22.11.06

Ég var allavega ekki snöggsoðin eins og aspas!

Það dinglaði Dani hjá okkur. Hann talaði dönsku. Þeir eiga það til helvítin á þeim. Ég var búin að klæða mig og koma mér á ról en ekki í sturtu. Einar lá ennþá eins og Lúlli letidýr uppi í bæli, svo ég var sú sem skrúfaði fyrir dönskuna.

Strákurinn á bak við dönskuna sagði að hann byggi á neðstu hæðinni og að hann væri að fara að setja upp þvottavél og þurfti að taka kalda vatnið af. Það eina sem ég náði að stynja upp úr mér, ósturtuð og vitlaus með drullugt hárið, var: "Kan det være in tyve minuter?" Ég held hann hafi samþykkt það. Allavega dreif ég mig í sturtu á ofur hraða. Eftir hraðamet í sjampói fór ég að pæla í því hvað hann hefði nákvæmlega sagt. Sagði hann:

A) Ég ætla að taka kalda vatnið af húsinu í klukkutíma eftir 10 mínútur
B) Ég ætla að taka kalda vatnið af húsinu í 10 mínútur eftir klukkutíma
C) Getur þú látið mig vita þegar þið eruð tilbúnin?

Ef möguleiki A) var sá eini rétti, þá hafði ég alveg haldið kúlinu. Ef B) var sá rétti, þá var ég að biðja aumingja strákinn um að flýta fyrirhugaðri 10 mínútna langri kaldavatnstöku um 50 mínútur og setja á hann óþarfa panikk. Ef möguleiki C) var sá rétti, þá var ég núna búin í sturtu og nokkuð sama um kalt vatn næsta klukkutímann á meðan að þeir biðu óþreyjufullir eftir að geta gert það skrúfað fyrir það. Niðurstaðan var sú að ég sendi Einar niður til að redda málunum og fá þetta á hreint. Hann gerði grín að mér. Mér er alveg sama. Ég náði að sturta mig OG það var ekki skrúfað fyrir kalda vatnið í miðri sturtu. Hvað meira getur kona beðið um?

Engin ummæli: