14.10.06

Kulturnatten

Ég, Einar og sú Lettneska (hmm.. líklega best að fara að nota nafn á hana. Hún er kölluð Ola), keyptum okkur barmmerki með frekar ljótri mynd. Þetta barmmerki veitti okkur ókeypis aðgang að lestum, strætóum og metroi, ásamt ókeypis aðgangi inn á öll söfn og ýmsa aðra staði.

Strax og ég kom niður í bæ, mætti ég stelpu sem gaf mér og Olu bleika rós. Mín var mjög fín til að byrja með, en svo duttu laufblöðin af henni eitt og eitt og að lokum kom í ljós að hún var bara alvarlega lasin. Ég jarðaði hana í ruslinu stuttu áður en ég fór heim.

Menninganótt á Íslandi er nú bara algjört prump í samanburði við þessa í Köben verð ég að segja. Með barmmerkinu fengum við þykkan og mikinn bækling sem lýsti alveg endalaust mikið af atburðum sem stóðu konu til boða. Mig langaði mikið að heimsækja Moskuna þar sem var m.a. talað um stöðu islam í Evrópu, fara í Búddasenter og skoða hvað þeir væru að gera þar og á Jóga og hugleiðslusenter, þar sem hefði verið hægt að taka klst. kennslutíma í hugleiðslu og hálftíma kennslutíma í útgáfu af powernapping sem getur verið meira effektívur en 8 klst af svefn. Því miður gafst ekki tími í þetta, þar sem að allir þessir staðir voru fyrir utan miðbæinn.

Það hefði reyndar verið hægt að setja saman ansi þunglyndislega dagskrá líka. T.d. með því að fara í heimsókn á einhverja stofnun og upplifa sig sem minnihlutahóp (var tekið dæmi um múslima, homma og fatlaða), þar sem einhverjir leikarar myndu gera aðsúg að þér eða fara í rauðakrossinn og upplifa hvernig það væri að vera einmana í stórborginni.

Við ákváðum að láta ekki gera aðsúg að okkur og fórum þess í stað að skoða þinghúsið hátt og lágt. Arkítektúrinn þarna inni er bara klikkaður. Það var líka mjög gaman að koma inn í þingsalinn þeirra og skoða atkvæðagreiðsluaðferðir og þannig. Þingmenn voru röltandi um og voru að reyna að hössla nokkur atkvæði í leiðinni. Einn flokkurinn var búinn að setja upp herbergi sem var þannig að fyrir utan var konu afhent umslag fullt af gervipeningum og inni í herberginu voru körfur með mismunandi fyrirsögnum. T.d. "aukin tækifæri eftir háskólanám", "betri her", "meiri styrkur við ellilífeyrisþega" o.s.frv. Fólk átti svo að dreifa fjárlögum ríkisins í þessar körfur, svo flokkurinn hefði betri hugmynd um hvað það var sem almenningurinn vildi. Annar flokkur bauð upp á ókeypis prufutíma í líkamsrækt, fótsnyrtingu á staðnum og vatn og appelsínur. Það var hálf skrítið að sjá einhverjar kvennsur liggjandi á bekk með tærnar út í loftið á meðan þær voru snyrtar fyrir allra augum.

Við skoðuðum líka ráðhúsið, sem var ekki alveg eins fínt en alveg prýðilegt (en hver borgarráðsmanneskja var með spes tölvuskjá í sætinu sínu), rosalega fína kirkju, ekki eins fína kirkju, póst og síma safnið, kíktum í leikhús sem strákur sem er með mér og Olu í verkefnishóp var eitthvað að vesenast í kringum, röltum um og skoðuðum fólkið, fórum inn í klikkað flottan sal sem tengist skrýtna skrúfuturninum sem skrúfast í vitlausa átt (og arkítektinn framdi sjálfsmorð út af), skoðuðum rosa fínar mósaíkmyndir með gulli í sér, kíktum á hálf melankólíska listasýningu, skoðuðum ljósmyndir hjá Politiken blaðinu og margt fleirra. Já. Og svo lentum við líka í rosalega geðveikislegum öfgasinnaðum áróðri um "öryggi á internetinu". Við leituðum uppi einhvern stað sem átti að vera með eitthvað um IT-security, en jáneinei það var sem sagt öfgageðveikismaður sem hélt yfir okkur svaka ræðu um að við hefðum rétt á að vera nafnlaus á netinu og þetta fólk hafði þróað allskonar leiðir til þess að skipta út MAC addressum og fara í krókaleiðir í gegnum tölvunet til þess að tölvan á hinum endanum myndi ekki þekkja þig. Já.. forrit og afrita DVD og geisladiska með copy-protection. Svo sagði hann okkur að hann og 3 vinir hans væru allir að deila með sömu nettengingu frá TDC, þó það væri sagt að það mætti bara einn vera með hverja tengingu og "the man" gæti sko ekkert bannað honum þetta. Þegar hann var farinn að segja Olu að fólkið á kolegiinu hennar hefði engan rétt á að banna henni að skipta um MAC addressu (en þetta er notað þar vegna þess að hver einstaklingur hefur bara ákveðna bandvídd á mánuði svo að netið haldist almennilega hratt) og hún gæti notað eitthvað af þessum forritum til að "svindla á kerfinu" var ég farin að reyna að fikra mig að hurðinni. Við sluppum loksins út. Lifandi. Takk fyrir. Ég var orðin virkilega hrædd um að hann væri farinn að hugsa að samfélagið gæti ekkert bannað honum að fremja morð heldur ef honum langaði til þess. Fólkið þarna lét okkur samt fá geiskadiska með öllum þessum forritum í kveðjugjöf. Áhugavert.

Við ætluðum að taka strætó í dýragarðinn og sjá einhverja spes næturopnun, en klukkan var bara næstum miðnætti og allt að loka svo við fórum heim. Það hefði örugglega verið gaman að sjá hann allan upplýstan. Kannski að dýrin hefðu samt verið að lúlla sér.

Ég veit ekki alveg af hverju íslenska menninganóttin er ekki svona fín. Kannski er það vegna þess að allskonar söfn, fyrirtæki, klúbbar og stofnanir vilja ekki opna dyr sýnar fyrir ómenningalegum Íslendingum á stútfylleríi.

Engin ummæli: