12.11.06

Ég er of classy fyrir Japan og sígarettur!

Japnir gera aldrei samninga við fólk fyrr en þeir hafa dottið í það með þeim. Þeir vilja nefnilega meina að sanna eðli manneskjunnar komi í ljós þegar hún er í glasi. Ég veit ekki af hverju karókí blandast þarna inn. Ég held að það sé bara af því að þeim finnst það skemmtilegt og í þeim öllum blundi lítill Þorgeir Ástvalds. Kemur samningaviðræðum í sjálfu sér ekkert við.

Mikið er ég glöð að ég sé ekki viðskiptakvendi sem búi í Japan. Held ég sé of classy fyrir Japan. Svona volæðisvol á ekki við mig og ennþá síður karókí. Helmingurinn er ennþá að barma sér yfir þynkuleifum, en ég er náttúrulega yngri og sprækari og er alveg búin að ná mér. Í einhverri desperat tilraun til þess að ná reykingafýlunni úr íbúðinni hjá okkur er núna opið út á svalir, jökkunum okkar beggja hefur verið úthýst þangað og þvottavélin malar eins og tígrisdýr yfir sígarettufýlufötunum sem við vorum í á föstudaginn. Vá hvað ég hlakka til að það verði ólöglegt að reykja á skemmtistöðum, tónleikum, kaffihúsum og tja. Bara allstaðar. Alveg gæti ég gubbað á fólk sem mjálmar um mannréttindi reykingamanna. Allt í góðu. Þetta er val sem þú tekur og ég skal alveg virða það, en hvernig dettur þér í hug að það séu þín mannréttindi að neyða þínu vali upp á mig líka? Fasisti! Reyndu svo ekki að líkja þessu við neyslu skyndibitafæðis. Það deyr enginn úr óbeinum frönskum!

Eh. Já. Ég er að læra á við tvo í dag því að ég lærði á við engann í gær. Ágætis meðaltal það.

Engin ummæli: