20.6.06

Bílandi

Núna er næstum því ár síðan að Benni, drottningarvagninn, var seldur. Það hefur ekkert háð mér í Danmörkunni, enda almennings samgöngur með betra móti þar á bæ.

Það er hinsvegar ekki manneskju bjóðandi að vera bíllaus á Íslandinu góða. Foreldrarnir skruppu til útlanda í nokkra daga og ég fékk bílbragðið í munninn á meðan. Núna líður mér eins og ég sé fangi, hvert sem ég fer eða fer ekki... því ég kemst ekki... því ég er bíllaus. Mhm. Þarf að treysta á að fá lánaðan bíl hjá ma og pa eða fá skutl eða sækj.

Ég fór því og kynnti mér strætósamgöngur á Íslandi. Ég komst eiginlega að því að það þarf að veðsetja allar eigur sínar til þess að eiga fyrir einni strætóferð. Ofan á það, þá leggur bus.is til allt að 3 strætisvagna og kílómetralabb fyrir mig til þess að komast frá A til B.

Ég held svei mér þá, að ef ég ætla að forðast það að láta mér vaxa mosa við að hanga í kastalanum öllum stundum, þurfi ég að fara að fjárfesta í svona rafmagnshlaupahjóli hjá kók. Verst er að það er búið að rigna alla daga síðan ég kom til Íslands fyrir 17 dögum (ég er ekki að ljúga. Veðurstofan segir það líka), svo það gæti hugsanlega tekið mig af lífi með raflosti.

Eitt er allavegana víst - Þegar ég flyt aftur til Íslands eftir skólann mun ég við allra fyrsta tækifæri kaupa bíl!

Engin ummæli: