28.2.06

"Why does Sea World have a seafood restaurant?"

"I'm halfway through my fishburger and I realize, Oh my God....I could be eating a slow learner."
-Lynda Montgomery

Eilítill gleðidans með mjaðmahnykkjum og salsatöktum..

Ég hef nefnilega farið á salsanámskeið og allt. Í dating and design patterns bókinni sem Palli gaf okkur í jóló kemur fram að áhrifaríkasta leiðin fyrir karlmenn til þess að vera vinsælir hjá konum og fá "date" sé að læra dans, þar sem að mikill skortur sé á karlmönnum sem bjóða upp á þá þjónustu. Allavega vildi hr. Mon ekki koma með mér í salsatíma. Ég fór með honum crypto-Loga í staðinn. Dulritunarnörd geta líka dansað!

En já. Ástæður fyrir gleðidansinum mínum eru nokkrar. Það er að vísu aftur byrjað að snjóa, þegar mér var SAGT að það ætti að vera komið vor í mars. Sko. Mars er alveg að koma skal ég segja ykkur og....

eh.. já. Í fyrsta lagi þá var mér loksins að berast pöntunin mín frá bodybuilding.com, sem var send af stað frá Bandaríkjunum fyrir mánuði og einum degi síðan. Ég var nú ekkert að panta mér stera eða neitt.. Bara hefðbundna hluti sem ég hef vanist því að séu til í öllum löndum þar sem fólkið setur ekki remúlaði út á kátínunar sínar. Skólamáltíðir! Alveg komin með nóg að því að læðast í frímínútum með létt kotasælu í dollu til þess að verða mér út um prótein. Nú er ég loksins aftur vel byrgð af AdvantEdge carb control möntsji og Myoplex sjeikum, sem eru auðmöntsjanlegir í skólanum. Svona "meal replacement". Annað gleðiefni var að ég þurfti ekkert að borga toll fyrir þetta, bara smá vsk. Samtals kostaði pöntunin mín því rúmum 3000 krónum minna en ég hélt. Af því að ég pantaði fyrir aðeins meira en [insert einhver upphæð] fékk líka hvítan stuttermabol með sem stendur á "Bodybuilding.com". Ég mátaði hann. Hann var stráka, ekki stelpur. Nenni ekki að vera í svona flaxandi stuttermabol. Ég held líka að það sé erfitt að ganga um í bol sem stendur á bodybuilding, því að þá þyrfti ég að vera með hnykklaða vöðva hvert sem ég færi. Ég held að ég yrði svolítið þreytt í handleggjunum eftir daginn.

Já! Svo er það mál málanna. Í dag, aðeins 88 dögum eftir að ég tók próf í concurrent systems, hef ég fengið einkunnina mína. Ég held að LÍN ætti aldeilis að fara að fagna, því að nú geta þeir loksins servisasð mig með svona eins og einum námslánum.

Lífið er gott!

27.2.06

I love tickets!

Ég fékk kannski ekki miða til Íslands á kostakjörum, en í staðinn á ég miða á Iron maiden tónleika...

Express smexpress

Oh.. Ég var rosa spennt þegar ég sá að Iceland Express var að bjóða fullt af sætum á 2000 kall. Ætlaði sko aldeilis að snara mér flug heim til Íslands um páskana. Jáneeeeii.. Þeir bjóða ekkert upp á 2000 króna sæti ÞÁ sko. Bara alla dagana í kring. *grumblegrumble*

26.2.06

Danskidansk

Eitt orð sem ég GET ekki sagt rétt upp á dönskuna er "hvidløg". Það er einmitt orð yfir guðaveigar miklar og góðar og þetta orð er konu aldeilis hætt við að þurfa að nota á veitingastöðum.

Ég: ...og viððlaukh
Dani: Vaaaaaaaad??
Ég... ehmm *meðvituð um sjálfa mig* hviðððlökh?
Dani: Ahh.. skal du ha' VIÐÐÐLAUKH?
Ég: Jeeh! De' e' rigtigt!

Þess ber að geta að mér finnst dana skammirnar ALLTAF segja þetta orð nákvæmlega eins og ég segi það þegar þær leiðrétta mig. Venjulega skilja þeir líka alveg bjöguðu dönskuna mína, en þeim er algjörlega fyrirmunað að skilja mig þegar ég segi "hvidløg". Ég held að þetta sé eitt stórt djók hjá þeim. Þeir hringjast örugglega á milli og tísta eins og smástelpur þegar þeir plotta þetta. Ótrúlegt að enginn hafi skellt upp úr þegar viðkomandi hefur verið að framkvæma djókið. Ekki get ég gert svona hluti með "straigth-face". Þegar ég ákveð að vera geðveikt sniðug og fela mig fyrir helmingnum og hann segir "Hvaaaaar er Óskin?" heyrist alltaf "thíhíhíh" frá felustaðnum mínum um leið. Ég ætla líka ekki að reyna að telja sopana sem ég þurfti að taka áður en við fluttum til DK, þegar við fórum í drykkjuleik heima hjá Palla sem gekk út á poker-face.

En já. Hr. Mon dróg mig, öskrandi og grenjandi (nei, reyndar ekki. Ég er bara að reyna að skapa smá drama hérna) út í göngutúr sem endaði á sunset. Þar fékk ég einmitt fyrrnefnda klausu í andlitið einu sinni enn. Sunnudagsmaturinn þetta sinnið var ekki nautavöðvi, kalkúnabringa eða annað álíka velmegunarlegt eins og venjulega. Neibbs. Hann var ennþá dýrari. Sunset bátur! Ekki selskinspels séns á trjáknúsararáðstefnu að ég hefði nennt að elda í mínu ástandi.

Ég bara kemst ekki yfir ósanngirni heimsins að ég verði svona ónýt eftir algjörlega heiðvirt semi-stredderí án mareneringu! Hvern hringi ég í til að kvarta yfir svona málum? Ég hefði haldið að karmað mitt væri með betra móti.

Brandari..

Ég gleymdi því að ég heyrði einn fyndnasta brandara sem ég hef heyrt síðustu ár í gær. Hann er svona:

Af hverju dóu mammútar út?

*pása*

Af því að það voru ekki til neinir pabbútar!


HAHAHAHAHAHAHAH

Spegill sálarinnar orðinn gluggi..?

Augun í mér eru glær eins og hótelerfingi. Höfuðið á mér er við það að klofna í tvennt og búa þannig til helvítisgjá í gegnum kúpuna, fulla af skógarnornum og ræningjum. Mér er ennþá ullt í bumbunni síðan í gær. Reyndar líður mér all in all eins og alvöru rokkara eftir venjulegt miðvikudagskvöld.

Í sannleika sagt er ástand mitt merkilega líkt því sem ég hef verið í innan við tíu sinnum áður á æfi minni. Snerti samt ekki áfengi í gær. Hef ekki svo mikið sem brost í áttina að því síðan í byrjun janúar. Þetta þykir mér merkilegt. Það þarf greinilega ekki bús til að finna fyrir þynnku.

Ætli ég tríti þetta ekki bara eins. Drekki fullt af vatni og reyni að neyða mig til þess að borða eitthvað hollt.

Djöfull þarf einhver að vorkenna mér núna. Skil þessvegna eftir smá pláss hérna fyrir neðan á færslunni þar sem þið getið gert nákvæmlega það.

............................................................................................
............................................................................................
............................................................................................
............................................................................................
............................................................................................
............................................................................................
............................................................................................

Mjúsík meiks þe vörld gó ránd

Ég er komin heim og ég þarf svo mikið að gubba. Sígarettulykt ALLSTAÐAR meira að segja innan í lófunum mínum. Fötin mín eru komin í poka vegna þess að það var svo mikil reykingafýla af þeim. Síðustu jól gaf ég næstum því fötin hans Einars til Rauðakross gámsins á sorpu því að þau voru í poka af sömu ástæðu. Stórhættulegt.

Ég þarf að gubba því að heilla tónleika sígarettureykur eftir hambó og franskar er of mikill fyrir litla Ósk. Blöööh. Tónleikarnir voru samt massa fínir. Alveg hreint yndælir. Bravery hituðu upp. Ég vissi það ekki fyrirfram. Þeir voru barasta líka fínir. Það er alveg magnað að heyra 40.000 manns klappa upp hljómsveit og gera "bylgjur" með höndunum og allur sá pakki. Þetta var alveg rosaleg upplifun. Vorkenni ykkur sem hafa ekki séð þessa hljómsveit á tónleikum! *Vorkenn*

Ahhhh.. Núna skrapp ég í sturtu, pirraði nágranann á neðri hæðinni (get ég mér til um) og þvoði fnykinn úr hárinu á mér. Þið vissuð það ekki því að þið getið ekki lesið pósk í "real time". Hahaha :o) Sturtan var fullkomin. Það er ekki oft sem það tekst að gera hita á sturtu fullkominn. Þetta eru miklu nákvæmari vísindi en að gera gott bað.

Allavegana. Ég kíkti eitthvað niður í bæ eftir tónleikana. Hefði eiginlega átt að fara heim og þurfa að gubba þar heldur en að þurfa að gubba niðri í bæ. Það var ekkert voða gaman. Við sátum fimm við sama borð. Ég var á endanum. Báðar hliðarnar voru að spjalla saman í eyrað á hvorum öðrum og ég heyrði ekkert í neinum, því að tónlistin var svo hátt spiluð. Endaði á því að fikta í einhverju blaði og miðanum á kókflöskunni minni. Var samt frekar sátt við lífið og miðana mína miðað við aðstæður. Ég fékk svo að heyra að ég væri "ekki eins opin og síðast" (þegar [insert einstaklingur] hitti mig). Mjeh. Get ekki verið öskrandi charming alla daga ársins. Þetta er bloody hard work skal ég segja ykkur.

24.2.06

I'm baking a difference..

Vatnsdeigsbollurnar fyrir morgundaginn eru komnar út úr ofninum. 12 gullnar gleðibollur búnar til úr djöfulinum og bróður hans (hvítu hveiti og smjöri aðalega sem sagt). Þá er bara að súkkulaða þær, rjóma þær og sulta og/eða vanilubúðinga þær á morgun. Þá verður til hamingja.

"Á ég ekki að baka fleiri?", spurði ég áðan, en helmingurinn hélt nú ekki og sagði að þetta yrði sko feikinóg fyrir þrjá (Gúndi kemur sem sagt memm að borða hamingju). Við sjáum til. Fjórar bústnar bollur á mann/konu/einstakling hljómar sem frekar slappur bolludagur. Í minni æsku hámaði ég í mig eins margar og eins hratt og ég mögulega gat, til þess að dobbla mallakút. Svo allt í einu þegar ég stóð upp, með 7 bollur í smárri bumbunni fattaði hún það loksins og tuðaði. Þá var náttúrulega alltof seint. Muahahaw. Ég nota einmitt sömu taktík á jólunum. Svo ligg ég uppi í sófa og má mig vart hræra, því að þá myndu hamborgahryggur og brúnaðar kartöflur leka út um eyrun. Ég bara rétt hreyfi á mér hendina til þess að skófla upp í mig súkkulaði, rúsínu og hunangs-hnetu mixinu sem er út um allt í skálum í kastalanum á ljósahátíðinni.

Multimedia message

Hvorki dökkt né hroðalega ljóst. Við klippikonan fundum milliveg..
Powered by Hexia

23.2.06

I Own Screwdriver. Will Fix Cat For Food.

Hmmm.. ég er búin að vera að brjóta hugann svo að hann liggur nú í þúsundmilljóntrilljón molum á gólfinu. Hvernig get ég safnað peningi á auðveldan máta. Hvað get ég búið til og selt á internetinu eða whatnot. Mig langar í 40.000 kall svo ég geti tekið ISSA einkaþjálfaranámskeiðið og prófið. Langar eins mikið og ég er löng. LAAAAAAAAAANG. OKay. Meira en ég er löng þá. LAAAAAAAAAAAAAAAAAAAANG.

22.2.06

Mind reboot

Áðan setti ég slökunartónlist á iPodinn (sem er tengdur við græjurnar), setti svo grænan andlitsmaska á trýnið og gúrkusneiðar á augun alveg eins og ég hef séð í bíómyndunum. Ekki færu bíómyndirnar að ljúga! Svo lagðist ég upp í rúm, undir sæng og á hitateppi og tók alveg prýðilega slökun. Alveg hreint magnað hvað það fer vel með konu að reboota huganum. Ég get ekki skilið hvernig fólk kemst í gegnum vikuna án þess að stunda reglulega slökun eða hugleiðslu. Hakuna-matata er líka auðveldara þegar ég þarf ekki að keyra út um allar trissur eins og á Íslandinu. Djöfull get ég orðið pirruð þegar ég er að keyra. Eða. Mér finnst gaman að keyra. Ég bara meika ekki fólkið sem er að þvælast fyrir mér alltaf hreint. SKO!! ÞÚ OG BÍLLINN ÞINN GETA BARA FARIÐ TIL HELVÍTIS EÐA HÚSAVÍKUR!! *anda inn, anda út* Ahhh.. já.. Slökun. Gott stöff.

Annars fór ég út í búð áðan á meðan Hr. Mon var í skólanum til þess að kaupa nýjan DVD spilara á ofurtilboði (hinn er dávinn). Þar sem að téður Hr. Mon er mikill áhugamaður um Yankie súkkulaði, þá ákvað ég að fjárfesta í Yankie köku sem ég rakst á í búðinni fyrir 10 krónur. Í dag fékk ég titilinn "besta kærasta í heimi". Það þarf ekki mikið til! heheh

Á laugardaginn..

Fyrir 5 mánuðum síðan fjárfesti ég í miðum á tónleika. Núna á laugardaginn eru loksins þessir tónleikar. Ekki bara hvaða tónleikar sem er heldur.. Neeeii.. Þetta er ekki hefðbundnu, dana-tónleikar eins og Ricky Martin eða Robbie Williams. Þetta eru Depeche mode tónleikar þenkjúverímötsj!

21.2.06

Multimedia message

Ég og vinalegi boltinn
Powered by Hexia

Afar undarlegt..

Mér þykir það skrítið að hægt sé að dæma mann í 3ja ára fangelsi (reyndar allt að 10 ára virðist vera) fyrir að halda því fram fyrir 17 árum síðan, það ekki hefðu verið gasklefar í útrýmingarbúðum nasista í Auschwitz.

Nú er ég alls ekki að halda því fram að þetta hafi verið rétt hjá honum. Ég er bara að spá í hversu langt megi ganga í að ritskoða fólk í vestrænu ríki.

Gasfélagið mitt er fyndið..

Danmörk er ekki eins vel sett og Ísland, hvað endalausar uppsprettur heitu vatni varðar. Hér er notað gas í miklu mæli. Nú var að berast bréf frá gasfélaginu okkar, sem heitir Naturgas. Það finnst mér nú bara nasty út af fyrir sig, því að ég fékk í smá stund þá hugmynd að ég væri að elda með metangasi. Allavegana. Með bréfinu fylgdi lítið tímarit, sem er tímarit gasfélagsins. Tímaritið hét *pása* Natur magasin.

HAHAHAHA

Kom godt i gang með GYMBALL

Í janúar fjárfesti ég í svona rista stórum, vinalegum bolta í Fötex. Vinalegi, grái boltinn, pumpa og DVD æfingadiskur fékkst á eitthvað klink. Sá líka að það var verið að selja sömu samsetningu í Netto fyrir 20 kall í vikunni. Ég hafði þó önnur plön fyrir kvikyndið en að sitja á honum á meðan ég horfði á ofvirkan íþróttaálf skrækjandi "OKAÆÆJ! Vúúúh". Mín pæling var að kona situr nefnilega svo rétt á þessu að það er alveg prýðilegt að tölvast, sitjandi á stórum bolta ef henni er illt í bakinu.

Aaaanywho. Í morgun tók ég mig svo til í einhverri geðveiki og prufaði æfingadiskinn. Hvern hefði órað fyrir því að það væru bara nokkrar kick-ass æfingar sem er hægt að gera á stórum bolta. Berfætti kvenmaðurinn á myndbandinu og boltanum sagði ekki "Vúh". Reyndar sagði hún ekki orð, heldur var svona "narrator". Það var róleg bakgrunnstónlist og ég fékk svona nettan jóga fílíng.

Berfætta konan gerði að vísu æfingarnar húsmæðralega oft (3 sett, 4-8x í hvert skipti) og það hjálpar mér ekkert að gera 8 magaæfingar í hverju setti ef ég er vön að gera 60-70. Ég skellti bara á pásu og gerði oftar. Ég var sérstaklega sátt við quad og hamstring (framan og aftan á lærum. Hvað í andskotanum heita þessir vöðvar á íslensku?) þjálfunina sem fæst með þessu. Ég reyndar náði alveg prýðilegri lappa og maga æfingu út úr þessu. Í dag er einmitt neðri-parts lyfti dagur hjá mér og svei mér þá, ég er ekki frá því að þetta hafi verið ágætis svoleiðis!

Nú er alveg spurning um að fara að googla fleiri æfingar sem hægt er að gera með þessum gleðigjafa.

20.2.06

Helvítis bangsar! *öfund*

Ég var að skoða build a bear heimasíðuna í Danmörku og... og...

MIG langar í bol sem er með fullt af ungum með bleikar kórónur sem stendur á "Chicks rule"..

Multimedia message

Hollar pönnsur. Set inn uppskrift eftir smá...
Powered by HexiaUpdate: Uppskrift komin inn

Hvað er málið..?

Skyndilega langar mig meira en allt annað í heiminum í ristaða kanil og rúsínu beyglu með smjöri og osti. Ef möguleiki væri á að versla slíkan munað hérna, myndi ég líklega barma mér ennþá meira, þar sem að þetta væri mér ei sæmandi nema á laugardögum.

Þess má geta að ég held ég hafi síðast borðað ristaða kanil og rúsínu beyglu með smjöri osti.. þegar ég var svona 13-14 ára. Síðan eru liðin svona 4 - 5 ár. Give or take.

Bollabollabollabolla..

Laugardagur, ég skíri þig bolludag!

Gamlir og farþegar..

Við ætluðum að vera rosalega sniðug og fara snemma í búðina í dag. Fyrir hádegi og whatnot. Ákváðum að það væru nú ekki margir að versla á morgnanna. Það var barasta rangt hjá okkur. Það voru alveg eins margir að versla núna og á því sem við héldum að væri álagstími, nema að það var BARA gamalt fólk sem telur klink og fólk með farþega (ponsur í barnavögnum). Kemur ekki bara í ljós að það er BETRA að versla á "álagstíma". Hvern hefði órað......

19.2.06

Valkvíði..

Ég er að spá í að fara í klippingu í vikunni. Ég get bara engan vegin ákveðið mig hvort ég ætla að halda mig við brúna hárið eða hvort ég eigi að snúa aftur að ljósu lokkunum. Back to my roots. Hahha. Þetta er einmitt sérstaklega fyndinn orðaleikur, nú þegar ræturnar á hárinu á mér er ljósari en restin.

Hmm. Það er ágætt þegar hárlitur er stærsta vandamálið í lífi konu...

Skírnarfatatískan í ár..

Við Einar komum með þá brilliant hugmynd áðan að það væri ekki nóg að láta fólk fara hjá sér yfir fermingamyndunum sínum. Þar eru einmitt rosalegir tískustraumar ár frá ári og til að mynda var það aðal flottið þegar ég fermdist að vera í skærlituðum pilsum og kjólum úr sundbolaefnum og klossuðum skóm með kubbahælum. Þess ber að geta að ég fermdist ekki í slíkri múderingu.

Spáið í hvað það væri fyndið ef það væru líka tískustraumar í skírnagöllunum. Það væri allavega stuð að mæta í skírnarveislur þar sem að nýja barnið væri í neonlituðum spandexgalla með fylgihluti..

18.2.06

Þetta ætti að takast í þetta skiptið..

Æiæiæi. Blogger barasta borðaði 2 færslur frá mér í gær. Hann hefur verið svangur litla skinnið. Önnur var auð-endursmíðuð en hin var nú meira vesen.

Svona byrjaði færsla sem ég skrifaði í morgun. Ég póstaði henni svo, en blogger borðaði hana barsta líka. Svo fór ég að athuga hvað vandamálið væri (partur af því að vera "háskólaborgari" er að afla sér upplýsinga. Það segir Guðfinna allavega) og komst að því að það væri einhver bilun í gangi. Hún hefur nú verið löguð af stæðilegum kerfislögurum með skiptilykla. Ég kvarta ekki því að blogger hefur reynst mér vel síðustu árin og svo er þetta líka ókeypis þjónusta. Ekki eins og ég sé að tapa monnís á því að geta ekki blaðrað um líf mitt (eða skort þar á..). En já. Auðvitað átti ég færsluna síðan í morgun á lager. Fool me once. Shame on you. Fool me twice.. and... and.. I wont get fooled again!

Held ég nú áfram lestrinum. Eh. Afrituninni. Kannski ég ætti að byrja upp á nýtt svona til að hafa samhengið í lagi? Sjúr.

Æiæiæi. Blogger barasta borðaði 2 færslur frá mér í gær. Hann hefur verið svangur litla skinnið. Önnur var auð-endursmíðuð en hin var nú meira vesen.

Hún var geðveikt fyndin og var um fólk og litla hunda í samstæðum skokkgöllum og með legghlífar. Nema hundarnir voru svo litlir að þeir gátu bara verið í legghlíf. Svo sagði ég eitthvað um pie. Ókay.. reyndar ekki..

Hún var sem sagt um að ég hefði farið í vísindaferð í gær, á vegum Íslendingafélagsins í DTU. Stéttarfélag verkfræðinga og Verkfræðingafélag Íslands voru með kynningu og buðu upp á möntsj. Það var aldeilis ágætt.

Svo talaði ég um að í lestinni á leiðinni heim hefði setið á móti mér skrítinn maður sem kallaði á konu sem sat í sama vagni og var í svona múderingu þannig að það sést bara smá í augun: "Ertu viss um að þú megir lesa frjálsan fjölmiðil!!?". Hún var sem sagt að lesa Urban. Hún hrökklaðist út. Hann var ennþá hálf hneykslaður yfir því að hún hafi verið að lesa danskt blað. Teiknimyndir virðast ekki hafa góð áhrif á fólk..

Ég á milljón dollara hugmyndir..

Ég er með hugmynd af nýrri law and order seríu:

Law and order SUV.

Crewið keyrir um á mystery machine og leysir glæparáðgátur án hunds með talmein. *BÚMMBÚMM*

Tekur þú eftir einhverju nýju?

Neeei.. Ég var ekki í klippingu. Reyndu aftur! Nei, ég var ekki í ljósum heldur. Comeeee on! Æi. Þú fattar þetta eftir helgina! :o)

17.2.06

Ég er með kennara sem hefur kennt úti í Kína. Hún segir alltaf "literarry". Mér finnst það ógeðslega fyndið.

En segið mér annars eitt. Hvort mynduð þið bera nafnið "Euler" fram sem "ojler" eða "júler"?

16.2.06

Hljómar c.a. rétt...... Kona getur verið "spiritual" þó hún sé ekki trúuð. Karma, gullni meðalvegurinn, hugleiðsla, slökun.. engin endurholdgun.. Yesyes.

You are a Self-Discoverer

You're not religious, but you've created your own kind of spirituality.
Introspective and thoughtful, you tend to look inward for the divine.
You are distrusting of all forms of organized religion.
You especially dislike religious gurus and leaders, who you feel are charlatans.
Hefur þú einhvern tímann dansað við djöfulinn í vægu mánaskini?

15.2.06

Hahaha.. djöfull væri hægt að leika einhvern illa með því að skrá nafnið hans þarna til vinstri.
Föstudagur, laugardagur, sunnudagur, fimmtudagur og föstudagur, laugardagur og sunnudagur og þá er vikan búúúúin...
Stundum pota ég í marbletti sem ég finn á mér, til þess að athuga hvort það sé nokkuð vont. Stundum pota ég líka í marbletti á öðrum sem ég þekki.

*pooooooooot*
Rómantískt?
Vá. Pant ekki gifta mig í flugvél
Þegar ég var í 6. - 7. bekk í grunnskóla átti ég svolítið steikan kennara. Hún keyrði um á appelsínugulum skóda. Af því að það mátti ekki reykja á skólalóðinni, keyrði hún alltaf bílnum sínum út af lóðinni í frímínútum til að fá sér smók. Við erum að tala um svona 200 metra kannski. Á mánudögum var stundum áfengislykt af henni. "Hvað er þetta! Ég fékk mér eina rauðvín með matnum í gær!" sagði hún gjarnan ef einhver kommentaði á það. Hún var samt alveg prýðilegur kennari greyjið og eini kennarann sem entist sem umsjónakennari bekksins míns lengur en eitt ár áður en hann komst í "gaggó".

Mér varð hugsað til hennar núna vegna þess að öskudagurinn nálgast. Það var nefnilega alltaf grímubúningaball hjá okkur á öskudaginn og hún mætti í bæði skiptin sem hún kenndi okkur í sama búningnum. Hún var sem sagt í skræpóttum streach buxum, röndóttri, marglitri peysu og með skræpóttan klút á enninu. Hún var "vorið".

Ég man líka eftir ógeðslega morkna kattarbangsanum sem var bundinn við spotta sem var festur við prik. Við fórum svo í röð til þess að láta einhvern kennara sveifla kattartuðrunni í andlitið á okkur, en við fengum nammipoka fyrir vikið. Þetta var kallað "að kyssa köttinn".

Ohhh.. ég vil fara í grímubúningapartý!
Á eftir fer sænska eðalkjötbollan aftur heim til sín, til Hertz. Bless kjötbolla! Bleeeess!!

14.2.06

Váh! Ég er að horfa á Skandinaviens næste top model og ein stelpan er í alveg eins kjól og ég á, nema minn er svartur og hennar er grænn. Módel versla greinilega líka í Fötex!

Jeij. Hún var síðasta stelpan sem komst áfram. Áfram kjóll! ÁFRAM!

Annars er þetta fyndið. Það er einhver ljóshærð beygla sem þykist vera Tyra Banks og það er enginn vond,vond Janice. Svo sitja dómararnir við hringborð, drekka hvítvín og spjalla um hver eigi að komast áfram. Svo skála stelpurnar sem detta ekki út í hvítvíni barasta líka.

Multimedia message

Mér leiðist! Sér það einhver?
Powered by Hexia

Í mér býr listakona
....og það er list að elda!

Ég er búin að vera með svo mikið craving í svona saumaklúbbsrétti. Mér er líka ekkert boðið í afmæli og saumaklúbba hérna í Danmörkunni, svo þarna er ákveðin þörf til staðar sem er ekki fullnægt. Eftir smávegins googlun kom í ljós að í slíkum saumaklúbbsréttum er alltaf majónes og fleiri hlutir sem mér þykir eigi vera mér samboðnir.

Ég setti því hárið upp í Marge-greiðslu, spreyjaði það svart setti eina, hvíta skunka línu á sitthvora hliðina. Svo skellti ég mér í hvítan tilraunastofu slopp, fór í tollskoðunar hanska og setti á mig logsuðugleraugu.

Þegar múderingin var orðin góð, ráfaði ég um í eldhúsinu í leit að íhlutum. Skinka, sveppir, aspas.... ofn.. Og svo..

IT'S ALIVE!! IT'S ALLIIIIIIHHHHIIIIVE!!

Mér tókst að búa til "heitan rétt" sem var pr. 100 grömm: 105 kal, 10.1 gr. prótein, 10.8 gr. kolvetni, 2.4 gr. fita. Hann var meira að segja bara alveg prýðilegur á bragðið.

Ég hef hér með ákveðið að þróun skuli haldið áfram. Ég skal sko búa til rosalegasta saumaklúbbs/afmælis/whatever rétt í HEIMI og hann skal vera eins hollur og hann er fallegur og góður. Það mun sko verða mín rosalegasta uppfinning síðan fleeze pils!
Íslenskir læknar mættu sko alveg taka þessa dönsku sér til fyrirmyndar. Heima á Íslandi þurfti ég að hanga í símanum í hálftíma (og ekki hvaða hálftíma sem er. Neineinei.. SÍMATÍMANN heilaga, en honum verður ekki hnekkt) ef ég vildi fá uppáskrift á pilluna, á meðan mér var gróflega misþyrmt af "Titanic laginu", útsettu á skemmtara af 7 ára barni. "Læknirinn er ENN upptekinn. Símtöl verða afgreidd í réttri röð". Sagði svo einhver leiðinda kona á 30 sekúntna fresti. Þegar læknirinn svaraði loksins, var stundum það eina sem ég gat sagt "Læknirinn er ENN upptekinn...", á meðan ég lá í fósturstellingunni úti í horni, með símann í hendinni.

Hér í Danmörku logga ég mig inn á heimasíðu, skrifa inn lyfið sem ég vil fá og í hvaða apótek ég vil sækja það. Svo er ég látin vita í e-mail þegar læknirinn hefur samþykkt lyfseðilinn. Lifi internetið!
Hr. Mon keypti sér nýjan ilm (ilmvatn, rakspýra, sturtugel, deo) á kostakjörum á ferð okkar um meginlandið. I approve. Ég kann reyndar svo vel við þessa nýju lykt að ég á það til að stelast í ilmvatnið, taka af því tappann og þefa af því ef ég á leið inn á sturtuherbergi (af hverju ekki sturtuherbergi frekar en baðherbergi?).

Nammnamm. Af hverju ætli það séu ekki til fleiri svona ferskar melailmvatnslyktir? Alltof margar yfirþyrmandi þungar og hausverkjavaldandi.
Mjahá. Þá er ég búin að fá einkunn fyrir kúrs sem kláraðist í lok janúar, en EKKI fyrir kúrs sem kláraðist 12. desember. Neiiii. Hún kemur í NÆSTU viku. Það er auðvitað eðlilegur og góður hraði. Annars komum við okkur sjálfum í opna skjöldu og fengum 11. Það voru bara tveir hærri en við. Þetta væri kannski ekki svo skrýtið hefðum við lagt meiri vinnu og metnað í skýrsluna okkar.

En Mús Leeeeee! Við kvörtum ekki.

13.2.06

*teygja úr sér* Ahhh.. Þetta var aldeilis erfiður mánudagur. Ég þarf barasta tveggja daga frí til að jafna mig eftir hann. Ó.. Bíddu. Ég ER alltaf með tveggja daga frí eftir mánudaga..

SWEET!
Upp á síðkastið hef ég farið á "elliptical" græjuna í staðinn fyrir hlaupabrettið á brennsludögum. Ég hef verið með kvef, sem gerir það að verkum að það er erfiðara að hlaupa sömu vegalengd á sama tíma eins og annars. Ég hef líka lesið að elliptical gaurinn sé mesta ofur-brennslumaskína sem hafi nokkurntímann verið fundin upp. Ekki nóg með að hún verndi hnén fyrir óþarfa álagi, heldur hafa rannsóknir líka sýnt að fólki finnst það vera að reyna minna á sig þegar það er í hámarkspúls heldur en á öðrum græjum og það getur þar af leiðandi haldið lengur út. Meira að segja "Mobile coach" forritið mitt sem er í ipaq-inum mínum segir að ég brenni meira á elliptical græjunni heldur en eins löngum tíma af high intensity hlaupi.

Hingað til hefur vandamálið mitt verið að lít ég út eins og ég hafi verið í sturtu í fötunum eftir hlaupabrettið, en ég þarf rétt að þerra á mér ennið eftir elliptical session. Í dag tókst mér loksins að tjúna þetta almennilega til. Ég var móð og másandi og þegar ég steig af græjunni riðaði ég öll og skalf og fæturnir gátu nánast ekki borið mig lengur. Djöfull var það gott. Það er fátt eins frábært og almennilegt HIIT!
Skrítið. Mér finnst lúmskt pirrandi þegar fólk talar um að "brytja" eitthvað í staðinn fyrir að skera það.

12.2.06

I'm bigger than my body gives me credit for
Ohh.. Heimurinn er alltaf svo upptekinn af því vonda, en ekki því góða. Af hverju les kona t.d. aldrei fréttir um goodminton?
Hmmm... Hvar er vatnsflaksan mín??

11.2.06

Multimedia message

5 lítra tekíla flaska for good measure...
Powered by Hexia

Frí til Þýskalands..
...kind off

Ahhhh. Á meðan að hanarnir sváfu ennþá værum svefni og létu sér dreyma um korn og fagrar hænur, fórum við á fætur, snæddum morgunmat og brunuðum svo af stað. Við keyrðum í svona einn og hálfan tíma, eða þangað til að við komum að ferjunni sem flutti okkur til Þýskalands. Eftir eplaköku og 45 mínútur, keyrðum við aftur hjólum á fast land. Ahh. Meginlandið! Á meginlandinu var 2°C heitara en í Danmörku, verðið var lægra og fuglarnir sungu hærra. Reyndar var margt hærra í Þýskalandi, t.d. mittislínan á buxunum hjá fólki.

Við brunuðum smá spöl og í bæinn Burg. Nafnið minnir mig skemmtilega mikið á vin minn hann Andra Frey, 2ja ára (Andri, segðu lati: Lati! Segðu bær: Bær! Segðu latibær: BÆÆÆÆR!!). Burg er sérstaklega krúttlegur bær, með fallegum húsum, litlum, sætum vetingastöðum og dandiscount búð. Við byrjuðum á því að fara í búðina. Þar var ekki þverfótað fyrir dönum með KR merki í augunum, teljandi allan peninginn sem þeir myndu spara ef þeir keyptu meira og meira. Eftir að hafa þrætt gangana og fyllt kerruna okkar m.a. með 3 kössum af tuborg classic og 3 kössum af kóki, héldum við að einni kassadömunni til að borga ósköpin. Þar þurfti undirrituð að fylla út eitthvert plagg, þar sem fram kom hvað ég héti, í hvaða landi ég greiddi skatt (hvergi reyndar..), hvar ég byggi og svo númerið á vegabréfinu/ökuskírteininu mínu. Eftir að hafa skrifað samviskusamlega í alla reitina bað afgreiðslukvendið vinsamlega um að fá að sjá ökuskírteinið mitt. Svo hringdi hún í yfirmanninn sinn. Hún talaði útlensku, en ég skildi hana því ég skil nefnilega útlensku! "Hæ, er Ísland í Skandinavíu? Já er það? Okay flott!". Svo þakkaði hún okkur fyrir viðskiptin og við máttum fara. Áhugavert. Ég var ekkert að leiðrétta þetta þar sem að þessi landafræði kom sér vel fyrir mig á þessari stundu.

Frekari dvöl okkar í Burg einkendist af snæðingi, búðarölti og almennu rölti, þar sem ég sló um mig á þýsku. Ég held að ég yrði fljótari að picka upp þýskuna aftur heldur en dönskuna. Þjóðverjar eru nefnilega þeim skemmtilega eiginleika gæddir að segja orðin eins og þau eru skrifuð, en það vinir mínir er eitthvað sem þið ættuð ekki að ganga að sem vísu!

Í einni búðinni sá ég stórkostleg stígvél. Þau voru reyndar svo stórkostleg að ég íhugaði vel og lengi hvort ég ætti að kaupa þau, þrátt fyrir að þau kostuðu 89 evrur (c.a. 6600 kall), sem er langt yfir því verði sem ég tel eðlilegt í þessum efnum. Þau voru há, ekki með neinum hæl, en hælar eru djöfulegir, sérstaklega ef kona er ei bílandi. Þau voru svört, með bláum saumum, rennilási upp eftir hliðinni og 2 frönskum efst. Það var bara 1 par eftir, sem var nr. 37 (einu númeri of stórt). Í Burg sitja eftir STÓRKOSTLEG stígvél og bíða eftir heppinni stúlku sem notar skó nr. 37, þar sem að ég ákvað að ef ég ætti ekki að fara út í svona rosalega fjárfestingu ef gripurinn smellpassaði ekki.

Á leiðinni aftur í ferjuna, stoppuðum við í annari skandinavabúð. Hún þessi var örugglega eins stór og Mikligarður forðum, nema bara full af búsi, nammi og gosi. Þarna mátti finna allar mögulegar tegundir af miði, sterku og sælgæti. Við versluðum reyndar ekkert þarna, enda vel búin að "dett'íða" í búð sem var vinalegri við veskið. Við gátum samt ekki annað en rölt gapandi um gangana þarna. Djöfulsins stærð á þessu! Hver vissi einu sinni að það væri til vodka í kössum með krana eða sítrónu after eight?

Þetta var annars frábær ferð í alla staði. Merkilegt hvað kona getur endurhlaðið sig á því að skipta um umhverfi, þó það sé ekki nema í einn dag eða svo.

10.2.06

Stundum..
Stundum (en ekki öllum stundum) finnst mér gaman að skoða heimasíður hjá dýrum og flottum hótelum. Ég skoða myndir af herbergjunum í hvern krók og kima. Mér finnst gaman þegar hótelherbergin eru með stórum hornbaðkörum, því að hérna erum við bara með strutu. Svo les ég um alla þjónustu sem er í boði, sérstaklega ef hótelið er með spa. Ég ímynda mér hvernig það væri að gista á hótelinu og þurfa ekkert að hugsa um hvað hlutirnir kosta. Ég sé fyrir mér bubblurnar í freyðibaðinu, litlu complementary sjampó flöskurnar og að ég noti eitt handklæði fyrir hvern líkamshluta, því ég þarf ekki að þvo þau sjálf. Svo spái ég í hvaða spa meðferðir ég myndi velja og hvað það væri gaman að eyða tíma í rosalega fínu herberginu, bíta í hvern hlut úr mini barnum 1x og lesa ógeðslega spennandi bók á meðan ég slappa af eftir nuddið, andlitsmaskann og handsnyrtinguna.
Stundum... þá líður mér eins og ég hafi verið í fríi þegar ég loka eldrebbanum..

Annars eru mamma og pabbi farin aftur til Íslands. Það var rosalega gott að sjá þau.
Stundum... er nefnilega fjölskyldan mín og vinir mínir aðeins of langt í burtu, þó að ég geti alltaf talað við þau í gegnum tölvuna þegar ég vil...
Mist Eik. Línus Gauti. Ríta Lín. Dís Ester.

Ohhh.. þessi nýju krúsídúllunöfn gefa svo mörg ný tækifæri!

8.2.06

Váts. Þýsku landamærabúðirnar eru rosalegar. Þetta eru búðir sem eru staðsettar í bæjunum rétt hinu megin við landamærin hjá Þýskalandi. Þessar búðir taka við dönskum peningum og selja oft danskan varning, nema bara miklu, miklu ódýrara en í Danmörku. Þar er hægt að kaupa 3 kassa af carlsberg bjór fyrir 130 kall og margt fleira í þeim dúr. Við fáum oft tilboðsbæklinga frá þeim. Hérna er ein sem lofar því að borga fyrir konu bensín og kostnað við ferjuna ef hún kaupir fyrir meira en 500 kall í búðinni þeirra!

Mamma og pabbi koma í heimsókn í kvöld og fara svo á föstudaginn. Þau tóku hinsvegar bílaleigubíl í heila viku, svo við verðum bílandi í nokkra daga eftir að þau eru farin heim. Alveg spurning um að skella sér til Þýskalands um helgina og koma við í þessari búð á bakaleiðinni! :o)

7.2.06

Hvernig ætli verðkannanir á eiturlyfjum séu gerðar? Ég er bara að velta því fyrir mér, því að oft kemur í fréttunum eitthvað eins og að grammið af hassi kosti núna [insert monnís] eða amfetamín sé að hækka í verði.

Ætli fólk í þurrkun sé spurt hvað það hafi keypt dópið sitt á marga penigna?

Ætli fólkið sem geri verðkannanirnar hringi í alla dílera sem það þekkir og taki meðaltal. "Já góðan daginn. Hvað kostar grammið af kóki hjá þér núna? Mhmm.. En heróíni...?"

Ætli þetta sé eins og þessi margumtalaða karfa sem er notuð til að athuga verðmun á milli stórmarkaða? Fólk mæti til díleranna og taki niður verð á fyrirfram ákveðnum eiturlyfjum. Svo séu dílerar búnir að komast að þessu og lækka verðið rétt áður en verðkannarinn kemur. "Ódýrastar voru LSD pillurnar hjá Sigga Tönn...".. ?
Ekki fleiri Andrésblöð takk!
Eða ætti ég kannski að segja Andersblöð? Já, líklega. Við höfum fengið hvorki meira né minna en 6 stk. af slíkum blöðum send til okkar á vitlausu nafni. Á hvert einasta blað hef ég krotað yfir heimilisfangið og skrifað "Findes ikke her" og hent þeim fram á gang. Um daginn kom vinalegur póstmaður og tók þau öll saman, en síðan þá hafa komið 2 ný!

Þessi helvítis blöð eru samviskupróf! Ég ætla náttúrulega ekki að fara lesa þau (og svo eru blöðin líka miklu leiðinlegri en syrpurnar. Alltaf stuttar og þunnar sögur og hvað er málið með þessar framhaldssögur. Booo-riii---ng), enda borgaði ég ekki fyrir þau. Ég ætla heldur ekki að opna þau og leika mér með dótið sem fylgir alltaf með þeim. Ég get ekki hennt þeim, því að einhverstaðar býður Christian litli spenntur eftir að Anders blöðin sem hann gerðist áskrifandi að fyrir 2 mánuðum síðan byrji að koma til hans. Ef ég krota yfir heimilisfangið og hendi þeim út á gang, þarf ég að labba yfir þau í einn mánuð (give or take) áður en pósturinn tekur þau. ARG! Alveg finnst mér merkilegt að famelían hans Christians sé ekki búin að kvarta yfir Andersblaða skorti...

6.2.06

Ég tek aftur allt sem ég sagði áðan um ökuleikni danskra í snjónum. Áðan sá ég strætóinn sem stoppaði hinu megin við götuna festa sig í svona 5 cm djúpum snjó. Ég og íslenskur strákur sem er með mér í nokkrum tímum hlógum að honum. Það var gott að ég var að tala við einhvern, því að það er hálf kex alltaf að hlægja ein með sjálfum sér í almenningi, þó ég eigi það til. Strætóinn spólaði í góðar 5 mínútur áður en hann fattaði að bakka og keyra af stað. Ætli einhver í talstöðinni hafi sagt honum það?
Það er erfitt fyrir lítinn Íslending að skilja reiðina og hatrið í heiminum núna. Margir múslimar eru svo slefandi heimskir að þeir setja samasem merki á milli þess að vera Dani og þess að birta skopmyndir af spámanninum. Margir Danir eru svo slefandi heimskir að þeir setja samasem merki á milli þess að vera múslimi og þess að brenna sendiráð.

Hér á landi eru vissulega öfgahópar líka. Danskir öfgahópar. Nýnasistar og þjóðernissinnar sem rústa pizzastöðum, hóta því að brenna kóraninn og öskra "Danmörk fyrir Dani". Þeir hafa haldið mótmæli gegn múslimum og innflytjendum síðan að þeir byrjuðu að sniðganga danskar vörur. Ég held að þetta sé fólkið sem múslimaheimurinn heyrir af og dæmir alla Dani eftir, alveg eins og fólkið sem við heyrum af og margir dæma alla múslima eftir, er fólkið sem hótar að "hakka alla Dani í spað".

Þegar ég fór í ræktina í morgun var haugur af blöðum á borðunum fyrir framan innganginn. Jyllands Posten og Urban og eitthvað. Á forsíðum blaðanna stóðu hlutir eins og "Danir kveiktu sjálfir í" eða "Danir geta sjálfum sér um kennt" og fyrir aftan var mynd af logandi sendiráði. Einhver hafði komið með alveg heilu kassana af þessu og dreift á milli borða.

Ég veit ekki alveg hvað er í gangi og ég veit ekki alveg hvernig þessir menningaheimar eiga að geta búið saman án þess að það sjóði uppúr. Mér finnst það líka skrítið að Danir hafi verið valdir sem skotmark fyrir alla þessa reiði. Þessar skopmyndir eru dropi í hafið. Southpark var einu sinni með heilan þátt sem gerði grín af Múhameht spámanni og þar var hann jú teiknaður líka. Bandaríkjamenn og þá sérstaklega kristnir öfgamenn hafa látið ýmislegt ljótt falla um múslima sem heild á opinberum vettvangi. Af hverju Danmörk? Er þetta nógu lítið land til að ráðast á?
Það er aftur byrjað að snjóa. Það hefur reyndar verið snjór á jörðinni frá því að við komum hingað 30.des, eftir jólin á Íslandinu. Ég held að sóp-bílarnir sem koma í mörgum stærðum (fyrir göngustíga, hjólastíga og götur) séu orðnir liprari í að sópa snjónum í burtu og langtum fleiri bílar í götunni minni hafa skellt sér af stað, en venjan er þegar það snjóar. Ég á samt aldrei eftir að venjast því að sjá fólk rölta um með regnhlífar þegar það snjóar. Það er eitthvað skrýtið sko.

5.2.06

Multimedia message

Mér finnst þetta svo fyndið að ég pissaði næsrum því í mig úr hlátri þegar ég sá þetta. Þetta er sem sagt dönsk syrpa og já, fyrir neðan myndina af gömlu öndinni stendur "slut". HAHAHAH
Powered by Hexia

Áðan keyptum við fallegt blóm í hvítum blómapotti fyrir 25 krónur í Nettó. Eða. Plöntu kannski frekar. Hún er ekki með neinum blómum. Einar skírði hana Robert (Plant). Núna finnst mér allt í einu vera miklu heimilislegra hjá okkur. Þetta var ekki almennilegt heimili fyrr en það kom planta. Mig langar reyndar líka í gullfisk í lítilli skál, en það gæti orðið erfitt að redda fiskapössun ef við skreppum til Íslands í lengri tíma o.s.frv.

Ah.. ég veit annars hvað þið eruð að hugsa! Búðir opnar? Á sunnudegi í Danmörku? Hvað er að gerast? Bara epli hérna!? Þannig er mál með vexti að helstu búðirnar hérna hafa opið bara fyrsta sunnudaginn í mánuðinum og þetta þykir fólki alveg byltingakennt! Hægt að versla. Og það á sunnudegi! Já seisei. Hvað næst? Maður á tunglinu?

4.2.06

Í dag keypti ég mér 2 metra af dökkgráu fleeze efni fyrir 125 kr. Ég saumaði mér svo STÓRKOSTLEGT fleeze pils með hjálp Queen deluxe (saumavélin mín. Ætluð fyrir drottningar, ætluð fyrir mig!). Ég er ekkert smá ánægð með það og með mig fyrir að hafa geta hannað og saumað það. Það er ekki bara flott, heldur líka hlýtt og geðveikt þægilegt.

Ég notaði reyndar bara 1/4 (give or take) af efninu sem ég keypti, svo núna á ég grátt fleeze efni á lager. Spurning um hvað ég get búið til meira úr því.
2 og 1/2 ár :o)
Löng færsla um skopmyndir..
Ég er búin að vera að pæla.. Sjáum fyrir okkur allt sem gerðist með Jyllands Posten, nema eftirfarandi viðbrögð frá múslimasamfélaginu:

"Þrátt fyrir að fjölmiðlar á vesturlöndnum geti í krafti prentfrelsis birt nánast hvað sem er, ættu þeir engu að síður að sýna ábyrgð. Fyrir múslimum eru myndirnar sem birtust guðlast og þetta vissi blaðið. Eini tilgangur þess til að birta myndirnar var að sýna að þeir gætu það. Með sömu rökum hefðu þeir allt eins geta birt teiknaðar myndir af Jesú og lærisveinunum í grófum kynlífsathöfnum, en þá hefði reiði kristinna manna verið tekin sem góð og gild.

Í nútíma samfélagi, þar sem að nálægðin er mikil og menningaheimar mætast, verður fólk að geta borið virðingu fyrir trúarskoðunum annara [innskot frá Ósk í hlutverki Óskar: Within reason]. Við fordæmum þessar myndbirtingar og vonum svo sannarlega að aðrir í hinum siðmenntaða heimi geri slíkt hið sama."

...haldið þið þá að öll hin blöðin á Evrópu hefðu birt myndirnar líka? Haldiði að kynþáttahatur hefði samt vaxið og stuðningur við þjóðernisflokka hefði aukist? Haldið þið kannski að blöðin sem birtu myndirnar, hefðu þess í stað gagnrýnt JP, þar sem að nú væri ekki verið að reyna að beita ritskoðunum, heldur velta upp spurningu um ábyrgðinni sem fylgir prentfrelsi og að hvort að það að þú getir gert eitthvað þýði að þú ættir að gera það.

Það er erfitt að segja. Kannski hefði enginn tekið eftir þessu og öllum verið sama, hefðu þeir ekki sýnt ofsafull og ofbeldishneigð viðbrögð.

Ég er á móti báðum aðilum í þessu máli. Jyllands Posten hafði engu meiri rétt á því að birta þessar myndir, heldur en DV hafði fyrir stuttu á að gera það sem það blað gerði. Íslendingar brugðust við með heift og heygöfflum þá, á meðan þeir almennt styðja JP í þessu máli núna.

Á hinn bóginn finnst mér viðbrögð múslima vera all rosalega ýkt og það er erfitt að sýna samúð og samstöðu með þeim, þegar þeir haga sér í stórum stíl á þennan máta. Það pirrar mig að sjá hóp múslima brenna danska fánann með trúartákni kristni, eins og það sé ekkert tiltökumál, á meðan að þeir gagnrýna að Danir sem heild beri ekki virðingu fyrir þeirra trú. Fé hefur verið sett til höfuðs teiknurum myndanna, JP hefur fengið tvær sprengjuhótannir og hótað hefur verið að ræna öllum norrænum ferðamönnum sem álpast til múslimalanda. Þetta finnst mér hallærilsegt á sama máta og mér þætti hallærislegt ef Íslendingar væru dæmdir sem þjóð fyrir eitthvað sem kæmi fram í DV.

Margir Danir haga sér engu betur og eru byrjaðir að sniðganga verslanir í eigu innfluttra múslima. Mér finnst það barnalegt að verða fúll yfir ákveðnum viðbrögðum, en haga sér á sama máta til að hefna sín. Einar kaupir sér ennþá kebab og við verslum ennþá í Desi, arabanum á horninu ef okkur vantar eitthvað smá í matinn! Annað kemur ekki til greina.

Ég held að minn botn í þetta sé að allir koma illa út úr þessu máli.

2.2.06

Ómægotómægot.. VITIÐI hver kennir mér graph theory?? SPANDEX SPÓINN! Ég sat í tíma áðan og fór að velta því fyrir mér hvaðan ég kannaðist við þennan sparifataklædda mann sem stóð upp við töfluna og teiknaði net. Þegar það skall á mig eins og fíll í skautahlaupi, að ég þekkti hann vel sem spandexbuxna spóaleggjamanninn af elliptical græjunni í ræktinni... með mjaðmahnykkina hans Jay Alexander úr Americas Next Top Model, átti ég mjög bágt með mig. Mér finnst þetta svo fyndið að ég gæti grátið! Hver vissi að stærðfræðikennarar ættu skósíðar streach-buxur?

Annars er allt gott og fallegt í dag. Það var fullt af fólki frá IKEA sem stóð fyrir utan lestarstöðina/strætóstoppustöðina mína og var að gefa pönnur í morgun. Núna eigum við Einar glænýja, glansandi og glæsilega pönnu. Merkileg tilviljun, mér langaði einmitt í pönnu sem var aðeins minni en sú sem við eigum núna. Takk IKEA!

Oh.. mér finnst svo gaman þegar mér er gefið dót..

1.2.06

Híhíh.. Það er 100x auðveldara að losna við votta sem banka upp á hérna í Danmörku, heldur en á Íslandinu. Síðast þegar þeir kíktu við, blastaði Einar þá bara með enskunni. Þeir vissu ekkert hvaðan á sig stóð veðrið og hrökkluðust í burtu. Áðan, þegar ég kom heim úr ræktinni (en ég er í fríi á þriðjudögum og miðvikudögum í skólanum), þá mætti ég tveimur eldri konum í stigaganginum. Þær brostu vingjarlega og spurðu hvort ég byggi hérna. Ég sagði "ja, det gør jeg". Þá tóku þær upp bæklingana og spurðu hvort þær mættu koma í heimsókn. Nú er ég sérstaklega slæm í að tala dönsku, þó ég skilji hana fínt, svo ég sagði brosandi allan hringinn "Nej tak!". Þetta var örugglega afskaplega dónalegt svar, en ég púllaði það fínt, því mig skorti orðaforðann og þær löbbuðu í burtu hálf móðgaðar.

Annars gengur þetta votta-dót ekki alveg upp fyrir mér. Það er ekki nóg að vera vottur, heldur verður þú að vera einn af BESTU vottunum í heiminum. Þegar dómsdagurinn kemur, þá eru bara bestu 300.000 (minnir mig) vottunum bjargað, en hinir eru látnir kveljast með almúganum. Það segir sig eiginlega sjálft, að nú í hárri elli, 24 ára gömul, þá er ég ekkert að fara að vinna upp forskotið sem aðrir hafa!!