27.12.06

Míbbmíbb

Þá eru svona þessir merkilegustu jóladagar búnir. Þeir voru rosalega fínir. Ég fékk fullt af góðum mat, hitti marga ættingja og fékk allskonar glæsilegar gjafir. Núna eigum við bara 5 daga eftir á landinu. *sniff*

Eins og ég elska jólamatinn, þá verð ég samt að segja að eftir saltfisk, hamborgarahrygg, hangikjöt og saltað svínalæri (back to back), þá bara get ég (og líkami minn) ekki beðið eftir því að borða ósaltan mat sem inniheldur ekki rautt kjöt.

21.12.06

Kona jólasveinsins á ekkert í mig!

Í dag málaði ég jólagjafir fyrir sex ættingja, pakkaði inn jólagjöfum fyrir álíka marga aðra, bakaði eina sort af smákökum, gerði konfekt, tæklaði jólakortin og var samt tilbúin í partý fram undir morgun með augnmálningu í stíl! Pffff... það er ekkert mál að vera í fríi!

19.12.06

Erfiðari þrautin

Þetta er hin þrautin sem ég lofaði ykkur. Tjékkitát.

Annars er það helst í fréttum að ég fór til dleruvulæknis sem skoðaði augun mín og sagði að ég þurfti ný dleruvu. Ég er búin að kaupa þau og allt. Þau eru frá Armani. Ég er gella með þau. Svo sé ég líka allt svo skírt og vel og fallega. Meira að segja hluti sem eru lengst í burtu, hinu megin við götuna. Gæti örugglega séð vængina á mýflugu ef þær væru að flugast í desember.

16.12.06

Íslandið!

Elsku Ísland. Ég er komin til þín!

Síðan ég kom hingað í gær eftirmiðdag er ég búin að hitta allskonar fólk, fara í laaaangt bað, borða pizzu, fara í afmælisspil, sofa í rúminu mínu, hjálpa til við að skipuleggja julefrokost, fara í það boð og hitta ennþá meira fólk, skipta yfir í drullugallann og hjálpa bróður mínum og kærustunni hans að mála nýju íbúðina sína og rölta heim (þau eru í næstu götu við ma og pa) í frystikulda. Ég ætla aftur í bað eftir smá stund. Mmmmmbað.

Á morgun ætlum við að hjálpa prótótýpunni og fjölskyldu að flytja, en annars megið þið endilega heyra í mér. Ég er með íslenska númerið mitt á meðan ég á landinu :oD

14.12.06

Sniðugt

Þetta er svolítið sniðugt. Tekur ekkert mjög langan tíma að rúlla í gegnum þetta :D

Ég hlakka svo til..

Við erum búin að taka til, kaupa næstum allar jólagjafirnar, pakka öllu nema handfarangrinum, setja á jólatónlist og nú bíðum við bara eftir því að það komi morgun. Við erum bæði alveg að pissa í okkur af spenningi og tillhlökkun.

Ég hlakka SVO til að koma heim og sjá allt fólkið mitt. Ég hlakka til að sjá stóra, fallega rúmið mitt. Ég hlakka til að fara í bað og sund. Ég hlakka til þess að sjá Elliðarárdalinn minn og fá mér subway. Ég hlakka til að búa til konfekt, jólaföndra og borða góðan fisk og kannski lambakjöt.

Úffffff.. á þessum tíma á morgun verð ég í flugvél á leiðinni til Íslandsins.

13.12.06

Thingamadjigg

Þið ættuð endilega að kíkja á Woxit. Bookmark manageing hjá mér var í tómu tjóni. Ég bætti alltaf bara við meira og meira og svo var kominn svaka scroll gaur og.. og.. og. Já. Woxit reddaði þessu. Svo ætla ég líka að setja upp nýja ubuntu útgáfu á Petru laptop um jólin og þá þarf ég ekkert að stressa mig á því að tapa bookmarks eftir straujun. VEI!

10.12.06

Gleðin og hamingjan sem fylgir því að læra fyrir próf!

Síðasta vika hefur verið brjáluð. Alveg snælduklikkuð. Þannig er nefnilega mál með vexti og vaxtavexti á sérstaklega óhentugum kjörum, að á mánudaginn á ég að skila tveimur stórum verkefnum og á þriðjudaginn á ég að skila stóru verkefni og fara í 100% próf. Ég hef því verið að vinna í því gjersamlega frá morgni til kvölds síðustu daga að klára öll þessi verkefni svo ég geti nú farið að læra fyrir prófið. Ég náði að klára það síðasta (sem ég vann með fólkinu sem er á hreyfimyndinni) kl. 23:15 á föstudaginn, eftir næstum því 15 klst törn (mínus eitt samlokustopp).

Þó svo að maginn á mér væri byrjaður að melta sjálfan sig sökum hungurs, þá var ég með stærra bros á vörunum heldur en alla hina dagana í desember til samans, þegar ég hljóp til þess að ná strætó heim úr skólanum þetta kvöldið. Í dag og í gær hef ég sitið samviskusamlega við prófalærdóm, sátt eins og kisa, japlandi á harðfisk og liggjandi á mátulega hlýjum ofni.

Björgvin Halldórsson hvað það er gott að geta einbeitt sér algjörlega að einum hlut! Ég er viss um að ef ég hefði ekki verið að elta fjórar kanínur í einu síðustu daga, hefði ég ekki verið næstum því eins dugleg og ég er búin að vera.... Hvað þá beinlínis ánægð að hafa tækifæri á því að læra fyrir próf í merkilega þurru fagi.

Hakuna matata!

8.12.06

Jólakuldi?

Mikið finnst mér það skrítið að ein ástæða þess að ég hlakka til að koma til Íslandsins (en ástæðurnar eru afskaplega margar), sé sú að það sé kalt þar. Ég fæ einhvern veginn ekki jólafílínginn í æð hérna. Það er nefnilega ekkert kalt og í morgun mætti ég meira að segja skemmtiskokkandi spandexplebbum í stuttermabolum. Desemberspandexplebbar!

Á móti kemur að við förum á ástkæra fósturjörðina eftir slétta viku, svo ég held að það sé alveg feykinægur tími til þess að setja upp jólasveinahúfur þar. Úff hvað ég hlakka til. ÚFF!

7.12.06

Ég er svo skapandi!

Forsaga: Ég er að vinna verkefni með þremur aðilum í einum kúrsinum. 2/3 af þessu fólki eru gersamlega handónýt í allri verkefna vinnu og ég held að þau hafi barasta aldrei skilað af sér á réttum tíma, mætt á réttum tíma á fundi eða almennt gert neitt rétt. Sem betur fer þá skilum við þessu verkefni í síðasta lagi á mánudaginn, svo ég þarf ekki að stressa mig á þessu mikið lengur :o) Hinsvegar gerði ég þessa stuttu hreyfimynd til þess að deila með heiminum mínum innstu fantasíum...Ýtið á ctrl + F5 til þess að sjá þetta aftur.

Skrambansskrambi

Í gærkvöldi, klukkan svona 22, þegar ég hætti að læra, þá var ég alveg að drepast í augunum svo ég gat ekki horft á sjónvarp, lesið eða tölvast. Ég tók í staðinn upp á því að rissa upp kjól, sníða hann og sauma hann. Þegar ég átti bara eftir að festa eina og hálfa erm, tókst mér að skemma spóluhúsið (trúið mér.. Á saumavélamáli er það vont!). Núna get ég ekki klárað kjólinn minn fyrr en ég hef fundið varahlut :o(

Ég vona bara að það sé hægt að kaupa nýtt svona... Annars reyni ég kannski ALDREI aftur að vera húsleg. Heheh

6.12.06

Ekki skil ég fólk sem horfir á Americas Next Top Model út af kexinu henni Tyru Banks.

Þegar fyrrverandi ofurfyrirsætan og núverandi ofurtíkin Janice Dickinson náðaði hvern þátt með tilveru sinni, þá var sko gaman. Núna er hún búin að gefa út jólalag.Það sem henni skortir í að halda tóni, bætir hún upp með hressandi texta og já bara almennum hressleika.

4.12.06

Æðislegt... aaaalveg æðislegt

Ég er við það að fá magasár, taugaáfall og hjartatruflanir af stressi og gaurinn sem ætti að vera að fara yfir lokaverkefnistillöguna mína virðist vera að reykja krakk á sama tíma. Þegar ég fékk seinni póstinn frá honum sem var algjörlega út úr samhengi og fullur af einhverju hallæris copy-pastei var það alveg augljóst mál að hann hafi bætt á pípuna. Mig langaði til að fara að grenja. Ég gerði það samt ekki, því ég er orðin 25 ára. Það þýðir að ég sé fullorðin. Fullorðið fólk grenjar ekki. Fullorðið fólk biður um fund og ætlar sér að heilla helvítis melinn í persónu til þess að skrifa upp á skrambans tillöguna. Tja.. eða allavega láta frá sér pípuna nógu lengi til þess að útskýra hvað í andskotanum sé í gangi.

Eins og það sé ekki nóg að ég megi ekki grenja, heldur er ég líka að fara yfir texta sem fólk með mér í hóp í einu faginu skrifaði. Það virðist vera að allir hafi málfræðikunnáttu í ensku á við 7 ára krakka frá Vínarborg. Einn af þessum aðilum á (að eigin sögn allavega) 3ja ára nám í Englandi að baki. Af hverju er *ég* að fara yfir málfræði hjá einhverjum sem hefur búið í Englandi í þrjú ár? Ætli þessi gaukur kaupi krakk hjá sama náunga og þessi hérna í frásögninni fyrir ofan? Alveg skrifaði ég ekki upp á það að gerast prófarkalesari með því að skrá mig í þetta nám. Hafið þið SÉÐ stafsetninguna hjá mér? Pff. Þakka Alberti Kóalabirni fyrir spell-check.

Ég er að segja ykkur það! Ef þetta hefði verið fyrsta önnin mín í þessum skóla, hefði ég bara hætt og farið aftur heim. Gengið út í sólarlagið, eða allavega inn í jólatívolíið, með miðjufingurinn í allri sinni dýrð sperrtan í áttina að þessu fólki. Sem betur fer er Hr. Mon að gera sitt besta til að halda mér frá því að taka appelsínugulabeltiskaratetrikk á fólk með almennum yndislegheitum. Ekki veit ég hvar ég væri stödd án Hr. Mons. Ábyggilega á flæðiskeri!

3.12.06

Þið getið öll andað léttar!

Ég fékk jóladagatal. Það er Mikka-mús smartees dagatal. Einar fékk Kinder dagatal.

Aðventulausn

Í dag er fyrsti í aðventu. Við erum með myndarlegan aðventukrans, sem ég gæti sýnt ykkur ef mms stillingar hjá vodafone væru rétt settar upp í símanum mínum. Þið verðið bara að trúa mér að hann sé flottasti krans fyrir sunnan Vestmannaeyja!

Í gær minntist ég á að það yrði nú að hafa smá aðventukaffi í tilefni dagsins og fékk þá í andlitið að ef þetta væri "kaffi" yrði ég að drekka kaffi. Ég drekk ekkert kaffi. Mér finnst það ógeðslegt og svo er það líka ekkert hollt. Af hverju á ég að pína eitthvað í mig sem er ekki einu sinni hollt? Eftir miklar umræður um að þetta ákvað ég að breyta nafninu á "aðventukaffinu" yfir í "aðventumjólk". Það verður sem sagt aðventumjólk í boði hjá okkur í kringum mjólkurtímann (áður þekktur sem kaffitími. Honum skal ekki rugla saman við mjaltartímann). Ef einhver er í nágrenninnu og vill vera memm, endilega hringið í mig eða Hr. Mon!

2.12.06

Sorg og vonbrigði

Í gær kvöldi var ég með svefngalsa. Ég byrjaði á því að dansa og svo fór ég að sveifla ipod headphonunum mínum í kringum mig svo það kæmi svona *vússsshj* hljóð. Það var rosalegt. Ég upplifði mig eins og svona manneskju á ströndinni í bíómyndum sem er með reipi sem logar á endanum. Sérstaklega glæsilegt allt saman. Svo rákust þau í og duttu í sundur. Núna heyrist ekkert hljóð hægra megin. Ég veit hvað þið eruð að hugsa! Þið eruð að áfellast Einar fyrir að hafa ekki stoppað mig, er það ekki? Ég reyndi það líka, en hann sagðist hafa ákveðið að leyfa mér að gera mín eigin misstök. Oh! He's good!

Í dag trítluðum við út í Fötex til þess að kaupa jóladagatal. Það koma engin jól öðruvísi. Ég hefði meira að segja bara opnað gluggann og geymt eða gefið nammið, því að ég borða ekki nammi núna. Það voru engin jóladagatöl í hillunum í Fötex. Eða Irmu. Eða Magasin. Ég er alveg í öngum mínum og alveg yfir mig stressuð að öllum dagatölum sé kippt úr sölu um leið og 1. des er liðinn. Einar sagði að við myndum fara að leita að jóladagatölum á morgun. Vonandi finnum við eitthvað. Vonandivonandi.

Annars er það helst í fréttum að mér er alveg rosalega illt í augunum, en þau fá enga hvíld frá tölvuskjá á næstunni. Ekki fyrr en 12. des. 10 dagar and counting........

1.12.06

Jólalög

Ég er að hlusta á jólalög á íslensku útvarpsstöðvunum í gegnum internetið! Lifi tæknin :o)

Annars þarf ég að fara að kaupa jóladagatal. Ég er með valkvíða. Það er svo mikið í boði hérna að ég bara veit ekki hvað er best. Það er meira að segja hægt að kaupa bjórdagatöl þar sem maður fær einn bjór á hverjum degi. Held ég skelli mér ekki á það samt.

29.11.06

Abbabbbabb

Sko. Það er ekki alveg í lagi með mig. Ég var að lesa mbl og þar var talað um "skólaorðabók". Ég las það sem "sóðabrók" og fór að spá í hvernig í andskotanum það ætti að hjálpa Pólverjum með íslenskunám.

Niðurstaða: Ég er þreytt í augunum!

Mjeh. Eitthvað

Mamma og pabbi eru í heimsókn. Vei!
Verkefnatillagan mín verður vonandi send inn á mánudaginn. Vei!
Það eru 2 vikur og 2 dagar þangað til ég kem til Íslands. Vei!
Á föstudaginn má fara að spila jólalög. Vei!

Það eru 12 dagar í próf/verkefnaskil. Búúú!
Ég á eftir að fá magasár úr stressi áður en að því kemur. Búúú!
Ég á eftir að læra svo voðalega, voðalega mikið og skila svo mörgum verkefnum. Búúú!

23.11.06

oooog hún tekur trylling!

ARG! Hvað er málið. Af hverju er ekki hægt að treysta á fullorðið fólk með háskólagráðu (sem a.m.k. einn af þessum aðilum hefur reyndar fengið í cornflakes pakka) að mæta á réttum tíma á fundi og vera búið með það sem það á að vera búið með? Er ég barnapía?

Djöfull ætla ég aldrei í hópverkefni aftur með fólki sem kemur ekki frá Íslandi. EVER. Í alvöru talað.

22.11.06

And remember..

..you can't spell slaughter without laughter!

Ég var allavega ekki snöggsoðin eins og aspas!

Það dinglaði Dani hjá okkur. Hann talaði dönsku. Þeir eiga það til helvítin á þeim. Ég var búin að klæða mig og koma mér á ról en ekki í sturtu. Einar lá ennþá eins og Lúlli letidýr uppi í bæli, svo ég var sú sem skrúfaði fyrir dönskuna.

Strákurinn á bak við dönskuna sagði að hann byggi á neðstu hæðinni og að hann væri að fara að setja upp þvottavél og þurfti að taka kalda vatnið af. Það eina sem ég náði að stynja upp úr mér, ósturtuð og vitlaus með drullugt hárið, var: "Kan det være in tyve minuter?" Ég held hann hafi samþykkt það. Allavega dreif ég mig í sturtu á ofur hraða. Eftir hraðamet í sjampói fór ég að pæla í því hvað hann hefði nákvæmlega sagt. Sagði hann:

A) Ég ætla að taka kalda vatnið af húsinu í klukkutíma eftir 10 mínútur
B) Ég ætla að taka kalda vatnið af húsinu í 10 mínútur eftir klukkutíma
C) Getur þú látið mig vita þegar þið eruð tilbúnin?

Ef möguleiki A) var sá eini rétti, þá hafði ég alveg haldið kúlinu. Ef B) var sá rétti, þá var ég að biðja aumingja strákinn um að flýta fyrirhugaðri 10 mínútna langri kaldavatnstöku um 50 mínútur og setja á hann óþarfa panikk. Ef möguleiki C) var sá rétti, þá var ég núna búin í sturtu og nokkuð sama um kalt vatn næsta klukkutímann á meðan að þeir biðu óþreyjufullir eftir að geta gert það skrúfað fyrir það. Niðurstaðan var sú að ég sendi Einar niður til að redda málunum og fá þetta á hreint. Hann gerði grín að mér. Mér er alveg sama. Ég náði að sturta mig OG það var ekki skrúfað fyrir kalda vatnið í miðri sturtu. Hvað meira getur kona beðið um?

21.11.06

Glyðrur og óstabílar endur

Er það bara ég, eða er Andrésína Önd algjör glenniflyðra? Gengur á milli Andrésar og Hábeins eftir sinni hentisemi og eftir því hvor á flottari bíl hverju sinni og hvað lítur betur út fyrir yfirstéttaöndunum sem hún vill hanga með. Usss, ekki fallegt.

Annars er eiginlega enginn sérstaklega stabíll í öllum Andabæ. Það er einna helst Georg Gírlausi, en hann er svolítið utan við sig. Amma Önd kemst líklega næst því að vera heil á geði í þessum seríum, en hún býr í sveitinni fyrir utan Andabæ og telst því ekki með.

18.11.06

Gátur

Munið þið eftir gátunum sem kona var spurð sem barn? Einu krakkarnir sem gátu svarað þeim voru þeir sem höfðu heyrt eða lesið svarið áður. Það er ekki eins og "tágarkarfa" hafi almennt verið í orðaforða 8 ára krakka á þeim tíma. Eða að það hafi verið sérstaklega augljóst að svaka romsa sem innihélt m.a. "settist á vegginn fótalaus, þá kom maður handalaus og skaut fuglinn bogalaus".. hafi átt að tákna snjókorn sem vindur feykti af vegg.

Samt, einhverra hluta vegna, voru þessar gátur endurteknar aftur og aftur þangað til að allir kunnu örugglega svörin. Fólk getur verið undarlegar kexkökur.

17.11.06

Veiveivei

Það er svo gaman að samgleðjast einhverjum almennilega. Vera alveg ofboðslega hamingjusöm af því að einhver sem þér þykir vænt um er það líka! Ahhh. Empathy does have its upsides!

ARG!!

Hversu oft getur einn dani sagt "tree" (í merkingunni "three") í einum fyrirlestri? Þetta er versta danskahreimaorð í HEIMINUM!

13.11.06

Brrrrr

Ég er með svo mikla gæsahúð að gæsahúðin á mér er með gæsahúð

12.11.06

Ég er of classy fyrir Japan og sígarettur!

Japnir gera aldrei samninga við fólk fyrr en þeir hafa dottið í það með þeim. Þeir vilja nefnilega meina að sanna eðli manneskjunnar komi í ljós þegar hún er í glasi. Ég veit ekki af hverju karókí blandast þarna inn. Ég held að það sé bara af því að þeim finnst það skemmtilegt og í þeim öllum blundi lítill Þorgeir Ástvalds. Kemur samningaviðræðum í sjálfu sér ekkert við.

Mikið er ég glöð að ég sé ekki viðskiptakvendi sem búi í Japan. Held ég sé of classy fyrir Japan. Svona volæðisvol á ekki við mig og ennþá síður karókí. Helmingurinn er ennþá að barma sér yfir þynkuleifum, en ég er náttúrulega yngri og sprækari og er alveg búin að ná mér. Í einhverri desperat tilraun til þess að ná reykingafýlunni úr íbúðinni hjá okkur er núna opið út á svalir, jökkunum okkar beggja hefur verið úthýst þangað og þvottavélin malar eins og tígrisdýr yfir sígarettufýlufötunum sem við vorum í á föstudaginn. Vá hvað ég hlakka til að það verði ólöglegt að reykja á skemmtistöðum, tónleikum, kaffihúsum og tja. Bara allstaðar. Alveg gæti ég gubbað á fólk sem mjálmar um mannréttindi reykingamanna. Allt í góðu. Þetta er val sem þú tekur og ég skal alveg virða það, en hvernig dettur þér í hug að það séu þín mannréttindi að neyða þínu vali upp á mig líka? Fasisti! Reyndu svo ekki að líkja þessu við neyslu skyndibitafæðis. Það deyr enginn úr óbeinum frönskum!

Eh. Já. Ég er að læra á við tvo í dag því að ég lærði á við engann í gær. Ágætis meðaltal það.

11.11.06

Hérna..

Það þarf einhver að redda mér pizzu og hausverkjatöflum. Núna takk.

Mér líður eins og, að hausinn á mér sé að springa. Dadadda-dararara

Eftir að hafa ekki drukkið deigan dropa af áfengi í 8 mánuði af þessum 10 sem eru af þessu ári, fékk ég mér alveg þónokkra í gær. Ég get ekki farið út í nákvæmlega hvað marga því að ég keypti engann af þeim sjálf. Thus, no track keeping. Það var allavega bjór og það var að minnsta kosti hálfur vermuth on the rocks.

Ég vaknaði rétt í þessu með púlsandi hausverk og óbragð í munninum. Stökk í veiðigallann og veiddi mér samarin og tannbursta. Af hverju er mér illt í ungliðnum á hægri hendinni?

Ég held að ég sé komin í hljómsveit. Einar komst í eitthvað dönskutali stuð í gær þegar við flúðum "lífið" og héldum í "dauðan". Dauðinn er næturstrætóinn galvaski, þar sem að fólk er dautt í öllum hornum. Ég meira að segja greip til þess ráðs að vera óviðræðuhæfari en ég var í raun og veru til þess að leiðast ekki út í dönskuspjall um tónlist. Gaurarnir sem Einar var að tala við á dænsku (dönsku með sænskum orðum inni á milli) sögðu: "Ó. Spilar kærastan þín á bassa? Okkur vantar einmitt kvenkyns bassaleikara. Alveg sama að hún hafi bara spilað í 2 vikur". Einar lofaði að hringja í þá í dag til þess að við gætum spjallað eitthvað saman. Ætli þeir séu raðmorðingjar?

Af hverju smakkaði ég pulsu í gær? Þær eru ógeðslegar og búnar til úr kjötfarsefni eða eitthvað. Allavega hef ég þverneitað að borða pulsur síðustu árin og svo bara fékk ég alveg tvo bita af einni franskri í gær án þess að blikna.

Iron Maiden spilaði í gegnum heila plötu sem enginn hafði heyrt um. Ég batt vonir um að þeir myndu allavega splæsa á okkur "Run to the hills" eða "The number of the beast" eða einhverju sem allir þekktu for good measure í seinna uppklappi. Það var ekkert seinna uppklapp. Svikin.

Úff. Eftir klukkutíma byrjar all-day innfluttningspartý hjá danska DMinum okkar. Sé ekki fram á að við kíkjum fyrr en í kvöld. Einar er allavega ennþá sofandi, dreymandi um umboðslaunin sem hann fær eftir að ég verð celeb bassaleikari eða eitthvað. Vá hvað ég á eftir að drekka lífrænan gulrótasafa í kvöld.

9.11.06

Vælivæl

Í kvöld.. role-play
á morgun.. iron maiden tónleikar
á laugardaginn.. innflutingspartý þar sem fólk mun bara tala dönsku
á mánudaginn.. spilakvöld

Af hverju er social calendarið mitt allt í einu fullt langt fram í tímann þegar ég þarf að vera að læra eins og einskinsmanns fyrirtæki? Síðasti söludagur á verkefnum stimplaður út um allar trissur á næstu vikum, svo ég tali nú ekki um mastersverkefnið mitt sem ég þarf að fara að fá samþykkt eða ljóta vonda fagið sem er með ljótt, vont 100% closed book test í enda annarinnar sem ég er ekki byrjuð að læra fyrir.

Muldrimuldrimuldr..

7.11.06

Oft þarf bara einn hlut til að gera lífið ánægjulegra..

Fyrir tveimur vikum síðan, fékk ég endanlega nóg. Ég var að búa til fiskibollur og þær festust svo rosalega við pönnuna að útkoman var eiginlega bara fiskibolluefnistæjur. Ég hefði kannski ekki orðið svona súr yfir þessu, ef ekki væri fyrir þá staðreynd að hérna eru fiskibollur munaðarvara. Úti í búð er annað hvort hægt að kaupa:

A) Laxafars. Lax er ekki almennt góður fiskur nema hann sé reyktur, grafinn eða grillaður takk fyrir. Þegar hann er maukaður niður í bleikar öreindir með beinum, brjóski og slori þá er hann jafnvel minna kræsilegri en slagsmálaatriðið í Borat myndinni.

B) Tilbúnar fiskibollur sem eru með 56% fiski innihaldi. Ég er ekki að djóka. Hvað varð um hin 44%? Skattaálagning?

Sem sagt, þegar ég bý til fiskibollur, eru þær sem sagt búnar til úr rándýrum þroskflökum sem ég hakka saman við lauk, krydd og smá mjólk og hveiti.

Þegar ég var að skrapa fiskibolluefnistæjurnar á diskinn minn ákvað ég að nú skildi ég sko ekki púkka lengur upp á þessa pönnu ómynd, heldur skipta henni út fyrir sér yngri leikmann! Eða leikmenn. Ég hef nefnilega lengi verið að væla yfir því hvað mig langar í voc pönnu, án þess að tíma að kaupa mér hana vegna þess að hún yrði örugglega eftir í Danmörku þegar við flytjum aftur heim.

Í síðustu viku fórum við svo í IKEA, þar sem jólin eru allt árið. Þar fann ég afskaplega klaufalegt eintak sem mér leist strax vel á. Þið vitið hvernig múlasnar eru. Ekki alveg asnar og ekki alveg hestar? Hálf kjánalegir. Pannan mín er svoleiðis. Hún er undarlegt afbrigði sem brjálaðir vísindamenn hafa kokkað saman á meðan að þeir voru að bíða eftir þrumuveðri fyrir hinar tilraunirnar. It's aliiiihiiiiihiive!! Hún er hálf voc panna og hálf venjuleg panna með loki. Hún getur allt!

Á sunnudaginn gerði ég t.d. chilly og af því að pannann er ofboðslega djúp (voc pönnu djúp) gat ég steikt hakkið á henni fyrst og bætt svo öllum hráefnunum út í og leift að malla með lokinu í nokkra klukkutíma. Venjulega hefði ég þurft að setja allt í pott til þess að það myndi sjóða almennilega og fá rétta áferð.

Með tilkomu pönnunnar er ég líka dottin ofan í asískt tímabil í matargerð. Alveg hreint magnað hvað soðið grænmeti getur verið óspennandi eitt og sér, en heillandi og bragðgott þegar það er í góðri sósu með góðu kjöti/kjúklingi/fiski.

Ah. Ég hefði átt að vera búin að henda hinu kvikyndinu fyrir löngu! Ætli hún eigi eftir að brenna við helvíti núna?

6.11.06

Oh, þessar græjur!

Í gær keypti ég mér taktmæli. Hann á að aðstoða mig í því að verða ofur-bassaleikarakvendi sem spilar á bassann sinn á daginn og berst við glæpamenn á nóttunni. Auðvitað er ég blinduð af neyslusemi og ég gat ekki hugsað mér að kaupa neitt sem eyddi ekki batteríum eða rafmagni. Taktmælirinn sem varð fyrir valinu er með litlum, stafrænum skjá og hann bípar í hvert skipti sem þessir retró mælar myndu tikka. Það er hægt að tengja hann við magnarann minn og svo er hækka og lækka stilling á honum. Að auki eru allskonar aðrir fídusar á honum (oh.. um daginn var ég að tala við kennara að það þyrfti að "decide which the main fidus' are". *Úff* ekki klassí. Feature á ensku Ósk. Feature!) eins og að pikka inn sjálfur tempóið og láta hann vaska upp fyrir sig.

Hljómar vel. Leiðnlegt samt að ég hafi fengið afgreiddann taktmæli sem er andsetinn af draugi Atla Húnakonungs með fyrirtíðaspennu. Hvernig getur draugur Atla Húnakonungs verið með fyrirtíðaspennu? Tja. Ef þið settuð það ekki fyrir ykkur að taktmælirinn minn væri andsetinn, en eruð að spá í því þá ætla ég ekki að eyða púðri í að réttlæta það.

Kvikyndið pípir skerandi hátt. Ef kona færir volume hjólið róóóólega upp, fer hann frá algjörri þögn upp í 5 á richter með svona eins og míkrómetra mun. Eftir að hafa hrisst hann illþyrmilega og hótað honum því að taka úr honum batteríin ef hann myndi ekki haga sér almennilega, komst ég að því að honum verður ekki haggað. Ég ætla sko að taka í hnakkadrambið á kvikyndinu og draga hann aftur í búðina sína og krefjast ó-andsetins taktæmlis í skiptum.

Varið ykkur á heift minni!

Gleði *hoppl*

Ég á miða á Nine Inch Nails tónleika!! Veiveiviei

3.11.06

Sardína

Í strætóinum á leiðinni heim úr skólanum í dag var svo mikið af fólki að þegar hann kom að minni stoppustöð fórum við fjögur sem vorum að bíða þar inn og hurðinn lokaðist á rassinn á þessum síðustu tveimur. Það hefði ekki komist fyrir einn kólimbrífugl í viðbót í þennan strætó. Þegar hann stoppaði loksins og hleypti okkur út á Lyngby station (endastöð), kom í ljós að Einar hafði verið í sama vagni og ég, en hefði bara farið inn 2 stoppustöðum fyrr (held það séu 5 stoppustöðvar á DTU svæðinu). Það var bara ekki nokkur leið fyrir okkur að sjá hvort annað, þar sem að það voru svona á að giska 250.000 manns þar inni í einu.

Greinilega allir að drífa sig heim úr skólanum upp úr hádegi til þess að undirbúa sig fyrir J-Dag... eða eitthvað.

Mér er ekki skemmt..

Það er ógeðslega kalt hérna. Alveg mínus eitthvað. Alveg skyrta, þunnur jakki, lopapeysa, þykkari jakki og feitur, 3.5 metra trefill vafinn utan um mig alla plús húfa og vetlingar kalt. Þegar ég vaknaði í morgun hefði ég alveg sparkað í sköflunginn á einhverjum (drepið er aðeins of stórt til orða tekið) fyrir að lúra aaaaaðeins lengur. Heyrðu. Svo skrópar gestafyrirlesarinn ekki bara, sem hefði gefið mér tækifæri á alveg einum og hálfum klukkutíma af glorious snooze-i.

Samfélagið hefur gert mig svona! Kennarinn, sem er alveg í þreföldum mínus yfir þessu (tvöfaldur mínus væri nefnilega plús..) sagði okkur að nota tækifærið til þess að vinna í hópverkefninu sem við þurfum að skila í þessum kúrsi. Það væru bót í máli ef einhver af hinum þremur sem ég er með í hóp hefði mætt. Ég giska á að þau séu að snooza nákvæmlega núna. Bastards.

Viðbætt: Það voru að berast fréttir þess efnis að ástæða þess að fyrirlesarinn er fjarverandi sé sú að hann hafi farið á Tónlistaverðlaunahátíð MTV í Evrópu og hann hafi svo verið á villtu djammi í alla nótt. Núna er hann líklega dauður eða þunnur heima hjá sér. Stuð.

31.10.06

Hjálparkall til Vodafone fólks!!

Ég er búin að vera að reyna síðustu mánuði að setja upp aftur íslensku mms styllingarnar í Nokia 7250i símann minn án árangurs. Það virkar ekki að fá sent sms með styllingunum, líklega vegna þess að ég er í Danmörku.

Mér þætti afskaplega vænt um að geta farið að nota "Myndablogg" fídusinn aftur, svo ég tala nú ekki um að geta nýtt þennan 600 kall sem ég borga í hverjum mánuði í eitthvað sniðugt.

Anyone?? Ég skal gefa reddaranum sleikjó í jólagjöf!

Heppna stelpan

Ég er svo heppin að eiga svo voðalega gott fólk að (amma og afi, hin amma og afi, foreldrar hans Einars, Ösp frænka og fjölskylda og Sigrún frænka og fjölskylda) sem ekki bara mundi eftir afmælinu mínu, heldur sá sér líka fært að gefa mér pening í afmælisgjöf.

Af því tilefni skrapp ég út í H&M áðan og valdi mér öll fötin sem mér fannst fín, án þess að spá neitt í því hvað þau kostuðu. Ég held ég hafi aldrei gert svoleiðis áður. Vissulega hef ég tekið verslanaflipp í útlandaferðunum mínum, en ég hef alltaf spáð mikið í verðmiðana á þeim flippum.

Eftir þessa H&M heimsókn er ég einum kjól, tvennum pilsum, einni skyrtu, trebba, húfum og vetlingum ríkari en ég var áður. Það sannaðist líka að ég sé með frekar ódýran smekk, því að allt þetta kostaði í kringum 1000 DKr,

Ég er afskaplega vel klædd og glöð stelpa í dag!

*muldrmuldr*

Skrambans síða að senda ekki til Danmerkur!

29.10.06

Símhringing!

Hingað til hef ég haldið mig við "ring-ring" hringingu. Í gær heyrði ég hinsvegar síma hringja með þessu lagi. Núna er ég mikið að íhuga að finna mér þetta á mp3 og nota sem hringitón!

Það tekur mig að meðaltali fjögur ár að ná þessu af heilanum á mér.

HAMingja

Hver vissi að HAM væri að toura? Ekki ég! Reyndar vissi eiginlega enginn af því í allri Danmörku, þó þeir hafi verið að spila hérna í gær. Einar komst að því fyrir tilviljun á föstudaginn, vegna þess að það voru víst einhver auglýsingaplaggöt hengd upp í þvottahúsið á kollegíi þar sem íslenskir gaurar sem við þekkjum búa á.

Ehh. Þeir búa sem sagt á kollegíinu. Ekki í þvottahúsinu. Bygones.

Við keyptum miða á tónleika með HAM og hljómsveitum frá Færeyjum, Grænlandi og Danmörku. Það voru ekki margir núverandi og fyrrverandi þegnar dönsku krúnunnar mættir á staðinn, líklega vegna þess að þessi tónleikar voru meira leyndarmál en hinn sanni aldur Cher.

Fyrsta hljómsveitin til þess að stíga á sviðið var frá Færeyjum og hét Makrel. Þetta kvöldið skartaði hún lánsgítarspilara, vegna þess að gítarleikari hljómsveitarinnar var fjarri góðu gamni. Það má lesa um hvers vegna hérna. Ég var ekkert sérstaklega impressed. Söngvarinn ofnotaði gjersamlega microphone sem var með einhverjum hálf hallærilegum effect og ég var afskaplega þakklát þegar ég sá að það var verið að taka hann niður áður en næsta hljómsveit tók við. Ég var skíthrædd um að þeir gætu freystast til þess að nota hann líka (bæði söngvarann og mikeinn sko..)

Eftir Makrel tók við grænlensk sveitaballapopps/rokkhljómsveit sem tryllti alla Grænlendinga á staðnum með því að henda glosticks út í salinn (ég fékk fjólublátt). Grænlendingar eru spes (alhæfing. Ég veit það). Það var sérstaklega einn pissfullur miðaldra maður, sem sá um að knúsa alla aðra Grænlendinga sem hann sá á staðnum, sem sá um spesheitin. Það sat stelpa við hliðina á okkur Einari sem var í kjólling (ef kjólar eru nógu litlir, eru þeir þá ekki kjóllingar?) sem 16 ára ég hefði verið stolt af. Hún keðjureykti eins og það væri "Reyktu eins og þú villt án þess að fá krabbamein" kvöld. Þegar þessi fulli kom að henni, var hún að reykja (augljóslega) og tala við vinkonu sína. Fulli knúsaði eitthvað í áttina að henni, svo að hún brenndi sig á eyranu með sígarettunni og glóðin datt ofan í hálsmálið á henni. Eftir mikið fát tókst henni að koma í veg fyrir að það kveiknaði í sér og hún fann part af kúlinu aftur. Fulli bauð henni heldur óstöðugan eld og hún gat snúið sér aftur að sígarettunni og vinkonunni. Fulli ákvað hinsvegar að reyna aftur að stinga sér til knús, en í þetta skiptið rakst sígarettan framan í hann. Við þetta brá honum svo mikið að hann sparkaði bjórnum hennar um koll. Hann reyndi nokkrum sinnum aftur, en núna var stelpan orðin ansi súr út í hann og ýtti honum frá sér. Fulli ákvað því að snúa sér að nútímadansi með tvö glosticks í hendinni og hann trítlaði um eins og fiðrildi það sem eftir lifði af kvöldinu/nóttinni. Öðru hvoru sá ég að aðrir Grænlendingar gáfu honum meiri bjór. Ég veit ekki hvort að hann sé svona drepleiðinlegur edrú, hvort fólk hafi gaman að fiðrildadansinum hans eða hvort að fólk hafi verið að vonast til þess að hann myndi sofna á einhverjum stól eftir "bara einn í viðbót".

En HAM voru góðir! Þeir hækkuðu meðalaldur hljómsveitanna um svona eins og 50 ár eða svo, en þeir rokkuðu miklu meira en ungviðið! Vegna þess að það var ágætis pláss á gólfinu myndaðist skemmtileg blanda fólks sem dansaði eins og það væri á skemmtistað og fólks sem flösuþeytti.

Eftir HAM drusluðumst við bara heim til þess að ná síðustu lestinni. Það voru tvær hljómsveitir eftir, en það er alltaf best að hætta á toppnum!

27.10.06

Many years ago..

..I came to be in the possession of my first cell phone. Christmas 1996 to be exact. Back then it was quite the kewliz for anyone to have a mobile phone, let alone a 15 year old.

The coming 24th of December (Icelanders do the gift-thing on Christmas eve), will be my 10 year cell phone anniversary. I almost feel obligated to do something special to celebrate. Buy a new mobile or something. I have a brilliantly beautiful Pocket PC which I use a lot. It has the ability to function as a phone as well (a smart phone even), but it is somewhat too big to use for that function on a regular basis.

The problem with mobile phone shopping is that it isn't as easy as it used to be. New phones have all these extra gadgets, which you cannot live without once you get to know them. Oh.. And not only that, I just read that NTT DoCoMo have been doing some field tests for the 4th generation of mobiles and managed to get up to 2.5Gbps (yes. That is per second. On a mobile phone. While traveling in a car). What do you do with 2.5Gbps on a mobile phone? I don't even come close to that kind of a bandwidth on my ADSL!

To answer a part of my own question, right now all the hype for the future is to get television into your mobile no matter where you are. Entrepreneurs have even started discussing coming up with special mobile stations which specialize in a limited topic each (sports, news, cartoons, etc.) and have material which is suitable for small screens and is repeated a lot. Of course, the consumers are crazy and just go with the hype. Just look at myspace for forks sake! Personally though, I don't see myself spending gazillions on mobile-phone-television. If I *were* to use this kind of a service, it would have to be video on demand and not a full fledged television station. I would probably watch a specific news report or a specific cartoon at my own leisure and not the stations whim.

No matter how you look at it, the truth is that somehow the phone part has become a secondary feature of the mobile. Nokia has even started making devices which don't even include phones in them. Only the extra goodies. I cannot help but feel that we should find a new name for this type of gadgets now. The only thing I ask is that we do not figure one out until after Christmas! That way I get to celebrate my anniversary first :o)

25.10.06

Sköpunargleðin alveg að fara með mig!

Það er heppilegt að ég sé ekki skapari heimsins, hún heimsskapari. Ég myndi nefnilega örugglega ganga út í öfgar í öllum hlutunum sem ég byggi til. Núna langar mig alveg afskaplega að kaupa stórt og myndarlegt grasker og skera það út eins og hrekkjavökufagnandifólk myndi skera það út. Nema bara betur. Og með glæsilegra myndavali.

Ég er búin að vera að skoða öll graskerin sem er hægt að kaupa í búðunum núna með girndar augum og ég er alvarlega að spá í að láta verða að þessu. Graskerið gæti verið úti á svölum og komið á smá hrekkjavökustemmara hjá okkur. Mikið finnst mér ég hafa verið rænd í æsku, sökum skorts á hrekkjavöku! Spurning um að skella sér í einhvern búning líka þann 31. okt bara svona for good measure!

24.10.06

Ég veit að núna verð ég ekki vinsæl..

..vegna þess að núna eru -2°C í Reykjavík, en ég er alveg að frjósa úr kulda, þrátt fyrir að það standi 15°C á hitamælinum hérna. Ehm. Úti, ekki rass. Mest krípí samt. Þegar Einar fékk lungnabólgu keypti hann mæli sem má nota sem annað hvort munn- eða rassamæli. Spáið í því að ruglast. Úff, stundum er sveigjanleiki í svona málum ekki classy!

Ég sit sem sagt uppi í sófa, dúðuð í teppi og sting öðru hvoru höndunum undir laptoppinn minn, til þess að hlýja þeim á batteríinu. Ég fór í sturtu í morgun og hélt að ég myndi breytast í ís-skúlptúr. Ég hríðskalf allavegana eins og hjálpartæki ástarlífsins á hröðustu styllingu!

Það er alveg spurning með að fara að kveikja á ofnunum.

22.10.06

In Sweden it is not considered among the basic human rights to pee..

..it's considered a privilege! No matter where you go; malls, burger king, the main street - each toilet booth has a little money collecting device on it. A vampiric money collecting device, which sucks your wallet dry! Every single pee costs 5 Swedish kroner (which is equivalent to about 70 US cents, 54 euro cents, 4 Danish kroner or 47 Icelandic kroner). When the first money collecting device I came across bit my wallet I was a bit nervous. You see, I was sure there would be a person unknown to me standing in the booth, ready to message my shoulders while I was taking a leak sitting on a toilet of gold. I was not quite sure I would be able to perform under that kind of pressure. It was a false alarm. The toilet was a standard, white one and there was no-one inside other then myself. Who knew peeing could be that expensive?

The part I saw of Sweden (Malmö) was lovely though. It had more parks and green areas then all other cities in the solar system combined. Maybe it has something to do with that perhaps not all Swedish people can afford peeing in public toilets all the time....

Vááááááááts!

Sjáiði hvað það er gaman að eiga 25 ára afmæli þegar kona á svona góðan Einar!!? Hann gaf mér þennan bassa, standinn og ólina sem hann er með á þessari mynd, magnarann sem er á borðinu fyrir aftan, töskuna sem sést skaga inn vinstra megin og svo pússiklút, stillingagræju og fleira sem er á borðinu hjá magnaranum. Svo er hægt að tengja headphonea og iPod við magnarann, svo ég geti grúvað með uppáhalds lögunum mínum án þess að pirra nágrannana. JEIIIIIJ!

Þetta er í fyrsta skipti sem ég á *alvöru* hljóðfæri. Ég hefði aldrei keypt mér bassa sjálf fyrr en einhvern tímann eftir að við hefðum flutt aftur til Íslands. Ég er svo voðalega glöð :oD


Þegar ég vaknaði í morgun, þá meikaði allt svo mikið sense

Það var eins og heimurinn hefði allt í einu gefið út leiðbeiningabók og ég hefði einhvern veginn lesið hana í svefni. Engu að síður tók það mig smá stund að gera mér grein fyrir því hvers vegna allar þessar upplýsingar voru mér núna aðgengilegar. Svo fattaði það. Oh. Auðvitað!

ÞAÐ ER AF ÞVÍ AÐ ÉG ER ORÐIN 25 ÁRA!

Veiiiii ammli!!

19.10.06

Þeir eru knáir þessir Danir

Í ár, eins og í fyrra, þá byrjar að kólna akkúrat þegar haustfríið byrjar. Magnað að þeir hafi tímasett þetta svona vel.

Í gær fórum við til Malmö, með Kristjáni sem var með okkur í HR. Reyndar erum við búin að hitta fleiri HR-inga síðustu daga. Viggi, Sæli og Kristján eru allir búnir að heimsækja DK í sitthvoru laginu. Fönnís. Ætli Danir fari ekki að panikka og óttast aðra yfirtökuhrinu frá Íslandi? Kannski það neiti allir að fá Nyhedsavisen til þess að reyna að sporna gegn þessu.

Malmö var alveg prýðileg. Við skoðuðum bæinn, allskonar torg, kíktum á fínt safn sem var í fjórum hlutum og skoðuðum Turning torso, sem er voðalega há bygging. Mjög smart og mjög skrítin. Við máttum ekki fara á efstu hæðina og skoða útsýnið, því það opnar ekki fyrr en 1.nóv. Svikin.

Annars á ég ammó á sunnudaginn. Verð 25 ára og allt. Af því tilefni má ég keyra bílaleigubíl í fyrsta skiptið! Við ætlum að skella okkur í Lego-land á morgun. Kannski bara ég keyri part af leiðinni og alles. Aldeilis að kona er orðin fullorðin. Bara lífsreynsla lekandi út úr eyrunum á henni!

17.10.06

Gööööörrrr!! eins og ligerarnir segja

Ég reyndar veit ekkert hvað ligerar segja. Ég gat mér bara þess til að þeir segðu "görr". Það hljómar svo voðalega stórakattadýralegt.

En já. Ég segi allavega görr núna! Ég væri alveg til í að vera bara komin með skilgreint mastersverkefni NÚNA, en svo er víst ekki. Ég er búin að fara 3 ferðir til þess að tala við væntanlegan verkefnakennara (fjórar ef ég tel með samtalið við manninn sem talar eins og fiskurinn í American Dad, en ég ákvað að finna frekar annan kennara) og í hvert skipti sem ég tala við hann, endar hann á því að senda mér 3-4 200+ blaðsíðna papera í email. Núna er ég reyndar búin að þrengja þetta svolítið niður og það er komið að því að ég þurfi að "heilastorma" allrosalega til þess að finna mér samboðið verkefni. Held og vona samt að loka niðurstaðan verði spennó, enda mun ég gera fátt annað frá febrúar og fram í júní eða svo.

Annars er ég í rosalegri innri baráttu núna. Téður væntanlegur verkefnakennari sagði mér að hann og deildin hefðu mikinn áhuga á því að ég skellti mér bara í doktorinn hjá þeim. Með liði A spilar Dr. Ósk, sem er strax farin að íhuga hverskonar "minion" hún ætti að ráða sér. Á móti liði A spilar allt frekara líf sem myndi þurfa að vera sett á pásu í 3 ár aukalega og meistari Ósk, sem hefur nú þegar verið í skóla í 20 ár í röð.

16.10.06

If I *had* to chose a celebrity to idolize...

I don't think I have ever been a *real* fan of any actors or musicians. Even when I was 13 and many of the chicks around me plastered their walls with Take that posters and commented teary eyed that Johnny Depp was just soooooooo dreamy, I didn't give them much thought. That doesn't mean I don't like music or films. I do. I just don't go all crazy over the people creating and/or contributing to them.

That being said, if I were to chose a celebrity now to idolize, it would be John Mayer. The reason is not that I like his music, even though I do (something a 3 years younger me would probably kick my ass for and tell me that there is no metal in it). The reason is not that I begin to breath irregularly and giggle when I see pictures of him (which I actually don't). I guess the answer lies in his "blog" (hate that word).

If I had stumbled upon his web page and he was just a .. say.. a computer nerd (shut up! Computer nerds are cool), I would have become a frequent reader anyway. The fact that a celeb is writing about zombies, that he will not say "stay classy" or use any reference to a whale's vagina on a concert in San Diego or that he put his own pic into my heritage only to discover that he actually looked more like Jessica Lange than himself makes this just so much more juicy.

I guess that just goes to show that I'm a more of a sucker for sense of humor and personality than just good looks and fame. Go figure.

15.10.06

Hann á aaaammæææælllíííídag

Hann á afmæli hann prins Christian...
Hann á afmæli í dag!Verður kona ekki að fagna svona hlutum með fólkinu í landinu sem hún býr í? Alveg spurning um að draga upp litla danska borðfánann sem ég keypti fyrir afmælið hans Einars.

This is so funny..

..if you know the game it is referring to.

click me!

14.10.06

Kulturnatten

Ég, Einar og sú Lettneska (hmm.. líklega best að fara að nota nafn á hana. Hún er kölluð Ola), keyptum okkur barmmerki með frekar ljótri mynd. Þetta barmmerki veitti okkur ókeypis aðgang að lestum, strætóum og metroi, ásamt ókeypis aðgangi inn á öll söfn og ýmsa aðra staði.

Strax og ég kom niður í bæ, mætti ég stelpu sem gaf mér og Olu bleika rós. Mín var mjög fín til að byrja með, en svo duttu laufblöðin af henni eitt og eitt og að lokum kom í ljós að hún var bara alvarlega lasin. Ég jarðaði hana í ruslinu stuttu áður en ég fór heim.

Menninganótt á Íslandi er nú bara algjört prump í samanburði við þessa í Köben verð ég að segja. Með barmmerkinu fengum við þykkan og mikinn bækling sem lýsti alveg endalaust mikið af atburðum sem stóðu konu til boða. Mig langaði mikið að heimsækja Moskuna þar sem var m.a. talað um stöðu islam í Evrópu, fara í Búddasenter og skoða hvað þeir væru að gera þar og á Jóga og hugleiðslusenter, þar sem hefði verið hægt að taka klst. kennslutíma í hugleiðslu og hálftíma kennslutíma í útgáfu af powernapping sem getur verið meira effektívur en 8 klst af svefn. Því miður gafst ekki tími í þetta, þar sem að allir þessir staðir voru fyrir utan miðbæinn.

Það hefði reyndar verið hægt að setja saman ansi þunglyndislega dagskrá líka. T.d. með því að fara í heimsókn á einhverja stofnun og upplifa sig sem minnihlutahóp (var tekið dæmi um múslima, homma og fatlaða), þar sem einhverjir leikarar myndu gera aðsúg að þér eða fara í rauðakrossinn og upplifa hvernig það væri að vera einmana í stórborginni.

Við ákváðum að láta ekki gera aðsúg að okkur og fórum þess í stað að skoða þinghúsið hátt og lágt. Arkítektúrinn þarna inni er bara klikkaður. Það var líka mjög gaman að koma inn í þingsalinn þeirra og skoða atkvæðagreiðsluaðferðir og þannig. Þingmenn voru röltandi um og voru að reyna að hössla nokkur atkvæði í leiðinni. Einn flokkurinn var búinn að setja upp herbergi sem var þannig að fyrir utan var konu afhent umslag fullt af gervipeningum og inni í herberginu voru körfur með mismunandi fyrirsögnum. T.d. "aukin tækifæri eftir háskólanám", "betri her", "meiri styrkur við ellilífeyrisþega" o.s.frv. Fólk átti svo að dreifa fjárlögum ríkisins í þessar körfur, svo flokkurinn hefði betri hugmynd um hvað það var sem almenningurinn vildi. Annar flokkur bauð upp á ókeypis prufutíma í líkamsrækt, fótsnyrtingu á staðnum og vatn og appelsínur. Það var hálf skrítið að sjá einhverjar kvennsur liggjandi á bekk með tærnar út í loftið á meðan þær voru snyrtar fyrir allra augum.

Við skoðuðum líka ráðhúsið, sem var ekki alveg eins fínt en alveg prýðilegt (en hver borgarráðsmanneskja var með spes tölvuskjá í sætinu sínu), rosalega fína kirkju, ekki eins fína kirkju, póst og síma safnið, kíktum í leikhús sem strákur sem er með mér og Olu í verkefnishóp var eitthvað að vesenast í kringum, röltum um og skoðuðum fólkið, fórum inn í klikkað flottan sal sem tengist skrýtna skrúfuturninum sem skrúfast í vitlausa átt (og arkítektinn framdi sjálfsmorð út af), skoðuðum rosa fínar mósaíkmyndir með gulli í sér, kíktum á hálf melankólíska listasýningu, skoðuðum ljósmyndir hjá Politiken blaðinu og margt fleirra. Já. Og svo lentum við líka í rosalega geðveikislegum öfgasinnaðum áróðri um "öryggi á internetinu". Við leituðum uppi einhvern stað sem átti að vera með eitthvað um IT-security, en jáneinei það var sem sagt öfgageðveikismaður sem hélt yfir okkur svaka ræðu um að við hefðum rétt á að vera nafnlaus á netinu og þetta fólk hafði þróað allskonar leiðir til þess að skipta út MAC addressum og fara í krókaleiðir í gegnum tölvunet til þess að tölvan á hinum endanum myndi ekki þekkja þig. Já.. forrit og afrita DVD og geisladiska með copy-protection. Svo sagði hann okkur að hann og 3 vinir hans væru allir að deila með sömu nettengingu frá TDC, þó það væri sagt að það mætti bara einn vera með hverja tengingu og "the man" gæti sko ekkert bannað honum þetta. Þegar hann var farinn að segja Olu að fólkið á kolegiinu hennar hefði engan rétt á að banna henni að skipta um MAC addressu (en þetta er notað þar vegna þess að hver einstaklingur hefur bara ákveðna bandvídd á mánuði svo að netið haldist almennilega hratt) og hún gæti notað eitthvað af þessum forritum til að "svindla á kerfinu" var ég farin að reyna að fikra mig að hurðinni. Við sluppum loksins út. Lifandi. Takk fyrir. Ég var orðin virkilega hrædd um að hann væri farinn að hugsa að samfélagið gæti ekkert bannað honum að fremja morð heldur ef honum langaði til þess. Fólkið þarna lét okkur samt fá geiskadiska með öllum þessum forritum í kveðjugjöf. Áhugavert.

Við ætluðum að taka strætó í dýragarðinn og sjá einhverja spes næturopnun, en klukkan var bara næstum miðnætti og allt að loka svo við fórum heim. Það hefði örugglega verið gaman að sjá hann allan upplýstan. Kannski að dýrin hefðu samt verið að lúlla sér.

Ég veit ekki alveg af hverju íslenska menninganóttin er ekki svona fín. Kannski er það vegna þess að allskonar söfn, fyrirtæki, klúbbar og stofnanir vilja ekki opna dyr sýnar fyrir ómenningalegum Íslendingum á stútfylleríi.

11.10.06

It isn't easy being green. Having to spend each day the color of the leaves..

Well, the leaves on some of the trees here in Denmark have started to turn yellow, red or a number of other non-regulatory colors for leaves. I wonder if Kermit the frog changed colors during the autumn as well.

I am not too crazy about the autumn. You see, summer is my favorite season. With summer comes jacket- and sometimes sweater-less fun in the sun with the occasional ice cream and usually no homework. Summer is like the weekend, which would mean that the autumn is a Monday. Monday with rain, wind, stress and cold weather. I do not really see the romance in it.

Here in Denmark, they have added an autumn holiday to make this retched season a little less annoying. Actually, a Danish guy told me that the autumn holiday has something to do with the olden-days and harvest, but personally I think that is just an excuse.

Last year, we took this opportunity to visit Vienna. A gorgeous city, with not equally gorgeous inhabitants. The over all beauty of it is however above average. This year we are pondering (love that word. Reminds me of "plunder") to visit Sweden. It is just a flaming Moe away (well, actually just a short train ride away, but I'm sure the train ride takes about as long as drinking a flaming Moe, if you really savor it).

In Sweden I expect to see meatballs, Ikea, blond people in skimpy clothing and a match factory or two.

7.10.06

Slagsmálabardagahundur með sítt að aftan

Ég skellti mér í kvikmyndahús og sá þar Fearless, sem er nýjasta myndin hans Jet Li. Þessi myndi er ekki sýnd á Íslandi alveg strax. Ekki láta ykkur líða illa samt! Í síðustu viku sá ég Click, sem var alveg ný komin í bíó hérna, en var löngu dáin úr elli í bíbbunum heima. Vá hvað það var ekki skemmtileg mynd. Ég hélt að ég væri að fara á grínmynd og svo bara BAMM. Drama og högg í brisið. Mínus högg í brisið.

Fearless var hinsvegar töff. Hún er líka merkileg fyrir þær sakir að þetta er líklega síðasta bardagamyndin hans Jet Li, en hann hyggst nú snúa sér að hefðbundnum kvikmyndaleik. Það eru sorgarfréttir fyrir okkur sem kunnum að meta góðar slagsmálamyndir, en vissulega betri fréttir en þær að Jackie Chan hafi slíkt hið sama í huga. Munurinn er nefnilega sá að Jet Li getur alveg leikið, á meðan að Jackie Chan getur það sko aldeilis ekki.

Fearless er mynd um kínverska slagsmálakappann Huo Yuan Jia, sem gat lamið alla í klessu, óháð þjóðerni. Eins og það hafi ekki verið feikinóg, þá var bara líka splæst á þetta söguþræði og ágætis upptökustöðum og stúdíóum.

Þessi mynd er öll á kínversku, svo að ég þurfti að lesa danskan texta á fleygiferð til þess að botna í henni. Í fyrstu fannst mér hann fara helst til fljótt af skjánum, en ég komst í æfingu og mér tókst barasta ágætlega að keppa við textann. Sko stelpuna! Næst verður hún farin að setja remúlaði út á All branið sitt á morgnana og spjalla um fríblöð á dönsku við fólkið í strætó!

Barabaraaffíbara

6.10.06

Svefngalsi og sætir læknar

Ég er með svefngalsa. Ég eyddi nefnilega stórum hluta gærnætur á slysó og mætti svo hress og kát (mínus hress og kát) í tíma í morgun eftir mjög lítinn svefn. Ég lenti nefnilega í þeim skramba að bílhurð var lokað á hægri þumalputtann minn (a.k.a feitaputta, en það nafn á ennþá betur við hann núna). Hurðin lokaðist meira að segja alveg og ég varð að væla ítrekað á einhvern til að opna hurðina aftur svo ég gæti losnað úr prísundinni. Ég er aðalega bara þakklát fyrir að bíllinn hafi ekki keyrt af stað og tekið feitaputtann með sér og selt hann á ebay. Hvernig ætti ég ÞÁ að spila xbox? Ofan á það væri nánast ómögulegt að koma í veg fyrir klónun.

Já. Allavega. Þegar ég loksins þorði að líta á hendina á mér, sá ég að það var djúpt far ofan í puttann þar sem að bílhurðin hafði knúsað hann. Ég líka meiddi mig alveg ofboðslega mikið. Rökhugsun mín, hún rökhugsun, ákvað að puttinn hlyti að vera sæmilega tjónaður eftir þetta, þannig að það var tekin sú ákvörðun að kíkja á slysó.

Eftir sígarettufýlutaxaferð og móttökudömuspurninguna hvort ég hafi "dottið" tók við hefðbundin slysóbið. Við hr. mon vorum ein á biðstofunni, ásamt slysósjónvarpinu, sem ég kýs að kalla Slysósjónvarpið og nammi-, kaffi-, samloku- og kóksjálfsölunum, sem ég kýs að kalla Sjálfsalana. Sjálfsalarnir voru allir tómir, nema nammisjálfsalinn. Hann urraði öðruhvoru og otaði twixi reiðilega í áttina að okkur. *Bllluuuuurrrg* sagði hann.

Slysósjónvarpið náði fyrst að fá okkur til þess að slappa af með Fraiser þætti og svo WHAM! (ekki hljómsveitin samt), sló það okkur utanundir með Americas Funniest Home Videos. Shift hvað það var illa gert. Kona var föst í svona "verða að horfa á sjónvarp" stað, eins og þegar hún er lappalaus (laptop sko, ekki fóta) í flugvél. Ofan á það, var feitiputti núna orðinn þrefaldur og kominn með sinn eigin sársaukapúls, algjörlega úr takti við restina af líkamanum.

Það leið og beið og á endanum kom læknir að sækja mig. Þessi læknir var á aldur við mig, sem var áfall út af fyrir sig. Hvenær varð ég eiginlega nógu gömul til þess að læknar væru á mínum aldri? Þessi læknir var líka alveg sérstaklega sætur. Alveg Hollywood myndarlegur. Allavega fannst mér það þangað til að hann fór að klípa og pota í aumingja slasaða puttann. Á einum tímapunkti tók hann bréfaklemmu úr læknamannabrjóstvasanum sínum, tók hana í sundur og potaði í puttann með henni. Mér finnst að vísu alltaf gaman af bréfaklemmupyntingum, þar sem að Clippy (office bréfaklemman) hefur eyðilagt mig fyrir lífstíð, en það er ekki eins gaman þegar bréfaklemmupyntingar og feitaputtapyntingar fara saman.

Klemmi læknir ákvað að láta taka rönken af mér til öryggis. Eftir meira Americas Funniest maraþon með allskonar leiknum atriðum og fólki að detta og meiða sig, hlaupa á myndavélina og hoppa út af trampolínum kom rönkenkona að sækja mig. Rönkenkona, sem var líka á mínum aldri, fór með mig í rönkenherbergið. Í rönkenherberginu var rönkenmaðurinn, sem var líka jafnaldri okkar. Vöddafork!? Ég er ekkert læknafólkagömul!

Ég var látin snúa hendinni á mér í ólíklegustu hringi og ég var nánast farin að mjálma: "No, NO.. it doesn't bend that way!" undir lokin. Svo fékk ég einhverskonar geislavarnarpúða á bumbuna á mér ef ske kynni að ég væri preggó (HEY! ég var að fatta.. did she just call me fat!??) og svo var smellt af.

Eftir meiri pyntingar frá Slysósjónvarpi og Fyndnum fjölskyldumyndum kallaði Klemmi mig aftur inn. Klemmi sagði mér að ég væri ekkert brotin (phew). Svo klemmdi hann puttann á mér aðeins meira og potaði í hann eins og til að kveðja hann held ég. Svo boxaði hann mig í öxlina og sagði "you're all right!", en bætti svo við "you just have one more week to live". Okay, reyndar ekki. Hann boxaði mig í öxlina, sagði "you're all right" og sagði svo að ég ætti eftir að vera aum og dofin í feitaputta næstu daga.

Í dag er feitiputti fjólublár eins og bláberjaskyr og jafn feitur og lítill Jabba. Hann er samt allur að koma til. Hann er trooper!

4.10.06

Kreisistöff

hjólaskautanötter

Mini-vísó!

Þegar ég var í HR, þá fór ég reglulega í vísindaferðir á föstudögum, þar sem kona náðaði rútu með návist sinni og svo héldu ýmsustu fyrirtæki fyrirlestur og buðu svo upp á misfínt möntsj (djöfull hata ég samlokubakkana frá sóma. Ekkert smá margir sem fóru að koma með þannig í staðinn fyrir pizzur) og mismikla mareneringu.

Microsoft náttúrulega sigraði heiminn (eins og þeim einum er lagið) og voru með eldsmiðjupizzur ásamt bjór, stelpubjór og allskins skotum. Það er eitthvað við forstjóra sem rölta upp að konu með hot 'n sweet skot á bakka og spyrja svo hvort hún þurfi ekki að fara að fá sér meiri bjór.

Já. Allavegana.

Svona ferðir eru ekki í Danmörkunni. Ég sagði einum Dananum frá þessu og hann horfði á mig stóreygður og spurði: "Ókeypis.. bjór?", en það er það fallega sem danskt fólk getur hugsað sér. Meira að segja þó að hann kosti milljón og einni krónu minna hérna en á Ísa landi.

Á föstudaginn, áður en ég fer á tyrkneska kvöldið, er ég að fara í mini-visó í Telia, sem er símafyrirtæki. Áðurnefnd balkasnót bauð mér með sér, en þessi ferð er á vegum einhvers kennara í telecommunications deildinni (sú lettneska er þar. Ég er í annarskonar námi).

Ég veit ekki hvað það verður mikið um möntsj og marineringu, þar sem ferðin á að vera á milli 14 - 16, en það *verður* rúta! Við Albert, það verður RÚTA!

2.10.06

Mmmmmmgottgott

Okay.. Þið vitið hvað það er góð tilfinning að fara í glænýja sokka. Þeir eru allir mjúkir og kósí innan í sér. Ímyndið ykkur hvernig tilfinning það er að fara í glænýjar sokkabuxur! Sama mjúka, kósí tilfinning upp eftir öllum löppunum. Schnilld!

Ég er að spá í að pattenta þessa tilfinningu og tappa á flöskur. Nýjasokkabuxnatilfinning á fljótandi formi....

1.10.06

One more for good measure

..it works the same way as the one before (click and press F5 a couple of times in a row to re-watch)Stelpa frá Lettlandi var að bjóða mér, Íslendingnum, að koma með sér á tyrkneskt kvöld í Danmörku

Nokkuð massívt og fjölþjóðlegt ha? Mest finnst mér þó skemmtó að mér sé boðið einhvert. Ég er eiginlega alltaf með strákum í hópverkefnum og svona (sökum áhugaverðs strákar-stelpur hlutfalls í tölvutengum fögum) og þeir eru oft duglegir að leggja til að við ættum að gera eitthvað skemmtilegt saman, þangað til að ég minnist á að ég eigi kærasta. Ég held þeir hætti ekki af því að þeir hafi eitthvað verið að reyna við mig, heldur frekar að það er líklega ekki khosier að byrja að hanga með lofuðum kvenmönnum.

Ætli það sé almennt þannig? Kona heldur í karlkyns vini sem hún átti fyrir upphaf sambandsins en bætir ekki fleirum við?

En jæja. Ég sigraðist á kerfinu. Ég kom mér í hóp í einu fagi þessa önnina sem inniheldur aðra stelpu! Hafðu þetta kerfi. Hafðu þetta!

I do know that animated gif's are evil but..

..I created the one below all on my onceies.


Yes way!

I made it on my beautiful pocket PC. In order to make it a little less annoying, it only goes one round each time. If you want to check it out again, press its link and refresh a couple of times.

Mörgæsir elska mig!

Allavega þessi mörgæs

30.9.06

Uppbyggilegur dagur hingað til

Ég vaknaði kl. 7 í morgun við að nágraninn eyddi góðum hálftíma í að lemja vegginn sinn með hamri. Vá hvað ég var glöð. Annars hefði ég kannski lennt í þeim óskunnda að sofa út eða eitthvað.

Í dag erum við Einar búin að velta ýmsum hlutum fyrir okkur. Það síðasta sem ég tók mér fyrir hendur, var að íslenska orðið "shart" (t.d. "I just sharted"). Ég held að besta þýðingin sem ég kom með hafi verið "að skumpa". Skrifið það niður og notið í framtíðinni í koktailboðssamtölum til þess að virka veraldarvanari.

28.9.06

My mouth is on fire

I made chicken fajitas for lunch. They were yummier than Brad Pitt, covered in ice cream and holding a 8 GB iPod Nano. Well, I actually don't find Brad Pitt to be all that yummy. I just needed a universal symbol of yum for all you guys to understand just how tasty my chicken fajitas were.

Back to Brad Pitt.... I mean, the fajitas! Amongst other things, they had some chopped up chilly pepper for extra zploing. For some reason, all the chilly seemed to have decided to hang out at the second last bite of MY fajita.

I have now changed into a rather short, rather scale-less and rather wingless fire-breathing dragon. I have this strange urge to find an unsuspecting village to breath fire on and pillage and plunder (heh. I like that word. Plunder) and a cave to keep my assortments of virgins and plunderings (heh heh. Sorry. Couldn't resist).

I wonder if they have any nice caves in the real estate section...

26.9.06

Voddafokk?

Ég tók þetta próf fyrir svona 2 árum og fékk 97% þá minnir mig.

My computer geek score is greater than 100% of all people in the world! How do you compare? Click here to find out!

Ég er náttúrulega búin að verja þessum 2 árum í að læra tölvunördisma og svona.. Þetta er samt alveg magnað! Ég valdi alltaf bara það sem átti við mig.. ekkert það nördalegasta hverju sinni. Ætli ég hafi fengið stig og bolta fyrir að vera með 3 tölvur á heimilinu sem keyra á linux? (minn lappi, lappinn hans Einars og gamli lappinn hans Einars)

24.9.06

FrOSKur..

Þessa helgi er ég búin að vera að gera SMPT vefclient og POP3 vefclient í python. Ég veit að viðhorf mitt myndi líklega vera öðruvísi ef ég hefði verið að nota eitthvað fancy umhverfi í staðinn fyrir gedit (textaeditor), en ég HATA python. Úff hvað ég var nálægt því að taka trylling í gær þegar síðan þýddist ekki öðru hvoru vegna þess að það var auka bil einhverstaðar. ÞETTA ER BIL. Höndlaðu það!

Ég veit líka að þið eruð örugglega farin að velta því fyrir ykkur hversvegna það fylgir frOSKur með þessu póski. Tja.. það er af því að mér fannst hann fínn.

23.9.06

Á heilanum..

Hr. Mon var að spila þetta á gítarinn sinn um daginn og núna losnar þetta ekki..

And I'd give up forever to touch you
Cause I know that you feel me somehow
You're the closest to heaven that I'll ever be
And I don't want to go home right now

22.9.06

Sad indeed

I asked the internet and it told me that more people were looking for their keys then were looking for happiness.

I am bored, therefor I am.. boring?

I usually say that if you're bored, it's your own damn fault. Never the less, I am sitting at home in front of the computer on a Friday night, making a list of soulmelds a totemist can use (D&D stuff).

Aren't I the cool one?

I am so friggin' bored. If it weren't for the fact that I haven't drunken a single alcoholic beverage or eaten candy or any other unhealthy stuff for two months now, I would SO be medicating myself with sugar. Bleh. I'd rather have a bicep and thighs with a muscle definition back than have sugar anyway. Or fun. Well.. At least sugar.

I have already made and eaten ice-cream (ice-cream-maker is a girl's second best friend) out of low-fat dairy, a banana and some mom-imported splenda.

I can't think of anything else that I *want* to do. I did get this interesting idea of going out to the balcony and throwing wet toilet paper at passers by. The problem is that it's dark out now so even if there were any people about, I would probably not be able to see them too clearly. That, and I throw like a girl.

If I were in Iceland right now, I would call some of my peeps, throw on some make-up, jump into my party-suit and hopefully head out for a night of sober partying and dancing, laughing, joking and dancing some more.

I seriously need to find myself "Danish peeps".

I wonder what Chuck Norris would do at a time like this. He would probably go outside and kick a few thugs around. Then he'd kick his own ass for letting himself get bored.

In fact, that is what I will do! Find crooks and punish them with my super-kung-fu powers. Then I'll bring 'em to justice or just leave them on the police stations door step with a pretty red boa around their evil, demented criminal heads. There's nothing quite like a night of crime fighting......

19.9.06

Jhaaaaaaar

Nei.. veistu, ég kann ekki við þetta!

Af hverju er allt í einu fullt af spammi byrjað að slæðast inn með venjulega póstinum mínum í gmail? Ljótu spammarar að bögglast við að klekkja á ofur-filternum þeirra!

17.9.06

Mogwai

Við fórum á Mogwai tónleika í gær með góðu fólki. Þetta voru sveittustu og... eh... heittustu? tónleikar sem ég hef farið á. EVER. Til að byrja með stóðum við svona eins og 20 metra frá sviðinu (e. stage, ekki sviðinn kindahaus). Þar var hitinn í kringum 35°C og það lak af öllum svitinn. Ég sá nákvæmlega ekkert á sviðið, sökum þess að ég er "vertically challanged". Ekki bætti það úr skák að parið sem stóð beint fyrir framan mig og var eiginlega það eina í sjónlínunni hjá mér, sá sig knúið til þess að étast(*) með verulega stuttu millibili, og þá helst í góðar fimm mínútur í einu. Ég hef ekkert á móti því að fólk sé að kyssast, en þegar kona sér tungur fljúga í allar áttir og fær slefslettur á kinnina á sér og svona, þá er það bara medjör krípörs.

Þegar Mogwai kom á sviðið, var sígarettureykurinn var orðinn svo þykkur að það var hægt að tappa hann á brúsa og selja sem skordýraeytur. Fyrir aftan okkur Einar stóðu tveir himinháir strompar og strompuðu niður á litla fóklið (sem er víst ég.. Einar er ekki lítill) á milli þess að þeir actually öskruðu lagarequests á milli laga. Hvað er það? Halda þeir að þetta séu ferða DJ-ar? Minnir mig á þegar Bjarni Fel var að lýsa fimleikum í sjónvarpinu í den; "Nauh! [Insert nafn] gerði sjúkahara (hljómar eins og japanskt sjálfsmorð, en er í raun fimleikaæfing á "stökki") með tvöföldu heljarstökki. Hvað ætli [insert annað nafn] geri núna!?".. Svona eins og hún ákveði bara jafnóðum hvað hún ætlar að gera og það séu ekki mánuðir af æfingum að baki :oP

Allavega. Þegar mér var farið að líða virkilega illa og vera flökurt, sökum verulegs hita, óbeins sígarettureyks og svita (eigin og annaramanna), þá færðum við Einar okkur aftast í herbergið. Þar, merkilegt nokk, lækkaði hitinn um góðar 10 gráður og ég sá meira að segja í trommara og í part af bassaleikara! Þó að ég hafi ennþá fengið slefslettur frá ógeðiskossafólkinu, eins og allir í salnum, þá voru lagarequests-öskrigaurarnir núna bara einhverjir fávitar inni í sal, í staðinn fyrir einhverjir fávitar sem stóðu við hliðina á mér.

Tónleikaupplifun mín bættist um mörg hundruð prósent við þessar tilfæringar og ég get í alvörunni sagt að ég hafi bara skemmt mér mjög vel. Ég hlakka hinsvegar verulega til þess að reykingar verði bannaðar á svona samkomum. Vá hvað ég myndi fara oftar á tónleika, djamm og kaffihús ef það væri ekki alltaf mökkreykt allstaðar!

(*) Aski brjóstið að þessu sinni vísar á samtal sem Óli frændi bjó til þegar hann var 2ja ára gamall að leika sér með nashyrning og flóðhest:

Flóðhestur: Ég ætla að éta þig nasifingur!
Nashyrningur: En ég er líka ljótt dýr..
Flóðhestur: Óh! Þá skulum við bara étast
*nashyrningur og flóðhestur éta hvorn annan*

15.9.06

Aldeilis mikið af nýju dóti..

Það er hægt og rólega að koma mynd á nýja characterinn minn. Hún heitir Briana. Þetta verður í fyrsta skipti sem ég spila good character og í fyrsta skipti sem ég spila lawful character (svo ég tali nú ekki um lawful good). Ofan á það, verður þetta í fyrsta skipti sem ég spila monk.. eða thug.. (er að gera 2 character sheet og ætla svo að velja bara það sem er fínna). Þetta er líka í fyrsta skipti sem ég spila á ensku, í Danmörku, hjá þessum DM og með teningunum sem ég var að kaupa, því allir mínir eru á Íslandi.

13.9.06

Ég veit hvernig Rockstar The band formally known as Supernova fór!!

Og það var nákvæmlega eins og ég hafði spáð. Fólkið fór í sömu röð og allt!

I could never stay mad at you..

Elsku sólin. Hún lætur ekki sjá sig í lengri tíma, nánast í hvaða landi sem kona náðar með tilvist sinni (Ísland og Danmörk þ.e.) og svo þegar hún loksins kemur, þá er allt gleymt og grafið. Halló veeenuuur! Oh hvað það er gott að fá smá stutt-ermabolabola/-buxna/-pilsa veður aftur. Ohh hvað það er gott að sjá hitamælinn aftur fara yfir 20 gráðurnar.

Sól, sól skýnámig.. Ský, ský burt með þig.. Gott er í sólinn' að gleðja sig. Sól, sól, skýnámiiiiig

Rostungar og eldgamlar sápur

Af hverju ætli gamlir rostungar heiti ennþá "rostungar". Af hverju heita þeir ekki rostgamlir eða rostfullorðnir? This puzzles me.

Annars fór ég að velta því fyrir mér að "eldgamlar sápur" hafi svolítið bad rep. Það er alltaf verið að tala um hvað þær glápi mikið, en það er aldrei talað um góðu hlutina sem þær gera. Af hverju búum við ekki til annað máltæki. Eitthvað eins og "Vá! Hann hleypur geðveikt hratt. Hey þú! Hvað ertu að hlaupa eins og eldgömul sápa?" Eða.. "Hvað ertu að fá 10 á prófinu þínu eins og eldgömul sápa!?"

Just.. throwing it out there.

11.9.06

Þar sem nördarnir hittast

Við helmingurinn ákváðum loksins að skella okkur í klúbb. Það er eitthvað svo upphefjandi við það að vera partur af einhverjum klúbbi.

"Fyrirgefðu að ég svaraði ekki símanum í gær. Ég heyrði ekki í honum. Ég var nefnilega í klúbbnum!"

"Þetta er sérstaklega góð samloka! Ég smakkaði svona í klúbbnum..."

Já! Sko! Einstaklega upphefjandi.

Þessi "klúbbur" er nördaspilahópur í skólanum okkar, þar sem c.a. öll borðspil í heiminum eru spiluð, ásamt roleplay, magic og warhammer svo eitthvað sé nefnt. Í fyrstu fundum við ekki herbergið sem klúbburinn á. Ég kom með þá tillögu að finna nörd og elta það og sjá hvert það færi. Þegar næsta nörd labbaði framhjá, snaraði ég mér í spæjaramode-ið og læddist á eftir honum. Einari var ekki farið að lítast á blikuna þegar við vorum farin að rölta niður einhvern undarlegan gang, en ég reyndist samt hafa haft rétt fyrir mér! Við hinn enda gangsins var herbergi með rosalegasta boardgame skáp í heimi. Við fengum tour um skápinn þar sem að leiðsögunördið sagði okkur að hin og þessi spil væru ófáanleg í dag og allskonar safnarar væru með bónerinn upp úr buxunum og tárin í augunum að grátbiðja um að fá að kaupa þau.

Fyrr en varir fylltist herbergið af mis-nördalega útlítandi nördum og gott ef við Einar séum ekki búin að skrá okkur í einhverskonar D&D kampein á miðvikudagskvöldum. Fyrsta kvöldið okkar í "klúbbnum", sem hittist alltaf á mánudögum, spiluðum við spil sem heitir puerto rico og svo einn catan á dönsku. Það er mjög spes að stunda viðskipti á dönsku.

"Jeg har en får, men jeg mangler korn! Så skal jeg ha' et udvilkningskort."

Þetta lærði ég í klúbbnum sko..

10.9.06

Allt að gerast..

Stór hluti mon-fjölskyldunnar á afmæli í dag. Daði bróðir minn er 26 ára í dag og besti Einar í heimi er 27 ára. Ég hefði gefið þeim báðum tannbursta með spes tunguþrifs áhaldi á bakinu, hefði ekki verið fyrir þá staðreynd að Einar á nú þegar einn slíkan og ég fattaði þetta ekki fyrr en pakkinn hans bróður míns var á leiðinni til Íslands.

Hversu æðislegt er það að eiga tannbursta með "tunguskröpu"? (bein þýðing af dönsku leiðbeiningunum á burstanum mínum).

8.9.06

Ýmislegt um ýmislegt

Á hverju einasta ári hefur kærastinn átt þann leiðinda ávana að eiga afmæli. Ég hef svo sem ekkert á móti afmælinu hans sem slíku, en vesenið er að gefa honum gjöf. Hann er nefnilega þeim eiginleika gæddur að kaupa sér alltaf það sem honum langar í jafnóðum (við erum með budget system sko) og svo þykist honum ekki vanta neitt, sem gerir gjafaversl einstaklega erfitt.

Í ár tókst mér sko að tækla þetta í fyrstu verslunarmiðstöðvar ferðinni! Muhaha! Þetta er risa stór pakki. Eins stór og kassinn utan af lego-kastalanum hans Óla frænda. Þetta er samt ekki legó-kastali. Eða.. *hóst* sko nei.. Þetta GÆTI alveg verið legó kastali. Þetta gæti verið HVAÐ SEM ER! Ég er ekki að gefa nein hint. Na-aa!

Annars eru allir heimsækjarar farnir aftur til Íslands. Ösp frænka kíkti við hjá okkur á mánudaginn og fór á þriðjudaginn. Ma og pa komu á miðvikudag og eru núna í flugfáknum á leiðinni heim. Við erum því, eins og svo oft áður þegar þau kíkja við, orðnir tímabundnir umsjáendur bíls umsemjanlegrar ástríðu. Að þessu sinni er það virðulegur leiguvolvo.

Tilboðsbæklingar!

Á föstudögum koma allir tilboðsbæklingarnir í hús, fyrir utan fötex og netto (uppáhalds tilboðsbæklingarnir mínir). Að því tilefni ætla ég að deila með ykkur nokkrum myndum. Hver um sig er tekin úr mismunandi tilboðsbæklingum.

Ég ætla ekki einu sinni að byrja að tala um hversu ógeðslegt það er að til sé ostur sem heitir "klovborg". Mig langar sko ekkert heldur að spá í hvernig hann er framleiddur..


Hversu danskt er þetta? Ef þú hefur ekki tilefni til að skála, búðu það til!


Þessi viðbjóðslega pulsa er í nánast hverjum einasta tilboðsbæklingi. Ég vona að það sé vegna þess að hún selst ekkert. Danirnir kalla hana "medister", ég kalla hana "þarmapulsu".

6.9.06

Welcome you beautiful machine you

In one and a half months time (plus a day), I will be 25 years old. Actually, the day after that I will also be 25, and probably for a whole year after that if I find it to my liking. 22nd of October is however more special, as it is the first time ever I give 25 a shot.

Because of that, today I got my first birthday present this year. It was from my parents, whom I choose to call "mom" and "dad" (well, truth be told, I choose to call them "mamma" and "pabbi", but what do you care?). They are currently in Denmark on business and I found myself in an electronics shop with them. It was there I saw the most beautiful juicer in the entire world. Juicers have visited my dreams of late and spoken to me with a voice which is probably layered with mesmer (two monpoints for the one who gets the "quote"). This particular juicer was made out of pure gold, had a diamond power button and it whispered to me that it could do my taxes if I'd like (that, or I'm still under the mesmer).

Now.. I haven't gone "juicer spotting" before, because I haven't been sure whether or not I would use one if it came to be in my possession. Today, those thoughts evaporated as I watched my reflection in the juicer of gold.

And now it's MINE!

It can juice at the power of 700W and it juices just about everything. My juice-de-flowering was composed of carrots, cucumber, apple and a little fresh ginger. Of course it doesn't stop there. I might just feel like taking an all-juice week, where gourmet juices such as "beef fillet and potatoes" or "sushi" grace my dinner menu. The possibilities are endless!

Meh.

Á síðustu önn voru eiginlega of fáir kúrsar sem mig langaði til að taka. Ég endaði á því að skrá mig í allavega einn bara upp á einigarnar og var í 3 samtals. Á þessari önn eru alltof margir sem eru spennó. Ég er skráð í 5 stk núna. Upphaflega hugsunin var að skrá mig svo úr einum eftir að hafa farið einu sinni í alla tímana. Núna er ég að gæla við það að taka þá bara alla. Svolítið hrædd um að það verði killer samt. Allir nema einn eru með 100% verkefni, þannig að álagið gæti orðið hroaðlegt.

Annars langar mig að tuða aðeins yfir hópverkefnum. Back in the days í HR, þá fannst mér þetta snilld. Núna er ég eiginlega bara komin með alveg nóg. Ég er t.d. í einum kúrsi sem heitir "Secure Mobile Services" og verkefnið í honum gengur út á reyna að búa til secure aðferð til þess að borga með farsímanum sínum (sem myndi geyma kreditkorta upplýsingar eða whatnot) fyrir vörur, í staðinn fyrir að nota kreditkort. Þetta er 100% verkefni og hópastærð er... daddara... fjórir! *Æl*. Ég er alveg ekki að nenna að vera í fjögra manna hóp einu sinni en. Tveggja manna hefði verið snilld. Bara einu sinni. Ég nenni í alvörunni ekki þessum endalausu samskiptaleiðum, veseni að finna verkefnavinnutíma út af mismunandi stundaskrám og að reyna að fela mig fyrir fólki af þeim þjóðum sem ég hef fordæmt (hehe.. myndað mér fordóma á þ.e.a.s.) þegar það er að leita sér að hópfélaga.

Fank god að masters verkefnið mitt verður eins manns (líklega).

3.9.06

Bhlerg

Í kvöld var svínakjöt í matinn í svona fjórða skiptið síðan við fluttum hingað út. Það er ekki af því að ég hét því að borða aldrei svín aftur eftir að hafa horft á Vaska grísinn Badda eða neitt svoleiðis. Mér bara finnst svínakjöt ekkert spes (með nokkrum undantekningum, t.d. hamborgarahrygg). Svo er það líka með vonda fitu og það er slæmt fyrir kólestrólið. Tja. Eða gott fyrir það. Það allavega hækkar kólestrólið. Bygoes.

Já. Allavega. Svínakjöt. Ég keypti svínalundir sem voru á ofurtilboði. Þegar ég var að snyrta þær fékk ég rosalegt kjötborðastarfsmannsflashback. Átti allt eins von á því að upp úr jörðinni myndi spretta samstarfskona, eins og túlípani, og segja mér að hún sé í bleyju af barninu sínu. Til allrar hamingju gerðist það ekki og ég gat haldið áfram að elda án þess að henda mér í fósturstellinguna, halda fyrir eyrun og kyrja strumpastuðslag. Ég gerði mean fyllingu úr döðlum, hvítlauk, fersku basil, sólblómafræjum og fleirra djúsí stöffi. Þetta var bara alveg prýðilegasti matur. Ég borðaði ekkert meira en vanalega en svona 5 mínútum eftir matinn... out of the blue.. þá var ég allt í einu ógeðslega södd. Ég ligg ennþá fyrir með bumbuna út í loftið eins og ég sé komin 7 mánuði á leið. Hey! Why have a 6-pack when you can have a keg? Hehe.

Gerir svínakjöt þetta almennt? Blæs út eftir á eins og friggin' pöffer fiskur?

2.9.06

Alvöru faðir Harry Potter!

Eitthvað segir mér að James Potter sé ekki pabbi hans Harrys, heldur hafi Lily verið með snert af bítlaæðinu back in the days..

1.9.06

Post strípur myndir

Fyrir Völu!!

Jæja.. Þetta varð sem sagt ekki eins slæmt eins og ég hafði búið mig undir. Þetta er engan vegin eins smart eins og ef ég hefði farið á stofu (og borgað 1000 kall í staðinn fyrir 50 kall), en sonirida. Ég poppaði myndirnar aðeins upp því þær voru svo dauðar og leiðinlegar og ég nennti ekki að taka aðrar:

What if..??

If 40 is the new 30..
and 30 is the new 20..

Will I, the next 22nd of October, become the "new 15"? That's just not good. There is nothing cool about being 15 anymore. It was all the hype 10 years ago. Back then, most of the people I hung out with were 15 and I was desperatly looking forward to becoming 15 myself.

Today, only kids bother with being 15!

So not cool.

31.8.06

Aldeilis að Dönum er í mun að fá að skoða á mér skvísuna!

Ég var að fá þriðja bréfið á *mjög* stuttum tíma sem boðar mig í ókeypis skvísuskoðun (leit að frumubreytingum í legháls). Ég þarf ekki að fara í svona skoðun strax. Ég er búin að fara á Íslandinu! Engu að síður halda þessi bréf áfram að koma og ég er beðin um að bóka tíma hjá lækninum mínum, eða henda bréfinu ef ég þarf ekki á skoðun að halda.

Ætli læknirinn minn sé einhver pervert? Persónulega finnst mér mun betri kostur að fara í svona skoðun hjá þar-til-gerðum skvísuskoðunar lækni. Þá skellir hann bara á sig tollskoðunar hönskunum, nær í fuglagoggagræjuna og hugsar um hvort hann þurfi að stoppa í búð á leiðinni úr vinnu á meðan hann sækir ofurstóra eyrnapinnann. All in a days work!

Fyrir venjulega heimilislækna er þetta öðruvísi. Þeir eyða mestum sínum tíma í að skrifa upp á "placebo" fyrir hugsjúk gamalmenni sem vantar bara félagsskap, kíkja í eyrun á ungbörnum og taka sauma af litlum skæruliðum. Þeir myndu sko aldeilis ekki flauta lyftutónlistarlag og velta því fyrir sér hvort þeir ættu að leygja spólu í kvöld á meðan á þessu stæði. Persónulega veit ég ekki einu sinni hvort heimilislæknar eigi fuglagoggagræju. Hvað þá svona undarlegan glennustól með lappa-hólfum.

Mér þykja þessar bréfsendingar í bestafalli dularfullar. Ætli það eigi ekki að fara að reyna að klóna mig aftur. DJÖFULL! Hættið þið þessu. Það er bara til ein Ósk og þannig á það að vera!

Sáuð þið hvað ég gerði!

Ég bjargaði Magna. Tja.. reyndar hljálpaði fullt af öðru fólki líka! Ég kaus hann 100x í gær, því að síðast munaði 100 athvæðum á að hann væri ekki í "bottom 3". Rassa 3. Hahahaha.

30.8.06

Daddaraaa

Einhverra hluta vegna ákvað ég að það væri góð hugmynd að setja strípur í mitt sííííða hár sjálf. Það rann ekki af mér geðveikin fyrr en ég var actually byrjuð að setja efnið í hárið á mér, svo ég varð að klára. Það er ekki lengur spurning um hvort þetta verði disaster heldur hversu mikið.

30 mínútur í að ég komist að því.

Fyrir 24 árum..

..fæddist uppáhalds dreifarinn minn, hann Palli.

Það þýðir að fyrir 4 árum hætti ég að þurfa að fara í ríkið fyrir hann! H0h0h0h0h

29.8.06

Það er aldeilis!

Jæja. Þá get ég strika eitt af hlutir-sem-ég-þarf-að-gera-áður-en-ég-verð-30 listanum mínum:
- Fá 13 einkunn!

Geri það um leið og ég er búin að fá mér hlutir-sem-ég-þarf-að-gera-áður-en-ég-verð-30 lista! Hmm.. kannski ég setji "búa til hlutir-sem-ég-þarf-að-gera-áður-en-ég-verð-30" lista" á listann minn.

*pása*

Ég sprengdi á ykkur hugan er það ekki?

Annars munaði litlu að ég hefi getað strikað annan hlut út af þessum lista: Fá e-coli bakter.

Þetta kennir mér a lesa ekki DTU pstinn minn. Ég sá þetta bara í gær: The risk of E-coli is now considered eliminated, IT IS AGAIN PERMITTED TO DRINK WATER DIRECTLY FROM THE TAP.Phew. Eins gott að ég var ekki í neinum tímum í síðustu viku. Ég drekk geðveikt mikið af vatni alltaf.

26.8.06

Þrífætlingarnir hafa tekið yfir Köben!!

Váts. Best að fara ekkert út úr húsi. Ef ég væri ekki með netið, myndi ég ekki einu sinni vita af þessu

Átta hlaupabretta dansatriði

Flottasta dansatriði EVER má finna hér.

Hvaða stelpa var svona heppin?

Þið sjáið augljóslega að þetta: er vinstra stígvélið af flottasta brúna leðurstígvélapari í HEIMI. Hvaða stelpa haldið þið að hafi verið svo heppin að kaupa þetta stígvél og hægra stígvélið sem passar við það í stærð 36? ÉG!!

ÉG!!!

Og vitið þið hvað þau kostuðu? Hmm? Getiði! HAHA! Nei! Þið tapið. Þau kostuðu 199 krónur! Lifi nýju drottningastígvélin!

Ný íþrótt

Ég hef aðeins komið inn á þetta áður, en mikið væri nú skemmtilegt ef fótbolti væri poppaður svolítið upp. Hann er svo djöfulega leiðinlegur í núverandi formi. Vítaspyrnukeppnir eru hinsvegar ágætar, en í þeim fáu keppnum sem þær eru í boði, þarf að bíða afskaplega lengi eftir þeim.

Hérna er fyrri tillagan mín:
Væri ágætt að byrja á því að taka helvítið sem stendur þarna fyrir markinu alltaf hreint og flengja hann... Spurning um að minnka völlinn líka og fækka leikmönnum. Myndavélin fylgir alltaf bara boltanum og þessum 3-4 sem eru að elta hann hverju sinni. Hvað eru 18-19 að gera á meðan? Spila lúdó? Útaf með þá!

Núna er ég komin með aðeins framúrstefnulegri hugmynd. Tvo orð: eldvörpur og línuskautar! Skipta þessu vesenis grasi út fyrir almennilegt verslunarmiðstöðvagólfefni (þið vitið... svona gólfefni sem maður myndi drepa fyrir að fá að línuskautast á bara einu sinni), bara einn maður frá hvoru liði inni á í einu og svo bara battle it out running-man eða mortal combat style. Auðvitað væri það ekkert skilda að vera með eldvörpu. Það mætti líka vera með jet-packs, bambusrör og pílur, kaststjörnur eða neglur og krítartöflu.

Bardaginn heldur áfram þangað til að annar gefst upp eða er gefinn upp. Eftir það er þeim gaur skipt út fyrir annan úr sama liði. Það lið sem á menn eftir í lok leiks vinnur. Fær stig fyrir fjölda manna sem það á eftir. Getur ekki klikkað.

24.8.06

Tilraunin sem mistókst

Ég reyndi ítrekað að stara á Hr. Jónsson án með stjarfan svip, án þess að brosa. Það tókst ekki. Ég fór alltaf að hlægja eftir nokkrar sekúntur. Líka þegar hann horfði ekki einu sinni til baka. Annað hvort er hann svona hlægilegur eða ég svona hlægin.

Annars á ég alltaf eftir að prufa eitt. Það er að stara rosalega fast á hnakkann á einhverjum úti í búð eða í tíma eða eitthvað. Sjá hvort viðkomandi verði eitthvað var um sig og það sé í alvörunni til eitthvað "I have the feeling I'm being watched".

22.8.06

Very dubious

The boyfriend is sick. I'm talking, fever, coughing all over the place and the voice of Marge Simpson. The medical term for what he has is "lung infection". The doctor has him taking antibiotics and has ordered him to rest. Yup. That sounds extra sick doesn't it?

I still find it a bit dubious, as this alleged "sickness" is taking place the very week that one of our local grocery stores has a "killer-super-offer-week". That's my English name for it (catchy, isn't it?) but in Danish it's called "hamstring uge" (uge meaning week and hamstring meaning to "hamster" stuff. You know.. buy a lot of it), so everybody be sure to do an extra set of lunges on "leg day" at the gym!

Yes. Anyway. Killer-super-offer-week means lots and lots of heavy grocery shopping. Things like 3 kg (6.6 lbs) of chicken breasts etc.

Before we moved to Denmark, we sold our fleet of cars, as a car is not necessary to get from A to B here. This means that we walk around a kilometer (0.6 miles) to the store, put the stuff we buy into backpacks and walk back. The last two days, poor little mon, has not only had to carry a double amount of groceries, as the boyfriend plays xbox 360 at home (seriously people. Buy yourself an xbox 360 and the game The Elder scrolls IV: Oblivion), but also all those killer-super-offer-week things as well. Yesterday, I collapsed on the floor of our apartment with a 10-pack of steel pots and pans in my hands. Then I nearly drowned in my own sweat.

Now, I WOULD give him the benefit of the doubt, if the same thing hadn't happened last year as well. In fact, the picture accompanying this post of me carrying 3 kg of chicken breast was taken just then. Note the dark circles around the eyes due to partial insomnia because of second-hand-coughing. Oh. He's good. HE'S REALLY GOOD!

If we'll still be in Denmark the next time Killer-super-offer-week occurs, I'm keeping you posted on the boyfriends health!

21.8.06

Gott og illt

Sem börnum er okkur sagðar allskyns sögur til þess að reyna að móta okkur í góðar manneskjur. Eftir að ég skreið yfir tvítugt hef ég velt mörgum af þessum sögum fyrir mér og raunverulegum boðskap þeirra.

Munið þið til dæmis eftir sögunum um Sæmund Fróða og samskipti hans við Kölska? Þegar ég rifja upp innihald þeirra, geri ég mér ljóst að ef ég mætti velja á milli þess að gera samning við hinn hníflótta eða við klerk, myndi ég velja þann fyrrnefnda. Kölski stóð alltaf við sinn hluta samningsins. Sæmundur hinsvegar notfærði sér allar mögulegar "loop-holes" og smáa letrið út í gegn, til þess að klekkja á honum og fá þjónustu án þess að láta neitt í staðinn sjálfur.

Ég held að ég geti helst lesið úr þessum sögum að ef þú leitar uppi einstakling og gerir við hann samning sem þú hyggst koma þér undan eftir að hinn aðilinn hefur uppfyllt sinn hluta, þá telstu enn góð manneskja svo lengi sem hinn einstaklingurinn hafi verið vondur. Ekki skil ég hvað það er alltaf verið að mjálma um hvað lögfræðingar séu vondir, þegar Sæmundur sýnir slíka lögfræðitakta.

Önnur saga með svipaðan boðskap er Steinn Bollason. Reyndar byrjar sagan á því að Steinn og kona hans biðja til guðs um að eignast börn og guð svarar þeim með því að gefa þeim 100 börn. Ætli þar sé verið að taka á heimtufrekju? Passaðu þig á því hvers þú óskar þér? Kannski þetta sé annað lögfræðidæmi og það eigi að kenna fólki að biðja nákvæmlega um það sem það vill, hvorki meira né minna, því annars geti góð öfl klekkt á þeim.

Já. Allavegana. Steinn Bollason! Ég man eftir því, þegar ég var svona 4 ára, þá reyndi ég að kreista ostinn sem var á brauðinu mínu í leikskólanum svo það kæmi mjólk út úr honum. Það gerðist ekki. Ég varð bara klýstruð. Steinn dobblaði ekki bara mig upp úr skónum, heldur líka risann og mömmu hans. Hann komst upp með að láta risann gera öll sín verk, á meðan hann sat og slappaði af.

Síðasta sagan sem ég ætla að tala um heitir "Bláa kannan". Sú saga er um könnu sem vill komast niður af hillu og biður allskonar fólk um að hjálpa sér, en allir eru of busy. Kannan gefst þó ekki upp og á endanum samþykkir köttur að hjálpa henni og ýtir henni niður af hillunni. Kannan brotnar í þúsund mola. The moral of this story is... never try!

Meidjör krípörs

Ætli það séu til Stigamót fyrir sauðfé

20.8.06

Lítið

Þessa helgina hef ég ekkert gert annað en að gera verkefni, spjalla við Oblivion, versla snýtupappír og hálsbrjóstsykur og sjóða kraftaverkaflensulagara fyrir Einar. Svona er kraftaverkaflensulagari:

1 bolli:
- Rúmlega lítri af vatni
- Slatti af engifer skorinn í frekar stóra bita með stórum sárum (til þess að drepa flensu)
- 3 hvítlauksrif, skorin langsum (til þess að drepa vampírur)
- hunang (til þess að drepa bragðið af engifer og hvítlauk)
- Eyrnatappar (til þess að drepa öskrin)

Engifer og hvítlaukur eru svo soðin í 40 mínútur, eða þangað til að eldhúsið lyktar eins og eitthvað hafi dáið þar. Vökvanum er helt í einn bolla og hrært í honum með skeið af hunangi. Því næst er eyrnatöppum troðið í eyrun og reynt að hundsa öskrin á meðan hellt úr bollanum upp í lasna einstaklinginn.

Ef flensan flytur ekki eftir þetta, þá er hún með masókisma á háu stigi!

17.8.06

*DAHDAHDAAAAMM*

- Einar er veikur
- Það er dauður fugl úti í garði

Veit einhver hvort fuglaflensa hafi í för með sér að köttur bítur þig til dauða? Ef svo er, þá ætti ég líklega að hafa áhyggjur.

Í samhliða heimi..

...myndi ég flosna upp úr skóla og vinnu og spila xbox 360 allan daginn.

14.8.06

Bugles

Ég skrapp út í Netto áðan. Í röðinni að kassanum, sem teygist gjarnan út um alla búðina, mætti ég Bugles. Þið vitið.. maíis snakkið sem er í laginu eins og litlir garðálfahattar og Íslendingar kalla gjarnan "böggles". Þegar ég var um tvítugt tók ég upp á því að kalla það "bjúgúls", eins og ég ímyndaði mér að réttur framburður gerði ráð fyrir. Ég varð fyrir miklu aðkasti. JÖRÐIN ER FLÖT! Hrópaði fólk að mér og á tímabyli var ég hálf hrædd um að reiði múgurinn með heygafflana og kyndlana, þessi sem ég geymi úti í kastalabílskúrnum myndi snúast gegn mér. Svo flúði ég land.

Hvernig ætli Danir segi "bugles"?

Þjófur og morðingi!

Það er ég sko. Ég er orðin yfirmaður þjófa-guildarinnar í Oblivion. Þar sem að ég var komin í toppinn þar, ákvað ég að fara að vinna mig upp í assassin guild bara líka. Núverandi yfirmaðurinn minn í assassin guild er vampíra eins og ég. Það er ekkert erfitt að vera vampíra í Oblivion. Ég þarf bara að smakka aðeins á sofandi flækingum öðru hvoru. Þeir deyja ekkert eða neitt.

Á sama tíma og ég er að kjammsa á sofandi fólki, drepandi og rænandi, þá er Einar að vinna sig upp í "fighters guild". Þar eru drepin skrímsl fyrir góða kalla og svona. Góði tveir skór sko.. :oP Annars er fighters guild ekkert svo slæm sko. Ég hef fengið ágætt upp úr því að ræna þá nokkrum sinnum. HAHAHAHAHA.

10.8.06

Despó tímar..

Ég er andlaus (en ég næ samt alveg andanum), þannig að hérna er bara fyrirsætuselur:

9.8.06

Annað sjónarhorn

Það eru ekki nema 10 í kúrsinum sem við erum í núna. Í dag bætist líklega einn við. Hann komst ekki fyrr, því að hann var bara að koma frá Líbanon. Tvibbinn hans Lou sagðist ætla að eyða smá tíma í að spjalla við hann um stríðið. Ég held að það gæti verið áhugavert. Í gær talaði hann líka aðeins við strák frá Írak um ástandið þar (við Einar munum einmitt gera verkefnin í kúrsinum með þessum strák, en ég held ég hefði aldrei þorað að spyrja svona sjálf). Það er áhugavert að heyra álit á því hvernig þetta er frá einhverjum sem kemur þaðan. Kona veit ekkert hvað er að marka fjölmiðla nú til dags.

Þessi strákur sagði að almennt hefði fólkið í Írak hatað Saddam og hann hefði verið harðstjóri, alveg eins og CNN segir. Hann sagði að eins og staðan er í dag, þá deyja um 50 manns á hverjum degi. Einhverjir fyrir hönd Bandaríkjamanna, en flestir fyrir hönd Al'Queda sem telja að fórnalömbin séu pro-usa. Hann sagði líka að Bandaríkin hefðu farið með stríðið gegn hriðjuverkum inn í Baghdad, sem er auðvitað ekki gott. Þetta er auðvitað bara álit eins manns, en það er ágætt að fá mótvægi við áliti eins fjölmiðils.

Ég get ekki ímyndað mér hvað það væri erfitt að eiga fjölskyldu í "þessum löndum" núna, vitandi að það sé staðreynd að X margir séu myrtir á hverjum degi.

8.8.06

MySpaceið hennar Jennu Jameson

Ég var að skoða hvernig fólk skrifaði á MySpace (hef sjálf ekki fattað MySpace ennþá og er ekki á leiðinni að gera profile) síðuna hjá Jennu Jameson (fann þá síðu hjá slúðurdrottningunni Perez Hilton). Þar var m.a. einn gaur sem skrifaði eitthvað um að hún væri "fine ass" something or other og að hann væri einmitt að fara að horfa á mynd með henni. Á profile myndinni hans, við þetta komment, mátti sjá hann haldandi á ungri dóttur sinni. Úfffffff krípörs. EKKI kommenta svona hjá klámmyndastjörnu með dóttur þína í fanginu for freaking fork!

7.8.06

Death by chocolate

Það er heitt..

Of heitt fyrir skóla og strætóa. Ég svitnaði á nebbanum áðan í tíma, og ég var orðin skíthrædd um að ég myndi fá svona rassasvitafar, því að stólarnir voru líka heitir. Ég held að það mætti alveg segja að ég sé í sumarskóla núna. Það er allavega afskaplega mikið sumar hérna. Fyndið hvað nokkrar gráður skipta máli. Í dag eru 27°C, en það er ekki nema þremur fyrir ofan það sem hefur verið síðustu daga. Síðustu daga var veðrið fullkomið. Alveg eins og það á að vera.

Franksi tvíburabróðir hans Lou sagði að það væri gott veður í Danmörku. Það væri alltof heitt í Frakklandi. Ég trúi honum vel. Það *ER* gott veður hérna. Mætti ekki vera heitara. Var ekki annars einhver gaur hérna back in the days sem kom í Íslandi í dag og ég veit ekki hvað og þóttist hafa sannanir fyrir því að það væri versta sumarveður í heimi á Íslandi? Hvernig mælir fólk það eiginlega? Sjálf myndi ég frekar vilja rigningavesenið og kuldan á fróninu, heldur en 45°C hita og sól eins og í Egyptalandi eða eitthvað. Það er bara óveður í hina áttina.

Vesenesbækur

Þegar ég á eftir svona 1/4 af bók (ekki skólabók), þá get ég ekki hætt að lesa. Ég verð að klára bókaskrattan því að það er svo lítið eftir. Stundum er ég vakandi langt fram eftir nóttu, til þess að geta lokað bók í eitt skipti fyrir öll. *geisp*

6.8.06

The Elder Scrolls IV: Oblivion

Ef þið eigið xbox 360 (eins og við. Veiii hvað það er gaman), þá skuluð þið skella ykkur á þennan leik. Hann er djöðveikt flottur.

4.8.06

:oD

3 ár! Í tilefni þess eru á dagskrá kaup á XBOX 360 (fyrir monnís sem við höfum fengið gefins frá ömmum og öfum í jóló og svona. VEI.. Gjafa XBOX) og ferð á Reef 'n Beef í kvöld, til að éta keingúru eða eitthvað.

3.8.06

Spóaleggjaþjóðin

Ahh. Sumar. Þegar það er svona gott veður, þá er það augljósara en annars, sökum stuttbunxna, hvað danskir strákar/ungir karlmenn eru almennt með mikla spóaleggi. Það er alveg magnað að á mörgum hverjum er hægt að taka utan um lærið með annari hendi, þannig að þumallinn og langatöngin snertast.

Versta útgáfan af dönskum spóaleggjum er þegar kálfavöðvarnir eru stærri en lærvöðvarnir. Þá er eins og lappirnar séu á hvolfi. Hvað ætli þeir æfi til þess að lappirnar verði þannig?

2.8.06

Weekend recap

Föstó

Síðustu helgina á Íslandi gerði ég heilan helling. Á föstudagskvöldið skruppum við Einar á Ruby Tuesday með Daða og Rúnu. Maturinn er alls ekkert vondur, en hann er nokkrum verðflokkum fyrir ofan það sem eðlilegt getur talist. Annars ákvað ég að gerast villt og trillt og pantaði mér hambó í umslagi. Eða.. tortilla köku öllu heldur. Köööreisí læk a fox. *REFREF*

Eftir mat, skruppum við og c.a. allir aðrir í heiminum á nýjustu Pirates. Mér fannst hún fín. Vissuð þið annars að fyrir fyrstu myndina vildi Johnny Depp vildi hafa gull krónur á nokkrum tönnunum sínum. Hann vissi hinsvegar að framleiðendurnir myndu ekki samþykkja það, svo að hann lét setja gullkrónur á hverja einustu tönn. Svo fór hann á fund og lét eins og hann vildi vera þannig. Framleiðendurnir náðu að tala hann niður í að hafa bara á nokkrum tönnum (sem var það sem hann vildi allan tímann). Já! Hann er nötter þessi Depp. Annars var Jack Sparrow skrifaður sem ósköp venjulegur character... ekki sem hálf Keith Richards. Deppinn breytti honum bara svona líka vel. Oh.. ég er full af trivia!

Laugó

Á laugardaginn fór ég í vinnuna og skrapp svo á Indókína í hádeginu. Svo fór ég í áðurnefnt áhugavert nudd og um kvöldið hitti ég Maddlú og borðaði American Style steik með honum og Einari. Um meira kvöldið fór ég í partý hjá ókunnugu fólki með Völu san. Það var afskaplega fínt, þangað til að gaur með 4 í charisma mætti á staðinn og gerði partýið heldur súrara. Ég endaði á tjútti fram undir morgun með áðurnendri Völu og henni Þóreyju, sem er einnig DM-frú. Lady of the universe I guess, ef hann er lord of the universe. Við vorum spurðar um skilríki á 2 stöðum. Örugglega eitthvað átak í gangi. Eftirlitið að leita að fersku ponsublóði og allt það.

Sunnó

Vaknaði hálf un-dead og skellti mér í bað. Svo var ég eins og uppvakningur í smá veislu sem ma og pa settu saman. Þar voru amma og afi og afi og frænka mín og kærastinn hennar og krakkarnir þeirra og bróðir minn og kærastan hans og Óli og.. og.. allir sem ég ætlaði að kveðja í ættinni minni. Eftir að allir gestirnir voru farnir, drifum við okkur í heimsókn til ömmu hans Einars og svo til foreldra hans í mat. Þau + bróðir hans Einars enduðu á Sigurrósa tónleikunum... ég endaði uppi í bæli og steinsofnaði. Úff hvað það er hægt að vera sybbin!

Manó

Flugvél og Danmörk!