31.12.05

Multimedia message

Bara svona ad prufa...
Powered by Hexia

Þetta er jólakortamyndin sem við Einar sendum út í ár.
Á meðan ég sit hérna og melti fyrstu tvo réttina (sem voru alveg sérstaklega góðir. Meira að segja kjúklingasoðssósan var mögnuð eftir að ég hafði steikt lauk og hvítlauk og mixað út í rjóma, hvítvíni og öðru gúmmelaði), drekk hvítvín og hlusta á jazz er Einar inni í eldhúsi að setja í uppþvottavélina og ganga frá. Úti springa flugeldarnir hver á eftir öðrum og segja mér að árið sé bara alveg að fara að klárast.

Þetta var fínt ár. 2005, sci-fi ártalið. Held ég setji bara inn nokkra punkta þetta árið. Nenni ekki annál.

Business
- Gerði rosalegasta lokaverkefnið með 3 frábærum einstaklingum
- Gekk í gegnum mestu álagsönn æfi minnar
- Útskrifaðist sem tölvunarfræðingur frá HR (BSc)
- Vann skemmtilegustu sumarvinnu æfi minnar. Hannaði og gerði part af pocket PC útgáfu af frekar stóru kerfi
- Umsókn mín í DTU (tækniháskóla Danmerkur) var samþykkt og ég hóf meistaranám þar í haust

Pleasure
- Fór í æðislega ferð til Flórída með famelíunni, í tilefni af 70 ára afmæli afa
- Fór í æðislega ferð til Vínarborgar með hr. Mon
- Fór í æðislega ferð heim til Íslands yfir jólin
- Mun í kvöld fagna nýju ári með hópi af niðurteljandi Dönum á Ráðhústorginu

Personal
- Við Einar hófum sambúð eftir 2ja ára samband og gengur það sérstaklega vel
- Ég eignaðist Petru, Dell Latitude D610 m. boostum og sendi Emmu í fóstur til Íslands
- Ég eignaðist yndislegan pocket PC sem hefur ekki enn sagt mér til nafns
Haha. Fyndið. Ég skrapp út í Desi, arabann á horninu, til að kaupa hvítlauk (allar hinar búðirnar eru búnar að loka) og þar fann ég sætar kartöflur. ISO, Fötex, Netto, Fakta, Irma og Magasin áttu ekki til sætar kartöflur, en pínu litla búðin, beint á móti heimilinu átti nóg af þeim.

Bleh. Ég var búin að sjóða og flysja. Oh well.. Sætar kartfölur OG brúnaðar kartöflur með kalkúnabringunni...
Skrambans danir. Við fórum í 5 búðir og fundum hvergi sætar kartöflur eða kalkúnakraft. Í fjórðu búðinni fundum við loksins valhnetur, en þessar voru ennþá í skelinni sinni, svo við þurftum að kaupa hnetubrjót líka. Það er of mikið til þess ætlast að vilja fá sætar kartöflur, kalkúnasósu og waldorfsalat með kalkúninum sínum virðist vera..

En jæja.. Þetta verður fínt. Nauta-carpacho með fíneríi í forrétt, kalkúnabringa með *gasp* brúnuðum kartöflum, waldorf-salati, korni og ...einhverri sósu sem ég næ að galdra fram úr kjúklingakrafti í aðalrétt.. og svo ís með þreföldu súkkulaði í eftirrétt.

Engir flugeldar, þó þeir séu töööööluvert ódýrari hér en heima. Ég nenni bara ekki að skjóta upp þegar ég er í blokk. Líklega ekkert áramótaskaup heldur. Verðum að öllum líkindum niðri í bæ þegar það er sýnt. Það verða þó engu að síður áramót. Nýja árið kemur í kvöld og þó það komi sekúntu of seint, þá kemur það klukkutíma fyrr hjá mér heldur en flestum ykkar..

30.12.05

Úffff.. Þá er ég loksins komin heim og upp í sófa með Petru. Ég vildi ÓSKa að ég gæti sagt að þetta hafi verið ánægjuleg ferð. Tja, reyndar gæti ég það alveg, en þá væri ég að ljúga.

Ég hélt að vekjaraklukkan væri að grínast þegar hún hringdi kl. 4 í morgun. Einhvern veginn náði ég að dratta mér á fætur og borða cheerios (kátínur). Kátínur eru ekki eins góðar og mér þótti þær sem ponsa. Þær eru samt ennþá jafn kleinuhringjaðar.

Mamma og pabbi skutluðu okkur upp á völl, þar sem kom í ljós að við vorum með 7 kg í yfirvikt. Yebs. Það er eins mikið og við vorum með þegar við actually fluttum til Danmerkur. Ekkert smá þungt pundið í þessum jólagjöfum (skildum samt 2 þungar eftir sem koma með bró og kæró). Við þurftum samt ekkert að borga, svo þetta var allt gott og blessað. Við borðuðum þennan líka ágætis morgunmat sem kostaði jafn mikið og 4 pizzur með bjór á Gordion, veitingastaðnum í götunni okkar. Þetta var einn diskur með ávaxtasalati og rúnstykki með osti og svo bjór. Money well spent :oP Þegar klukkan var að nálgast flugferðatímann okkar, röltum við að hliði nr. 4 og biðum eftir því að vera hleypt inn. Það leið og beið og flugferðatíminn okkar kom og fór. Rífimiðakonan (kannski byrjaði hún í bíói og vann sig upp..?) tilkynnti klukkutíma seinkunn. Eftir klukkutíma tilkynnti hún aðra klukkutíma seinkunn. Stuttu seinna var seinkunnin komin upp í 3 klst. Iceland Express eru soddans höfðingjar að þeir buðu upp á júmbósamloku og 33 cl gos eða kaffi úr okurbúllusjoppunni fyrir hvern einasta farðega á meðan beðið var
. Ef ég ætti að borga mat með mínútum og klukkutímum úr lífi mínu, hefði ég ekki borgað 3 klukkutíma fyrir þessa remúlaði samloku. Hinsvegar var ástæðan fyrir seinkunninni sú að það var verið að gera við eitthvað í flugvélinni og vissulega er ég tilbúin að borga 3 klukkutíma fyrir að labba lifandi út úr vélinni.

Það kom aldrei til þess að ég labbaði lifandi út úr þessari Express vél. Einhvern veginn gerðist það að ég flaug með flugleiðum eftir allt saman. Þegar ég loksins labbaði inn í flugvélaranann, 3 og hálfri klst á eftir áætlun, náði ég að lesa "Loftleiðir" á belgnum á vélinni. Þegar inn var komið, tóku við okkur skælbrosandi Flugleiðakvennsur í bláum dröktum með litlu, kjánalegu hattana sína (í alvöru.. einhver verður að gera eitthvað í þessum höttum! Hvað með bara Hróa Hattar hatta í staðinn eða eitthvað?). Þær tjáðu okkur að það væri frjálst sætaval. Fólk var hlaupandi út um alla vél í leit að girnilegustu sætunum, en við Einar náðum að snara okkur heila röð fyrir okkur. Eh.. já.. Flugleiðir! Allt crewið var þaðan sem sagt. Þórunn Lárus tók meira að segja "To Iceland air, your safety on board is most important" pakkann í litlu sjónvörpunum og fyrsta freyja (virðingastiginn sko) bauð okkur "velkomin fyrir hönd Iceland Air, fyrir Iceland Express".

Ég náði smá að sofna, enda gjersamlega búin á því. Vaknaði klukkutíma seinna við krakka sem var að rifna úr frekju nokkrum sætaröðum framar. Væri ég ekki þessi rósemdar manneskja sem ég er, hefði ég þrammað þangað, agað krakkann og agað svo foreldrana fyrir að geta ekki agað krakkann. Svo hefði ég agað farþegann hinu megin við ganginn, bara svona til að skjóta öðrum skelk í bringu og sýna fordæmi.

Við komumst á leiðarenda að lokum. Í Danmörku er þvílíkur snjór. Skaflar út um allt og bílar inni í sköflunum, því Danir geta ekki keyrt í fönn. Lestir eru líka hægar í þessum óskunda, allavega stoppaði okkar oft á leiðinni. Við hentum nýþungu töskunum okkar upp stigann og inn í íbúð og fórum svo beint í Fötex til að kaupa áramótamatinn. Little did we know að allir Danir á Kaupmannahafnarsvæðinu fóru í Fötex á sama tíma. Ég hef aldrei farið í búð þegar það er svona mikið að gera. Þetta var þvílík geðveiki að við kláruðum rétt rúmlega helminginn af listanum og hrökkluðumst svo út, enda ósofin, þreytt, og höfðum ekki borðað síðan Express splæsti majo á brauði kl. 9:30 um morguninn. Bwaaaaah.

Ég er ekki frá því að það sé bara ennþá betra að koma heim eftir svona erfitt ferðalag. Ég dróg upp George Forman grillið, sem er best í heimi (sérstaklega vegna þess að grillunin tók bara 5 mínútur) og eldaði cajun kjúklingabringur, sem voru bestar í öllum heiminum (kannski sökum gífurlegs hungurs). Núna er ég að spá alvarlega í að sofa af mér nýja árið.

Neeeeeh!

28.12.05

Ég hlakka til að fara heim. Svolítið gaman að vera í afslöppuðu þjóðfélagi og vera heima hjá sér, þar sem heima er íbúð bara fyrir okkur, ekki herbergið mitt heima hjá mömmu og pabba.

Mér kvíður fyrir að fara heim. Svolítið gaman að eiga félagslíf og hafa fólkið sitt hjá sér.

Meh.. En Daði og Rúna koma og verða hjá okkur í næstum heila viku frá 3. jan. Það er smá "fólkið sitt" action :o)
Hér. Er. Depill hjá mér. Svo dæmalaust fallegur og brosir vel. Ef til er hvolpur sem kætir mann, er Depill hann.
Vúha. Síðustu dagar hafa verið frekar busy hjá okkur. Merkilegt hvernig það er hægt að troða svona mörgum mataboðum á svona stuttan tíma. Í gærkvöld, eftir síðasta jólaboðið, spiluðum við svo catan og citadels við bróðurinn og mágkonuna og í kvöld fórum við á Narnia með Pallanum og hmm.. látum titil hins bíómfarans liggja á milli hluta.

Núna eru bara 2 dagar eftir á Ísalandinu, sem merkilegt nokk er heitara en Danmörkin eins og stendur. Á morgunkvöld förum við í matarboð til tengdó, en bróðir hans Einars er líka í heimsókn frá náminu sínu á Ítalíu, svo það náðist í eitt smal svona á milli jóla og nýjars. Morguninn eftir það roleplayjum við svo loksins og borðum svo síðustu kvöldmáltíðina heima hjá mér.

Ég ætla einhvern veginn líka að reyna að hitta einhverja af vinum mínum þess á milli. Það vill einmitt svo skemmtilega til að Hákon er kominn heim frá London í jólastemmarann, Maddlú er fluttur aftur heim frá Austurríki og Vala þarf að taka við afmælisgjöfinni hans Andra. Vona að ég geti fundið einhverjar tímasetningar sem passa til hittings..

27.12.05

Það eru litlu hlutirnir í lífinu..
Alveg magnað. Ég var að Skilk Epila mig í fyrsta skipti. Ég get ekki sagt að ég hafi hingað til verið mikill aðdáandi þess að rífa hár af líkama mínum upp með rótum, enda er ég með þann fæðingagalla að ég er með taugaenda. Þegar ég hef reynt að vaxa á mér lappirnar, hef ég vælt ámátlega eftir að hafa rifið eina lengju af öðrum leggnum og slegið restina með ljá (rakvél). Slátturmaðurinn slingi.

Ég byrjaði á einhverjum "byrjenda-stút" sem á að vera minna sársaukafullur með tímanum á þetta að batna segja þeir. Reyndar fylgdi með kælipoki sem hægt er að geyma í frysti í 2 klst áður en hárfjarlæging hefst. Það á svo að nota pokann til að deyfa húðina fyrir rifrildið. Glætan að ég hafi eitthvað nennt að bíða eftir því. Klukkan er 2 núna og ég vildi Silk Epila mig STRAX. Löng saga stutt - Leggirnir eru nú báðir mjúkir eins og silki.

Get samt ekki haldið því fram að þetta hafi verið tómir hvolpar og sólskyn. Vissulega voru hár rifin upp með rótum og vissulega er ég með nokkrar rauðar doppur á leggjunum. Þetta er einhverstaðar nálægt "Einn dans fyrir mig" með Hemma Gunn og vont.

Never the less... ég veit ekki hvort ég þori eitthvað í bikinísvæðið með þessa græju.....

26.12.05

Hresst. Einhver með "megababe" í e-mailnum sínum bætti mér við á msnið sitt um daginn. Í dag þegar ég loggaði mig inn í dag, blasti við mér stúlka á brjóstahaldaranum á contact listanum. Ég spurði hana hver hún væri og hún sagði mér nafnið sitt, sem var, merkilegt nokk, það sama og stóð í contact nafninu hennar (duh). Stúlkan sagðist ekki þekkja mig og ekki muna hversvegna hún bætti mér á listann. Hún spurði mig samt hvort ég væri "bi".

Ó...kay.

Það er crazy veröld þarna úti..
Blasted water weight goes straight to my hips.

Vá. Allur þessi saltmatur hefur gert mig bjúgótta eins og dekkjamaðurinn káti. Hann hlýtur að borða jólamat á hverjum degi. Gærkvöldið var erfitt. Ég gat ekki hætt að spila kapal í pocket pc-inum mínum. Kapall er skemmtilegri í honum en annarstaðar. Svo þegar ég loksins sleit mig frá, þá varð ég auðvitað að lesa smá Artimis Fowl.

25.12.05

Mmmmmm hvað jólamaturinn var góður. Ég hafði ekkert borðað síðan um morguninn, svo ég var vel svöng. Við (ég var hjá ma og pa, Einar hjá sínum ma og pa. Svo sótti ég hann, opnaði sameiginlega pakka þeirrar fjölskyldu megin og svo burruðum við til baka og opnuðum sameiginlega pakka minna fjölskyldu megin) borðuðum líka sama matinn í forrétt, aðalarétt og eftirrétt. Ég er ekkert að djóka, jólaísinn er enn inni í frysti. Heheh.

Ég fékk um það bil flottustu og æðislegustu gjafir í heimi. Ég þori varla að segja hvað ég fékk, ég er svo hrædd um að gleyma einhverju.

Við fengum..
- Frá Andra Frey og fjölskyldu: Sudoko spilið (úff.. og þið hélduð að ég væri addicted fyrir)
- Frá Palla: 2 geðveikar bækur (linka síðar), rosalega sterku segulstálin af think geek og ponsulítið nördateningasett í pínulitlum leðurpoka
- Frá ömmu og afa: Hina árlegu jólaskeið. Núna var þvörusleikir á henni.
- Frá hinum ömmu og afa: Alltof mikið af dönskum peningum til að kaupa eitthvað af ÓSKalistanum mínum.
- Frá tengda-ömmu og afa: Sængurföt úr 100% bómul (item 1 af ÓSKalistanum mínum) og mútsjó monní
- Frá tengda-ömmu: Jömmí konfekt
- Frá tengda-mömmu og pabba: George Forman grill (It's so good I'm puttin' my name on it. Item 2 af ÓSKalistanum mínum. Ég er geðveikt ánægð með það).
- Frá Ösp frænku og fjölskyldu: Vöfflujárn (Item 3 af ÓSKalistanum)
- Frá Daða bróður, Rúnu og Óla frænda: Árlega Óla-dagatalið, geðveikt fín mynd af guðsyninum í ramma og krukku með allskonar mismunandi heimagerðum brjóstsykur
- Frá mömmu og pabba: Sængurfatasett úr 100% bómul (item 1 aftur), pastavél (item 4 af ÓSKalistanum mínum) og muffinform úr sílíkoni

Ég fékk..
- Frá vinnunni minni: svona eh.. hvað heitir það aftur.. krydd myljara og skál og gaur til að geyma salt og gaur til að geyma pipar
- Frá tengdó: Mugison geisladisk, one of a kind designer veski (mjög smart), voða fínt kerti
- Frá Maddlú og Dóru: Geðveikt flotta, hlýja, mjúka peysu
- Frá Einari mínum: Warewolf the forsaken (á world of darkness og vampire the requeme. Elska þessar bækur), The Nightmare Before Christmas bók og rosa velútlítandi spil sem heitir Munchkin. Við spiluðum það smá áðan. Hlakka til að prufa með fleira fólki.
- Frá mömmu og pabba: Silk'epil (satanísk græja sem rífur hár upp með rótum (Item 5 af ÓSKalistanum) og.... geðveikustu gjöf EVER. HP iPAQ hw6515. Við erum að tala um pocket PC, myndavél, síma, neverlost græju (Fylgir tomtom með) og c.a. allt annað í heiminum. Svo gáfu þau mér 1 gíg minniskort í umtalaða græju. Ég ætla að kaupa WiFi kort aukalega (er með 2 card-slots). Ég setti þetta ekki einu sinni á ÓSKalistann. Bað um pening til að setja í Pocket PC sjóðinn minn, sem átti að fara í kaup á mun ómerkilegri græju. Váh. Ég er gersamlega í skýjunum. Get ekki beðið að fara að skrifa einhver kerfi fyrir hann. Nú verður Petra sko straujuð og hneppt í 50% ánauð. Skelli upp dual á hana og hálf-windows væðist að nýju!

Það er greinilega málið að gera ÓSKalista. Ég hef aldrei fengið eins mikið af gjöfum sem hitta BEINT í mark áður.

23.12.05

Í anda jólanna ætla ég að tuða yfir ósmekklegu jólaskrauti. Ekkert eins jólalegt og að tuða svolítið.

- Plast jólasveinar og plastsnjókallar með ljósum, ætlaðir til utanhúsnotkunar. EKKI málið.
- Marglitaðar útiseríur. EKKI málið.
- Ofskreytt hús. EKKI málið.

Annars var bara gaman að fara í labbitúr í snjónum, þrátt fyrir að Ártúnsholtið virðist vera mekka plastjólasveina, marglitraðra útisería og ofskreyttra húsa. Núna ætla ég að horfa á The Grinch og fara svo að lúlla mér. Svo þegar ég vakna verða jól. Eða svona.. næstum því.
Á morgun koma jólin. Þessvegna borða margir íslendingar skemmdan mat í dag. Heima hjá mér er hinsvegar hefð fyrir saltfisk-pastarétt.

21.12.05

Í dag eru vetrarsólstöður. Ég veit ekki af hverju "sól" kemur þessu eitthvað við. Ég hef ekki séð hana síðan ég kom til Íslandsins. Annars veit ég ekki hvað fólki gengur til. Jólagjöfin "hans" virðist vera ferð til New York og jólagjöfin "hennar" bíll. Kringlan var svo blind hauga full í dag að fólk lak út um eyrun á henni. Þetta var kl. 12.

Annars gerðust undur og stórmerki. Ég er ekkert mikið mexíkóskamatafan. Ég fékk mér samt BBQ burrito (mínus svörtu baunirnar þarna. Ég held að þeim sé ekki treystandi.. litu ekki vel út) á Serranos í hádeginu og hún var rosa góð. Mmmm. Smakki'ði.
Júhúhú.. Ég er búin að kaupa síðustu jólagjöfina, gjöf fyrir hr. Mon. Þá er ég bara tilbúin og sátt. Best ég fari að taka til í skápnum mínum... Ég hef búið í DK núna í 4 mánuði án innihalds skápsins, svo ég ætti að geta fundið fleiri föt til að gefa frá mér núna..

20.12.05

Ég er að skrifa jólakort í fyrsta skiptið. Hingað til hef ég alltaf bætt við "og Ósk" á viðeigandi kort hjá mömmu og pabba. Ég kemst víst ekki upp með það lengur, þegar ég er flutt að heiman. Annars er ég svolítið að endurhugsa það. Kannski ég verði bara alltaf í jólafríi á Íslandi. Lúlli alltaf í stóra, æðislega rúminu mínu og keyri alltaf splunkunýja benzinn hennar mömmu...
Subway posterchild?
Hann: Góðan daginn, get ég aðstoðað?
Ég: Játakk, ég ætla að fá 12" kalkún og skinku í heilhveiti (2 máltíðir.Mmmm)
Hann: Kalkúnabringu?
Ég: Já, nema meira kalkún og skinku
Hann: Stóran eða lítinn?
Ég: Ehm... stóran..
Hann: Okay.. Byrjar að raða alveg hrúgu af kalkúnabringu og engri skinku
Ég: *hugs* Jæja... ég fæ þá bara kalkúnabringu
Hann: Hvaða grænmeti má bjóða þér?
Ég: Allt ferska og svo ólívur
Hann: Má bjóða þér jalapeno eða ólívur?
Ég: Ehhh... bara ólívur takk.
Hann: Einhverja sósu?
Ég: Neibbs, bara salt og pipar
Hann: Salt og pipar?
Ég: ....já
Hann: Má bjóða þér eitthvað að drekka með þessu?
Ég: Nei, þetta er bara komið svona. Ég ætla að taka þetta með
Hann: Ha, vatnsglas?
Ég: ....nei
Hann: Taka með eða borða hér?
Ó...kay :o)

19.12.05

Þessar jólatrésölur geta ekki verið góður business. Hvað gerir þú svo þegar tréð hefur verið selt? Miklu sniðugra að skella upp jólatrjáasölu held ég..
DV tók það að sér á forsíðunni í dag að fræða öll lesandi börn sem ekki vissu það fyrir, að bræðurnir úr fjöllunum væru ekki til í alvörunni. Ætli það séu mörg börn sem kunna að lesa sem trúa á jólasveinana? Ég var 5 ára þegar sprengjan féll. 6 ára bróðirinn kveikti ljósið fyrir okkur bæði.

Ég var búin að vera tæplega ár í skóla (Ísaksskóli er með 5 ára bekk). Ég gat lesið alveg skítsæmilega miðað við aldur. Stamaði út úr mér setningum eins og "x og z eru hjón" úr lestrarbókum. Efast um að ég hefði verið að setjast niður og lesa forsíðuna á DV, þegar ég fékk mömmu til að lesa fyrir mig grínið í mogganum ennþá. Hvenær hætta krakkar almennt að trúa á þessa gaura? Ég á bágt með að sjá fyrir mér 7-8 ára krakka með skóinn úti í glugga, án þess að vita hið sanna í málinu.

Engu að síður, þá er íslenska jólasveinasystemið mikil snilld. Í gamladaga var sama famelía notuð í hræðsluáróður. "Ef þú heldur þig ekki á mottunni, svona fyrir jólin, verður þér stungið í poka og þú étinn". Núna er notuð jákvæð umbun. "Ef þú heldur þig á mottunni gefur jólasveinn[i] þér eitthvað fínt í skóinn. Með þessu eru foreldrar út um allt land að kaupa sér frið í jólaundirbúningnum, einmitt þegar krakkar eru almennt að fara á límingunum af stressi og tilhlökkun. Ég varð vitni að þessu síðast í gær. Guðsonur minn (3), sem er fallegasta og gáfaðasta barn sögunnar (að sjálfsögðu), var í pössun. Ég var að leggja mig, sökum þess að ég hafði drukkið opal skot kvöldið áður og vaknað svo í "julefrukost" um morguninn. Ég vaknaði við skræki og skrílslæti í frændanum. Stuttu seinna var hann mjög leiður yfir þessu öllu saman og sagðist hafa gleymt að passa sig. Hann ákvað að biðja afa sinn afsökunar á því að hafa öskrað á hann og ákvað að vera stilltur og góður það sem eftir væri af deginum og fara að sofa á réttum tíma.

Ég kann ágætlega við þetta. Jólasveinarnir halda börnunum á mottunni í kringum jólin og foreldrar og famelía fá kútós fyrir jólagjafir. Engir álfar eða hreindýr sjáanleg.

16.12.05

Fyrir ykkur sem ekki vita, þá er ég með íslenska símanúmerið mitt þegar ég er á landinu. Reyndar er ég nú þegar búin að fá fleiri símtöl það sem af er deginum, heldur en síðan ég flutti út eða eitthvað :o) Gamangamangaman..
Oh hvað það er gott að vera komin heim. Við sváfum í yndislegasta og besta rúminu mínu í nótt, sem var svoooo gott. Flugið hingað var reyndar spes. Til að byrja með eru flugleiðir búnir að flytjast á "Terminal 2" á Kastrup. Þar er mun minni þjónusta og vesen. Við vorum mætt snemma á völlinn (ég, Einar og Gúndi) og bara 2 aðrir hópar á undan okkur í röðinni. Engu að síður þurftum við að bíða heillengi. Þegar röðin kom að okkur var pjásan með vesen. Við Einar vorum með 2 töskur (augljóslega úr sama ferðatöskusetti og báðar með rauðri slaufu á sama stað). Önnur var létt og með jólagjöfum, en hin var 21.5 kg. Hún byrjaði að nöldra að hver og einn mætti bara vera með 20 kg, annars þyrfti að borga yfirvigt. Ég benti henni á að við værum bæði með þessar tvær og hence með vel undir 20 kg á mann. Hún hætti að nöldra. Fannst eflaust eins og hún væri að "letting us of the hook" og skellti "heavy" miða á þessa stærri. Svo kom röðin að Gúnda. Hans taska var undir 20 kg, svo hún ákvað að snúa sér að handfarangrinum. Hún lét okkur setja helvítis handfarangurinn á vigtina. Aldrei lent í því áður. Handfarangurinn hans Gúnda var of þungur, svo hann þurfti að senda eitthvað með venjulega farangurnum. Það mátti samt ekki vera of mikið, því að samtals mátti þyngd farangursins ekki fara yfir 20 kg. Það mátti heldur ekki vera of lítið, því að það eru bara 6 kg í handfarangur á mann.

Æi já. Það má víst heldur ekki breyta um sæti þarna á terminal 2. Hún ákvað að úthluta okkur Einari sætum saman, en Gúnda á allt öðrum stað og þessu var ekki hægt að breyta. Þegar hún hafði loksins lokið sér af með okkur var röðin komin langt út úr dyrum. Ekki sniðugt.

Vélin tafðist um 40 mínútur, því að Íslendingar eru geðveikir þegar kemur að jólagjafakaupum. Það var eins og allir væru með of mikinn handfarangur, því þegar sætin fóru að fyllast, voru "the overhead compartments" orðin stútfull. Fólk var með heilu, stóru töskurnar og gat ómögulega troðið þeim neinstaðar. Það hefur augljóslega verið slakað á í handfarangursvigti þegar á leið. Margar töskur þurftu að fara niður í "lestina". Sumt fólk var með huge töskur sem það hreinlega neitaði að setja niður. Það voru sko brothættir hlutir í þeim þankjúverímötsj. Flugfreyjurnar þurftu þá að færa dót fram og til baka og hagræða, til þess að skrímslin kæmust fyrir.

Æi já.. Svo var verið að færa fólk svo að hjón gætu setið saman og þessháttar, þar sem að það er ekki boðið upp á þá þjónustu við check-in lengur. Fyrir framan mig sat ungur strákur sem var beðinn um að færa sig nokkrum sætaröðum framar svo að eldri hjón gætu setið hlið við hlið. Maðurinn var með staf og átti mjög erfitt um gang. Hann náði að troða sér þarna í miðsætið og var glaður að geta sest niður. 5 mínútum seinna kom flugfreyjan aftur og sagði: "Sætið sem hann fékk úthlutað var ekki gluggasæti, svo hann vill skipta aftur. Því miður". Gamla fólkið varð að gjöra svo vel að klöngrast sömu leið til baka aftur. Hálf lame. Fyrir aftan mig sátu par með pínulitla stelpu. Það voru engin auka sæti í vélinni, svo að konan hélt á henni allan tímann. Hún var rosalega stillt og góð, heyrðist ekkert í henni. Um leið og það hafði verið slökkt á sætisbeltaljósnum beygði ég mig til að sækja iPodinn minn í handfarangurinn. Á sama tíma ákvað gaurinn sem terroræsaði gamla fólkið að halla sætinu sínu eins mikið aftur og var mögulega hægt. Ég festist næstum því. Ég gat allavega ekki hallað mínu sæti, því að fyrir aftan mig voru móðir og barn sem þurftu sitt space. Það var ekki fyrr en flugfreyjan gelti á hann í matnum að hann skildi nú hafa sætisbakið upprétt á meðan það væri verið að borða að hann lagaði þetta til.

Meh.. Það er allavega æðislegt að vera komin heim. Gotstógó.. ég er að fara í bað!! :oD

15.12.05

Ég fer jóla-heim í jóla-kvöld.. Jólajólajóla...

Jólinjólinjólin-Heiiiim jólinjólinjólin-heeeeim...

14.12.05

Kiss Kiss Bang Bang er geðveikt góð mynd!
Eins og fram hefur komið, þá fór ég í mitt fyrsta próf í DTU á mánudaginn. Það eru töluvert strangari reglur í prófum hér en heima. Erlendir stúdentar eru látnir fá rafrænan bækling um hvernig eigi að haga sér í prófum. Í bæklingnum er til að mynda var sögð dæmisaga af stelpu sem hafði verið í gagnaprófi (kennslubók o.fl.). Hún skrifaði texta upp úr bókinni í eitt svarið, án þess að segja hvaðan hún hefði fengið hann. Stelpan bar það fyrir sig að hún hefði talið að fyrst að bókin væri leyfilegt hjálpargagn, mætti hún nota hana eins og hún þurfti og kennararnir myndu vita að textinn kæmi þaðan. Prófið var núllað og hún var felld í kúrsinum. Annað sem að kona þarf víst að gera er að skrifa undir síðustu blaðsíðuna á prófinu.

Á mánudaginn byrjaði ég á að sækja brúnt umslag, nokkur hvít rúðustrikuð blöð og nokkur gul rúðustrikuð blöð og fara með í sætið mitt. Á umslagið og öll hvítu blöðin þurfti ég að skrifa nafnið mitt, kúrsanúmer, kúrsaheiti, fæðingadag, dagsetningu, stúdentanúmer og borðanúmer (mér var fyrirfram úthlutað borði). Ég þurfti svo að merkja blaðsíðunúmer inn á viðeigandi reit líka. Gulu blöðin voru eins sett upp, en þau voru fyrir skyssur og útreikinga. Ég sleppti því að merkja þau, þó það hefði verið í boði. Elliborgarar gengu svo um og söfnuðu farsímum í pappakassa. Eigendur þeirra þurftu að vefja þeim inn í gul blöð með borðanúmerinu sínu á og pappakassarnir voru svo fjarlægðir úr sofunni. Enginn GSM sími má vera inni á prófatíma they say.

Eins og ég talaði um fyrr í vikunni, þá féll ég alltaf á tíma í gagnaprófum. Þetta próf var engin undantekning. Þegar það var ein mínúta eftir af tímanum, númeraði ég hvítu blöðin, skellti þeim í umslagið og lét vinalegu elliborgarakonuna sem sá um mína röð fá umslagið. Enginn mátti fara út úr íþróttasalnum fyrr en öllum umslögum hafði verið komið til skila. Ég gekk frá dótinu mínu og beið eftir að fá að komast út.

Munið þið þegar ég sagði að það þyrfti að skrifa undir síðustu blaðsínuna? Þá eruð þið með betra minni en ég, vegna þess að ég gleymdi því. Í panikki rétti ég upp hendina og vinalega elliborgarakonan kom til mín skömmu seinna. Ég mjálmaði út úr mér að ég hafi gleymt að skrifa undir. Hún hvíslaði að mér að hún skildi reyna að redda þessu fyrir mig og kom að vörmu með umslagið mitt. Hún smeygði því laumulega á borðið mitt þegar hún labbaði framhjá, ég opnaði það, skrifaði undir og skilaði aftur næst þegar konan labbaði framhjá. Hún brosti til mín eins og hún hafi verið að gera eitthvað sem hún mátti ekki. Ég held eiginlega að hún hafi verið að brjóta einhverjar reglur fyrir mig.

Mín gleymska varð þó öðrum til bjargar, vegna þess að fyrir framan mig var annar Íslendingur. Hann sagði mér eftir að hann hafði skilað sínu umslagi, að hann hafi líka gleymt að skrifa undir, þangað til að hann heyrði mig tala við konuna.

Jáh.. Er þetta svona allstaðar annarstaðar en heima?

Multimedia message

Brúnt
Powered by Hexia

13.12.05

Við fórum í Fields í dag. Sáum sem sagt þetta. Vá, ég held ég hafi aldrei séð svona mikið af löggum. Það voru allavega 3-4 á hverri stoppustöð á Metroinu og svo var alveg brjáááálað mikið af löggum í kringum Bellacenter. Ég vissi ekki alveg hvað var í gangi fyrst... ekki besta tilfinningin :o)

12.12.05

Njammnjamm. Við fórum í jóla tívolíið í kvöld. Þetta er önnur ferðin okkar þangað og ekki var þessi neitt síðri en sú fyrri. Þetta er alveg asnalega flott..
Mér fannst þetta svo fyndið að ég varð að deila þessu. Eftirfarandi er samtal af gtalk. Eða.. önnur hliðin á því. Og já.. hann opnaði í alvörunni á þessari línu (ég er með 2 barnatennur muniði):

Þú ert ekki ein um að vera vansköpuð. Eins og þú veist og sumir að ég HATA endajaxlatöku. Ég var hjá tannlækni áðan, ok ? Svo hann segir við mig.. "Hmm, bíddu tókum við ekki alla jaxlana úr þér í fyrra?" Og ég sagði, "Jú svo sannarlega, gleymi því aldrei á minni ævi" Og hann segir, "Já þeir eru nefnilega komnir aftur" Þá var ég kominn með tvö tæki upp í mig þannig að eina sem ég gat sagt til að verja mig var "Mrrrglleaaaahhhh"

Hann skoðaði og fann einn aukajaxl. Nei, kemur bara í ljós að skolturinn á mér er endajaxlaverksmiðja til styrktar tannlæknastofunni valhöll. Í 22 ár hef ég haldið því fram að líkami minn sé fullkominn, en núna kemur í ljós að ég er vanskapningur (Innskot frá Ósk: Téður piltur er 23ja ára, svo hann hlýtur að hafa hatað sig í 1 ár þarna inn á milli).
Isss.. það var hægt að kaupa alvöru svona í Iso..
Ég: Jólasveinninn gleymdi mér!
Einar: Ha, af hverju segir þú það? Settir þú skóinn út í gluggann?
Ég: Nei, það þarf ekkert. Sjáðu, þú fékkst einmitt í skóinn!
Einar: *kíkir í inniskóna sína* Ha? Fékk ég gúrku!
Ég: Jáááv.. En ég fékk ekki neitt.
Einar: Ég er ekkert svo viss um það. *Gáir í skóinn minn* Sko! Þú fékkst eitthvað líka
Ég: *kíki í skóinn sem ég er búin að vera í allan dag. Váh! Ég fékk Jóla Tuborg!!

Oh.. hann Stekkjastaur! Prakkarinn!

Annars er það helst í fréttum að við erum búin í prófi. One down, none to go! Vúhú! Héldum upp á það með því að slátra nokkrum jule-tuborgum á skólabarnum.

JEIIIJ.. það eru næstum því alveg komin jól núna

11.12.05

Pöbbarnir..

Two peanuts walked into a bar. One was a salted.

A dyslexic man walks into a rab....
Ég gleymdi alltaf að segja ykkur það... Ég fattaði pedals around the rose leikinn í síðasta mánuði. Við vorum að læra og það kom upp að Gúndi hafi náð honum, svo ég gat ekki verið minni manneskja.

10.12.05

Multimedia message

Þessi glæsilega teikning er listrænt samstarfsverkefni okkar englaborgarvegsbúa. Okkur langaði í nammi og þetta er saga nammikaupa. Maður og peningar => nammi => feitur maður í hlýrabol og nærbuxum með bumbuna út í loftið. Einar hengdi myndina á ísskápinn. Hahaha
Powered by Hexia

Ég hef logið að ykkur síðustu ár. Ég er í alvörunni sænskur, 19 ára strákur...
Unnur Birna barasta orðin ungfrú heimur! Hún er náttúrulega önnur kynslóð sætukeppanda. Ætli það hafi verið skellt bók á hausinn á henni um leið og hún var farin að taka fyrstu skrefin?

Never the less, gullfalleg, náttúruleg stelpa með þvílíka útgeislun. Hvað sem mér kann að finnast um sætukeppnir, þá er þetta frábær árangur hjá stelpunni!
Ég keypti mér tic-tacs. Þau munu gegna hlutverki tokena fyrir petri-net á concurrent systems prófinu mínu á mánudaginn. Reynið svo að segja að kona geti ekkert lært frá Færeyjingum!
BLAST! Ætlaði að leggja fyrir ykkur árlega "þið þekkið mig ekki" prófið, sem hefur verið nákvæmlega sama prófið með sömu spurningunum 3 ár í röð. Nú, 4 árið, sagði prófgeymarinn að hann gæti ekki meira og það væri hvergi að finna..

Pffff..

9.12.05

....það eru litlu hlutirnir í lífinu
Höhöhööh.. kreisíj Færeyjingar.. Þegar þeir eru að segja færeyska orðið fyrir "okkur", skrifa þeir "vid", en bera það fram "okkur". Hahaha

8.12.05

Hvað sem þú gerir... EKKI hugsa um mörgæsir......Þú ert að husga um mörgæsir er það ekki??Ég sagði þér að hugsa ekki um mörgæsir!! Hvað er málið?
Oh well..
Fyrst þetta hressa tímarit er orðið 100% netmiðill, er spurning fyrir það að fara að gera heimasíðuna sína læsilega fyrir alla helstu vafra..
Vá, lagið sem er fyrir aftan þegar verið er að auglýsa "Dætur hafsins" bókina hennar Súsí (radíus kallaði hana alltaf það) er eitthvað það klámmyndalegasta sem ég hef heyrt...
Eye of the tiger
Lifi Post-its miðar!!
Ég og próf erum ekki bestu vinir. Gagnapróf eru sérstaklega erfið við mig. Í prófum efast ég um alla þekkingu sem ég hef, þegar ég er með öll gögn fyrir framan mig og get flett öllu upp. Ég sem sagt fell ALLTAF á tíma.

Ég hef lært það eftir nokkur svona gangapróf að post-its miðar eru góðir félagar. Tíma sem ég eyði í að setja posti-its miða við hvern kafla eða þar sem áhugaverðir hlutir leynast, er sko vel eytt. Ég tek líka með mér post-its miða í prófin. Þá get ég skellt einum í skærum lit á blaðsíðu sem ég tel að gangist mér við seinni spurningu.

Post-its miðar draga úr streytu..
Þegar ég var í 8 og 9 ára, var stelpa með mér í bekk sem elti mig út um allt og vildi vera vinkona mín, því henni fannst ég vera svo "lítil og sæt". Ætli þessi stelpa sé lesbía í dag.....?
Hahahah.. "I have a bachelorette degree in Computer Science" Það meikar fullkomið sense.. Ekki er ég bachelor.. Ahh.. speaking of which. Íslenski hórkallinn er á dagskrá í kvöld. Pjásur segja allt þáttur. Upside og downside.. ég verð í flugvélinni á leiðinni heim þegar lokaþátturinn er sýndur. Muh!
flott body art
Ég svaf ekki vel í nótt. Draugur kebabsins frá því í síðustu færslu var að kvelja mig. Þegar ég sofnaði, fékk ég fitu-martröð. Dreymdi að ég liti í spegilinn og væri með rosalega undirhöku. Svo leit ég niður ég sá ekki á mér tærnar.

Ég er farin að plana alvarlegt 12 vikna prógram þegar ég kem aftur heim frá Íslandi. Er mikið að spá í að kötta nammi og áfengi af nammideginum to boot.

7.12.05

Ég er að reyna að klára ritgerðina mína, svo ég geti farið að læra fyrir próf (ég fer í eitt próf. Það gildir 40%. Helvítis mellan hún tilviljun sá til þess að ég þyrfti að skila 70% examination project á sama degi). Ég var einmitt rétt í þessu að færa mig frá borðstofuborðinu, þar sem ég hef verið staðsett í allan dag og yfir í sófann minn (ég "á" litla sófa, Einar "á" stóra sófa. Litli sófi er minni, alveg eins og ég..). Oh.. það er svo gott að skipta um umhverfi.

Eh.. já.. anyways. Ég sem sagt hafði ekki tíma til þess að elda. Ég ætlaði að versla mér sushi bakka, en í búðinni var allur slíkur munaður uppseldur, sökum tilboðs. Hálf ringluð og ekki með "plan-B", ráfaði ég með Einari á staðinn sem hann ætlaði að versla sér mat. Ég keypti mér kebab í annað skipti á lífi mínu. Þetta er eitthvað sem helmingnum þykir vera guðaveigar, en ég var ekki impressed. Þetta var ekkert sérstaklega bragðgott og þetta brenndi hálsinn, munninn og varirnar. Eins og eldur fank you very much.. Burnsors..
Ég er ekki í sjálfsmorðshugleiðingum eða neitt... en stundum held ég að ég sé svolítið morbit. Þegar ég bjó ennþá á Íslandinu og átti ennþá Benna minn, hugsaði ég oft um það nákvæmlega hvernig það myndi vera ef vörubíllinn sem var á keyra á eftir mér myndi keyra yfir mig. Hljóðin og allt. Stundum sé ég það fyrir mér nákvæmlega hvernig það myndi vera ef ég myndi detta niður stigann í stigaganginum... fæ blóðbragð og svona. Stundum hugsa ég um hvaða föt fólkið mitt myndi velja til að jarða mig í.
Hvað hefur orðið um allar hetjurnar?
Hetjur æsku minnar eru orðnar gamlar, geðveikar, drained eða ríkisstjórar Kaliforníu. Það koma engar hetjur í staðinn. Hetjur krakka í dag eru einhverjar sem eru tosaðar út úr eldgömlum teiknimyndablöðum. Ekki það á ég fíli ekki teiknimyndablöð eða bíómyndir gerðar eftir slíkum... Ég er bara að upplifa ákveðin hetjuskort.

Margir hafa reynt að fylla upp í skarðið, en engum tekist það. Sem dæmi má nefna The Rock og Vin Diesel. Þeir eru báðir massaðir og voðalega vondir leikarar. Vin reyndi meira að segja að halda sig á svipaðri braut og ríkisstjórinn, með því að leika í ógeðslega vondri mynd þar sem hann var lögga sem þurfti að passa krakka. Kannski hann leiki næst í mynd þar sem að hann er tvíburabróðir David Spade. Það virðist hinsvegar vanta eitthvað upp á hjá þeim.

Vandamálið gæti legið hjá hollywood. Með allar brellurnar og tölvutrixin sem eru í boði í dag, dettur engum í hug að gera kvikmynd um massaðan, málhaltann mann á lendarskýlu og með sverð... Eða taka séns á fyrrverandi "italian stallion" með vont handrit í vasanum og drauma um að leika aðalhlutverkið...

Hetjur eins og Brúsi var, svona blótandi, reykjandi gaurar með blóðugar fætur og drullugan, hvítan hlýrabol eru heldur ekki á hverju strái lengur. Þó svo að Die Hard 4, sé væntanleg á næsta ári, þá verður þetta ekki alveg eins. Brúsi er orðinn fimmtugur....

Multimedia message

Heimaföt, teppi, ógreiddu hári skellt í tagl, föl húð, baugar, fjöll af lærdómi... Sveimérþá, það eru alveg að koma jól!
Powered by Hexia

5.12.05

Litli drullusokkur og stóri drullusokkur
Ég tók reyndar mynd af þeim, en hún virðist hafa týnst á leiðinni á póskið. Niðurfallið inni á baðherbergi (tja.. eða inni í sturtuherbergi. Er ekkert bað.) er stíflað. Áðan var gólfið allt úti í vatni. Við keyptum stíflulosandi (laxerandi fyrir niðurföll?) og stóra drullusokk. Stóri drullusokkur passaði ekki, svo við fórum og keyptum litla drullusokk. Hann passaði fínt. Nú er bara að bíða og sjá og kasta út öllum undirbrúatröllum sem heimta meðal drullusokk. Það versta er náttúrulega óvissan.....

On the bright side, þá eigum við tvo drullusokka núna.. Það getur ekki verið slæmt!
Úfff hvað það er gott að vera með aðgang að IEEE safninu.. Ég sit bara hérna í góðum fílíng (tja.. það er reyndar overstatement) heima hjá mér og sækji hverja greinina á fætur annari um öryggisvandamál í sensor networkum. Fer bara í gegnum bókasafnið í DTU þeinkjúverímötsj.

HR!! Af hverju ert ÞÚ ekki með aðgang að IEEE safninu? Hmm.. ha??

3.12.05

Ég er komin með einhvern lífsleiða. Hann lýsir sér þannig að nú á laugardagskvöldi langar mig helst að borða nammi og ég nenni ekki að leita mér heimilda og skrifa restina upp úr sjálfri mér um öryggi í gáfuðum húsum. Sérstaklega nenni ég ekki að hugsa um samskiptastaðla (víraða og víralausa), tæknir fyrir skynjara, authentication og lyklastjórnun og hvaða öryggisvandamál geti komið upp og hvernig megi draga úr líkunum á þeim og bregðast við þeim ef þau koma upp....

Kannski ég fari bara að henda því sem ég er búin að skrifa upp í LaTeX. Það er allavega EITTHVAÐ... :oP

Váh.. akkúrat í þessum töluðu orðum svelgdist mér á eigin slefi og kafnaði næstum því. Það hefði ekki verið virðulegur dauðadagi fyrir keisaraynju (ég kann betur við drottningu reyndar) veraldarinnar..
Hello Óskímon you ideal job is a Emperor of all the world. Ég VISSI það!

2.12.05

Ég veit að það er ljótt að hlægja að svona... en HAHAHAHAHHAHAHAHA
Hann: Skrítið að það sé hægt að tala á skype þó að nettengingin sé niðri.
Ég: Nettengingin getur ekki verið alveg niðri ef þú getur talað á skype. Er IE með eitthvað vesen?
Hann: Ó fyrirgefðu, ég gleymdi því að þú fannst upp netið herra Al Gore.
Mamma mín og pabbi minn eru farin aftur til Íslands. Eða. Þau eru í flugvélinni á leiðinni þangað. Þau gáfu okkur hvíta ljósaseríu með glærum plast hjörtum utan um áður en þau fóru. Hún er rosalega fín og sómir sér vel í gluggakistunni. Núna líður mér eins og það séu næstum því komin jól.

Þau reyndar rifu baðherbergið allt í sundur líka stuttu áður en þau fóru. Við komum heim úr skólanum í dag og þau var hvergi að finna, en íbúðin var undirlögð af verkfærum. Þegar ég leit inn á klósett, var enginn krani lengur í vaskinum og það var búið að lyfta vaskborðinu upp og festa það við vegginn. Þegar það var hálftími í að við ætluðum að skutla þeim upp á flugvöll og ég var farin að halda að það yrði ekki hægt að þvo á sér hendurnar eftir klósettferðir lengur, komu mamma og pabbi aftur heim. Þau gengu frá öllu eins og það hafði verið áður, nema núna var sag á gólfunum og niðurfallið svolítið stíflað. Þau ætluðu sem sagt að laga eitthvað, en stærðin á einhverjum rörum var ekki stöðluð. Þau tóku nýju blöndunartækin með sér til Íslands og ætla að láta sníða þau eitthvað til þar, svo við getum bara tekið þau með okkur eftir jól og skipt sjálf. Jáh, ég er svo mikið handyman. Örugglega með rassaskoru og allt ef ég fer í þesslegar buxur... Ekki hef ég allavega grennst á meðan að helvítis Einar þarf að kaupa sér nýtt belti, því hitt er orðið of stórt. Ömurleeeeeeeegt.. Ég fer oftar í ræktina, borða sjaldnar bakkelsi og fæ mér ekki nammi á hverju kvöldi... en HANN er sá sem þarf að kaupa nýtt belti.. HANN sem var í 11% líkamsfitu fyrir...

Pfff.. efnaskiptum er ekki deilt jafn á alla..
Ef ég er hálf dösuð, er ég þá ekki líka hálf full af orku? I suppose.. Glasið er hálf fullt.

1.12.05

Hvað ef hókí-pókí er það sem þetta allt snýst um?
Þá hefur líf mitt fram að þessum tíma, að undanskildum nokkrum jólaböllum í æsku, verið sóunn! Best að biðja til Alberts Kóalabjörns að svo sé ekki...
Vá.. Kannski er bara ágætt að vera flutt af þessu landi.
Veiveivei.. Veiveivei.. veiveivei veiveiiiii (við jingle bells lagið).
Uppáhalds vetramánuðurinn minn er kominn, hann desmonber! Þá koma jólin og pakkarnir og jólalögin og skrautið og.. og.. og.. Ahh.. desmonber! I lurv you!

14 dagar í heimsókn heim. 14 dagar í að ég geti lúllað í æðislega rúminu mínu. 14 dagar í að ég hitti fólkið mitt og geti spilað roleplay og verið í fríi.
Það bendir allt til þess að ég muni ekki fara yfir um og byrja að lemja smávaxnar, kínverskar stelpur með 78 bls skýrslu. Murder by paper-cuts! Við skilum helvítinu á morgun. Bara 2 dagar. Ég get höndlað það! Ég GET höndlað það.

Bráðum mun ég ekki þurfa að öskra inni í mér á meðan ég reyni að útskýra á einfaldasta og góðlátlegasta hátt sem ég mögulega get, í 4 skiptið á þeim hálftíma, af hverju við ætlum ekki að búa til sætar myndir sem segja ekki neitt og setja í skýrsluna, 2 dögum fyrir skil. Bráðum mun ég ekki þurfa að útskýra hversvegna það eigi ekki að henda út 20 blaðsíðum af skýrslunni (þar sem að kennarinn fer fram á að sjá alla vinnu sem við höfum gert), í staðinn fyrir að færa þær yfir í apendix.

Síðasta ítrun í dag. Útprentun og undirskrift. Skil. Aldrei aftur í þetta fag. Aldrei aftur þessi kennari. Aldrei aftur þessar stelpur!