1.10.05

Við kíktum á uppáhalds ástralska staðinn okkar í gær og skutum niður nokkrum billiard kúlum og nokkrum tuborg classic (en það er einmitt besti bjór í heimi. Allavega mínum heimi). Klósettin þar eru reyndar umdeilanleg. Vissulega er ekkert umdeilanlegt að þau séu klósett, en það er nokkuð umdeilanlegt hvar klósettin enda og herbergið utan um þau byrjar. Það var svo mikil ælufýla þegar ég fór að pissa að ég gubbaði næstum því sjálf. Ég er klýgjugjörn. Mér er alveg sama þó það þyki miður smart. Murrr.

Við fórum svo á einhvern annan stað þar sem klósettið og herbergið sem umlukti það var mun skárra. Að vísu hékk auglýsing á hurðinni, sem blasti við konu þegar hún var að pissa. Á henni stóðu 10 hlutir eins og t.d. "Ólívuolía, jógúrt, krystalsheilun og tungldans". Ég las þetta í makindum í takt við bununa. Neðst stóð svo "Eða þú getur notað það sem virkar" og svo var mynd af einhverju sveppalyfi fyrir neðrisvæði kvenna. Það var nákvæmlega þá sem ég sá ógeðslega eftir því að hafa actually sest á helvítis klósettið í staðinn fyrir að nota lærakraftinn bara.

Þegar klukkan var orðin margt og sumir orðnir slappir ákváðum við að taka næturstrætóinn heim. Það var rosalegt upplifelsi. Viggi greyjið var með tómt sæti við hliðina á sér og allskonar mismunandi fólk drapst næstum því á öxlinni á honum á leiðinni. Uppáhalds næturstrætómaðurinn minn var afskaplega drukkinn miðaldra maður sem ætlaði út á nörreport, en náði ekki að hlaupa út áður en að hurðin lokaðist. Þá tók hann til þess ráðs að drepast standandi, hallandi sér upp að einum dínglistaurnum. Djöfull var hann örugglega hissa þegar hann vaknaði í einhverjum allt öðrum bæ.

Engin ummæli: