7.10.06

Slagsmálabardagahundur með sítt að aftan

Ég skellti mér í kvikmyndahús og sá þar Fearless, sem er nýjasta myndin hans Jet Li. Þessi myndi er ekki sýnd á Íslandi alveg strax. Ekki láta ykkur líða illa samt! Í síðustu viku sá ég Click, sem var alveg ný komin í bíó hérna, en var löngu dáin úr elli í bíbbunum heima. Vá hvað það var ekki skemmtileg mynd. Ég hélt að ég væri að fara á grínmynd og svo bara BAMM. Drama og högg í brisið. Mínus högg í brisið.

Fearless var hinsvegar töff. Hún er líka merkileg fyrir þær sakir að þetta er líklega síðasta bardagamyndin hans Jet Li, en hann hyggst nú snúa sér að hefðbundnum kvikmyndaleik. Það eru sorgarfréttir fyrir okkur sem kunnum að meta góðar slagsmálamyndir, en vissulega betri fréttir en þær að Jackie Chan hafi slíkt hið sama í huga. Munurinn er nefnilega sá að Jet Li getur alveg leikið, á meðan að Jackie Chan getur það sko aldeilis ekki.

Fearless er mynd um kínverska slagsmálakappann Huo Yuan Jia, sem gat lamið alla í klessu, óháð þjóðerni. Eins og það hafi ekki verið feikinóg, þá var bara líka splæst á þetta söguþræði og ágætis upptökustöðum og stúdíóum.

Þessi mynd er öll á kínversku, svo að ég þurfti að lesa danskan texta á fleygiferð til þess að botna í henni. Í fyrstu fannst mér hann fara helst til fljótt af skjánum, en ég komst í æfingu og mér tókst barasta ágætlega að keppa við textann. Sko stelpuna! Næst verður hún farin að setja remúlaði út á All branið sitt á morgnana og spjalla um fríblöð á dönsku við fólkið í strætó!

Engin ummæli: