17.9.06

Mogwai

Við fórum á Mogwai tónleika í gær með góðu fólki. Þetta voru sveittustu og... eh... heittustu? tónleikar sem ég hef farið á. EVER. Til að byrja með stóðum við svona eins og 20 metra frá sviðinu (e. stage, ekki sviðinn kindahaus). Þar var hitinn í kringum 35°C og það lak af öllum svitinn. Ég sá nákvæmlega ekkert á sviðið, sökum þess að ég er "vertically challanged". Ekki bætti það úr skák að parið sem stóð beint fyrir framan mig og var eiginlega það eina í sjónlínunni hjá mér, sá sig knúið til þess að étast(*) með verulega stuttu millibili, og þá helst í góðar fimm mínútur í einu. Ég hef ekkert á móti því að fólk sé að kyssast, en þegar kona sér tungur fljúga í allar áttir og fær slefslettur á kinnina á sér og svona, þá er það bara medjör krípörs.

Þegar Mogwai kom á sviðið, var sígarettureykurinn var orðinn svo þykkur að það var hægt að tappa hann á brúsa og selja sem skordýraeytur. Fyrir aftan okkur Einar stóðu tveir himinháir strompar og strompuðu niður á litla fóklið (sem er víst ég.. Einar er ekki lítill) á milli þess að þeir actually öskruðu lagarequests á milli laga. Hvað er það? Halda þeir að þetta séu ferða DJ-ar? Minnir mig á þegar Bjarni Fel var að lýsa fimleikum í sjónvarpinu í den; "Nauh! [Insert nafn] gerði sjúkahara (hljómar eins og japanskt sjálfsmorð, en er í raun fimleikaæfing á "stökki") með tvöföldu heljarstökki. Hvað ætli [insert annað nafn] geri núna!?".. Svona eins og hún ákveði bara jafnóðum hvað hún ætlar að gera og það séu ekki mánuðir af æfingum að baki :oP

Allavega. Þegar mér var farið að líða virkilega illa og vera flökurt, sökum verulegs hita, óbeins sígarettureyks og svita (eigin og annaramanna), þá færðum við Einar okkur aftast í herbergið. Þar, merkilegt nokk, lækkaði hitinn um góðar 10 gráður og ég sá meira að segja í trommara og í part af bassaleikara! Þó að ég hafi ennþá fengið slefslettur frá ógeðiskossafólkinu, eins og allir í salnum, þá voru lagarequests-öskrigaurarnir núna bara einhverjir fávitar inni í sal, í staðinn fyrir einhverjir fávitar sem stóðu við hliðina á mér.

Tónleikaupplifun mín bættist um mörg hundruð prósent við þessar tilfæringar og ég get í alvörunni sagt að ég hafi bara skemmt mér mjög vel. Ég hlakka hinsvegar verulega til þess að reykingar verði bannaðar á svona samkomum. Vá hvað ég myndi fara oftar á tónleika, djamm og kaffihús ef það væri ekki alltaf mökkreykt allstaðar!

(*) Aski brjóstið að þessu sinni vísar á samtal sem Óli frændi bjó til þegar hann var 2ja ára gamall að leika sér með nashyrning og flóðhest:

Flóðhestur: Ég ætla að éta þig nasifingur!
Nashyrningur: En ég er líka ljótt dýr..
Flóðhestur: Óh! Þá skulum við bara étast
*nashyrningur og flóðhestur éta hvorn annan*

Engin ummæli: