21.8.06

Gott og illt

Sem börnum er okkur sagðar allskyns sögur til þess að reyna að móta okkur í góðar manneskjur. Eftir að ég skreið yfir tvítugt hef ég velt mörgum af þessum sögum fyrir mér og raunverulegum boðskap þeirra.

Munið þið til dæmis eftir sögunum um Sæmund Fróða og samskipti hans við Kölska? Þegar ég rifja upp innihald þeirra, geri ég mér ljóst að ef ég mætti velja á milli þess að gera samning við hinn hníflótta eða við klerk, myndi ég velja þann fyrrnefnda. Kölski stóð alltaf við sinn hluta samningsins. Sæmundur hinsvegar notfærði sér allar mögulegar "loop-holes" og smáa letrið út í gegn, til þess að klekkja á honum og fá þjónustu án þess að láta neitt í staðinn sjálfur.

Ég held að ég geti helst lesið úr þessum sögum að ef þú leitar uppi einstakling og gerir við hann samning sem þú hyggst koma þér undan eftir að hinn aðilinn hefur uppfyllt sinn hluta, þá telstu enn góð manneskja svo lengi sem hinn einstaklingurinn hafi verið vondur. Ekki skil ég hvað það er alltaf verið að mjálma um hvað lögfræðingar séu vondir, þegar Sæmundur sýnir slíka lögfræðitakta.

Önnur saga með svipaðan boðskap er Steinn Bollason. Reyndar byrjar sagan á því að Steinn og kona hans biðja til guðs um að eignast börn og guð svarar þeim með því að gefa þeim 100 börn. Ætli þar sé verið að taka á heimtufrekju? Passaðu þig á því hvers þú óskar þér? Kannski þetta sé annað lögfræðidæmi og það eigi að kenna fólki að biðja nákvæmlega um það sem það vill, hvorki meira né minna, því annars geti góð öfl klekkt á þeim.

Já. Allavegana. Steinn Bollason! Ég man eftir því, þegar ég var svona 4 ára, þá reyndi ég að kreista ostinn sem var á brauðinu mínu í leikskólanum svo það kæmi mjólk út úr honum. Það gerðist ekki. Ég varð bara klýstruð. Steinn dobblaði ekki bara mig upp úr skónum, heldur líka risann og mömmu hans. Hann komst upp með að láta risann gera öll sín verk, á meðan hann sat og slappaði af.

Síðasta sagan sem ég ætla að tala um heitir "Bláa kannan". Sú saga er um könnu sem vill komast niður af hillu og biður allskonar fólk um að hjálpa sér, en allir eru of busy. Kannan gefst þó ekki upp og á endanum samþykkir köttur að hjálpa henni og ýtir henni niður af hillunni. Kannan brotnar í þúsund mola. The moral of this story is... never try!

Engin ummæli: