4.10.05

Ólík menning..
Í einu fagi er ég meðal annars með 2 kínverskum stelpum í hóp. Þær eru voðalega sætar og indælar og vinna alltaf vinnuna sína heima. Enskan hjá annari er reyndar ekkert til að hrópa húrra fyrir svona í mæltu máli, en hún virðist kunna hana ágætlega, því hún skrifar fínan texta.

Í tímanum í dag sagði kennarinn (sem hefur m.a. kennt í Kína) að Kínverjar væru ekkert góðir í að spyrja spurninga. Þeir gengju alltaf út frá því að kennarinn hefði rétt fyrir sér. Eftir tímann var ég að spjalla við þær og önnur kom með þá athugasemd að Kínverjar spyrðu aldrei neinna spurninga, því að þeir væru alltaf búnir að lesa heima!

Hún setti upp undirskála augun þegar ég útskýrði fyrir henni að það sem hann hafði átt við, var að við ættum ekki að ganga út frá því að bókin eða kennarinn hefði alltaf rétt fyrir sér og ef við myndum sjá eitthvað sem meikaði ekki sense fyrir okkur, ættum við að spyrja út í það og fá niðurstöðu í málið. Það væri líka hægt að bera upp spurningu um hvort önnur lausn á vandamálinu væri kannski betri. Við gætum líka alveg spurt út í efni sem kemur ekki endilega fram í bókinni, en við erum forvitin um.

Þær voru báðar hálf hissa á þessari athugasemd og virtust ekki alveg skilja hvað ég átti við. Þeim fannst það ekki alveg meika sense að setja efni sem væri ekki alveg rétt í kennslubók. Ég reyndi að útskíra fyrir þeim að það væri nú enginn fullkominn, ekki einu sinni doktorar... en það var ekki að sökkva inn. Það var nákvæmlega á þeim tímapunkti sem ég skildi að kennarinn, þó hann sé ekki fullkominn með augum Íslendings, hafði haft algjörlega rétt fyrir sér með að Kínverjar kynnu ekki að spyrja spurninga.

Engin ummæli: