6.10.06

Svefngalsi og sætir læknar

Ég er með svefngalsa. Ég eyddi nefnilega stórum hluta gærnætur á slysó og mætti svo hress og kát (mínus hress og kát) í tíma í morgun eftir mjög lítinn svefn. Ég lenti nefnilega í þeim skramba að bílhurð var lokað á hægri þumalputtann minn (a.k.a feitaputta, en það nafn á ennþá betur við hann núna). Hurðin lokaðist meira að segja alveg og ég varð að væla ítrekað á einhvern til að opna hurðina aftur svo ég gæti losnað úr prísundinni. Ég er aðalega bara þakklát fyrir að bíllinn hafi ekki keyrt af stað og tekið feitaputtann með sér og selt hann á ebay. Hvernig ætti ég ÞÁ að spila xbox? Ofan á það væri nánast ómögulegt að koma í veg fyrir klónun.

Já. Allavega. Þegar ég loksins þorði að líta á hendina á mér, sá ég að það var djúpt far ofan í puttann þar sem að bílhurðin hafði knúsað hann. Ég líka meiddi mig alveg ofboðslega mikið. Rökhugsun mín, hún rökhugsun, ákvað að puttinn hlyti að vera sæmilega tjónaður eftir þetta, þannig að það var tekin sú ákvörðun að kíkja á slysó.

Eftir sígarettufýlutaxaferð og móttökudömuspurninguna hvort ég hafi "dottið" tók við hefðbundin slysóbið. Við hr. mon vorum ein á biðstofunni, ásamt slysósjónvarpinu, sem ég kýs að kalla Slysósjónvarpið og nammi-, kaffi-, samloku- og kóksjálfsölunum, sem ég kýs að kalla Sjálfsalana. Sjálfsalarnir voru allir tómir, nema nammisjálfsalinn. Hann urraði öðruhvoru og otaði twixi reiðilega í áttina að okkur. *Bllluuuuurrrg* sagði hann.

Slysósjónvarpið náði fyrst að fá okkur til þess að slappa af með Fraiser þætti og svo WHAM! (ekki hljómsveitin samt), sló það okkur utanundir með Americas Funniest Home Videos. Shift hvað það var illa gert. Kona var föst í svona "verða að horfa á sjónvarp" stað, eins og þegar hún er lappalaus (laptop sko, ekki fóta) í flugvél. Ofan á það, var feitiputti núna orðinn þrefaldur og kominn með sinn eigin sársaukapúls, algjörlega úr takti við restina af líkamanum.

Það leið og beið og á endanum kom læknir að sækja mig. Þessi læknir var á aldur við mig, sem var áfall út af fyrir sig. Hvenær varð ég eiginlega nógu gömul til þess að læknar væru á mínum aldri? Þessi læknir var líka alveg sérstaklega sætur. Alveg Hollywood myndarlegur. Allavega fannst mér það þangað til að hann fór að klípa og pota í aumingja slasaða puttann. Á einum tímapunkti tók hann bréfaklemmu úr læknamannabrjóstvasanum sínum, tók hana í sundur og potaði í puttann með henni. Mér finnst að vísu alltaf gaman af bréfaklemmupyntingum, þar sem að Clippy (office bréfaklemman) hefur eyðilagt mig fyrir lífstíð, en það er ekki eins gaman þegar bréfaklemmupyntingar og feitaputtapyntingar fara saman.

Klemmi læknir ákvað að láta taka rönken af mér til öryggis. Eftir meira Americas Funniest maraþon með allskonar leiknum atriðum og fólki að detta og meiða sig, hlaupa á myndavélina og hoppa út af trampolínum kom rönkenkona að sækja mig. Rönkenkona, sem var líka á mínum aldri, fór með mig í rönkenherbergið. Í rönkenherberginu var rönkenmaðurinn, sem var líka jafnaldri okkar. Vöddafork!? Ég er ekkert læknafólkagömul!

Ég var látin snúa hendinni á mér í ólíklegustu hringi og ég var nánast farin að mjálma: "No, NO.. it doesn't bend that way!" undir lokin. Svo fékk ég einhverskonar geislavarnarpúða á bumbuna á mér ef ske kynni að ég væri preggó (HEY! ég var að fatta.. did she just call me fat!??) og svo var smellt af.

Eftir meiri pyntingar frá Slysósjónvarpi og Fyndnum fjölskyldumyndum kallaði Klemmi mig aftur inn. Klemmi sagði mér að ég væri ekkert brotin (phew). Svo klemmdi hann puttann á mér aðeins meira og potaði í hann eins og til að kveðja hann held ég. Svo boxaði hann mig í öxlina og sagði "you're all right!", en bætti svo við "you just have one more week to live". Okay, reyndar ekki. Hann boxaði mig í öxlina, sagði "you're all right" og sagði svo að ég ætti eftir að vera aum og dofin í feitaputta næstu daga.

Í dag er feitiputti fjólublár eins og bláberjaskyr og jafn feitur og lítill Jabba. Hann er samt allur að koma til. Hann er trooper!

Engin ummæli: