29.10.06

HAMingja

Hver vissi að HAM væri að toura? Ekki ég! Reyndar vissi eiginlega enginn af því í allri Danmörku, þó þeir hafi verið að spila hérna í gær. Einar komst að því fyrir tilviljun á föstudaginn, vegna þess að það voru víst einhver auglýsingaplaggöt hengd upp í þvottahúsið á kollegíi þar sem íslenskir gaurar sem við þekkjum búa á.

Ehh. Þeir búa sem sagt á kollegíinu. Ekki í þvottahúsinu. Bygones.

Við keyptum miða á tónleika með HAM og hljómsveitum frá Færeyjum, Grænlandi og Danmörku. Það voru ekki margir núverandi og fyrrverandi þegnar dönsku krúnunnar mættir á staðinn, líklega vegna þess að þessi tónleikar voru meira leyndarmál en hinn sanni aldur Cher.

Fyrsta hljómsveitin til þess að stíga á sviðið var frá Færeyjum og hét Makrel. Þetta kvöldið skartaði hún lánsgítarspilara, vegna þess að gítarleikari hljómsveitarinnar var fjarri góðu gamni. Það má lesa um hvers vegna hérna. Ég var ekkert sérstaklega impressed. Söngvarinn ofnotaði gjersamlega microphone sem var með einhverjum hálf hallærilegum effect og ég var afskaplega þakklát þegar ég sá að það var verið að taka hann niður áður en næsta hljómsveit tók við. Ég var skíthrædd um að þeir gætu freystast til þess að nota hann líka (bæði söngvarann og mikeinn sko..)

Eftir Makrel tók við grænlensk sveitaballapopps/rokkhljómsveit sem tryllti alla Grænlendinga á staðnum með því að henda glosticks út í salinn (ég fékk fjólublátt). Grænlendingar eru spes (alhæfing. Ég veit það). Það var sérstaklega einn pissfullur miðaldra maður, sem sá um að knúsa alla aðra Grænlendinga sem hann sá á staðnum, sem sá um spesheitin. Það sat stelpa við hliðina á okkur Einari sem var í kjólling (ef kjólar eru nógu litlir, eru þeir þá ekki kjóllingar?) sem 16 ára ég hefði verið stolt af. Hún keðjureykti eins og það væri "Reyktu eins og þú villt án þess að fá krabbamein" kvöld. Þegar þessi fulli kom að henni, var hún að reykja (augljóslega) og tala við vinkonu sína. Fulli knúsaði eitthvað í áttina að henni, svo að hún brenndi sig á eyranu með sígarettunni og glóðin datt ofan í hálsmálið á henni. Eftir mikið fát tókst henni að koma í veg fyrir að það kveiknaði í sér og hún fann part af kúlinu aftur. Fulli bauð henni heldur óstöðugan eld og hún gat snúið sér aftur að sígarettunni og vinkonunni. Fulli ákvað hinsvegar að reyna aftur að stinga sér til knús, en í þetta skiptið rakst sígarettan framan í hann. Við þetta brá honum svo mikið að hann sparkaði bjórnum hennar um koll. Hann reyndi nokkrum sinnum aftur, en núna var stelpan orðin ansi súr út í hann og ýtti honum frá sér. Fulli ákvað því að snúa sér að nútímadansi með tvö glosticks í hendinni og hann trítlaði um eins og fiðrildi það sem eftir lifði af kvöldinu/nóttinni. Öðru hvoru sá ég að aðrir Grænlendingar gáfu honum meiri bjór. Ég veit ekki hvort að hann sé svona drepleiðinlegur edrú, hvort fólk hafi gaman að fiðrildadansinum hans eða hvort að fólk hafi verið að vonast til þess að hann myndi sofna á einhverjum stól eftir "bara einn í viðbót".

En HAM voru góðir! Þeir hækkuðu meðalaldur hljómsveitanna um svona eins og 50 ár eða svo, en þeir rokkuðu miklu meira en ungviðið! Vegna þess að það var ágætis pláss á gólfinu myndaðist skemmtileg blanda fólks sem dansaði eins og það væri á skemmtistað og fólks sem flösuþeytti.

Eftir HAM drusluðumst við bara heim til þess að ná síðustu lestinni. Það voru tvær hljómsveitir eftir, en það er alltaf best að hætta á toppnum!

Engin ummæli: