah. Ég hefði átt að vera búin að henda hinu kvikyndinu fyrir löngu! Ætli hún eigi eftir að brenna við helvíti núna?

Engin ummæli: