24.9.05

Við Petra liggjum uppi í sófa í letikasti. Fyrr í kvöld var planið að skella mér í gírinn og fara í all svakalegt eldhúspartý og all svakalegt DTU tjútt strax eftir það. Ég varð bara fyrir því óláni að borða heila laugardagspizzu og á meðan ég var á meltunni, sofnaði ég út frá endurforritunardiskinum mínum. Þegar ég vaknaði aftur, mundi líkaminn minn að ég hafði alls ekkert sofið nógu mikið upp á síðkastið og harðneitaði að vera nokkuð annað en tussulegur og sybbinn. Ég skreið því upp í rúm í smástund, lagði mig á hitateppi og las. Þegar tími var kominn til að leggja í 'ann, tók boddið endanlega ákvörðun um að vera eftir heima. Ég sendi piltinn sem fulltrúa okkar á tjúttið, með þeim fyrirmælum að skemmta sér nógu vel fyrir okkur bæði.

Sjálf er ég núna algjörlega eftirsjálaus að háma í mig íslenskt nammi (takk Ösp, takk Vala), toblerone súkkulaði og drekka mjólk. Mér þykir mjólk góð. Vala segir að hún sé ekki góð fyrir fullorðið fólk og það eigi frekar að taka kalktöflur. Ég trúi henni. Mjólk er samt svo afskaplega góð. Ég held líka að það sé ekkert hægt að tala of illa um hana þegar hún er í þessum félagsskap. Eins og óstundvís kórdrengur við hliðina á götuklíkugaurum. Súr gúrka í skál fullri af nýrnabaunum.

Kannski að ég horfi á dark crystal. Kannski ég naglalakki á mér tásuneglurnar. Kannski ég lesi Andrés Önd á dönsku. Kannski ég fari að sofa bráðum.

Engin ummæli: