29.6.05

Ég keypti fyrir mistök í Ameríkunni einhver þau svaðalegustu nærklæði sem ég hef á æfi minni... eh.. klæðst.

Ég var stödd í Wal-Mart, þar sem allt fæst á kostakjörum. Þeir virðast þó selja mun færri nærbuxur en brjóstahaldara, þannig að ég ákvað að velja mér nokkra í íhaldssömum litum, svo að ég gæti keypt nærbuxur í stíl annarstaðar.

Þegar ég hafði slitið mig frá dáleiðandi áhrifum þriggja ganga af brjóstahöldurum í öllum stærðum og gerðum (og beeelíííív mí. ÖLLUM stærðum. Það hefði verið hægt að halda stórafmæli í sumum), tók ég eftir því að bestatsa vini mínum og kærasta þótti venjulega-nærfata-skoð miður skemmtileg iðja (sagði reyndar ekkert, en ég sá það á vonleysis svipnum á honum). Ég reyndi því að kippa með mér nokkrum boobie-traps í flýti. Ég skannaði ganginn eftir boðlegum eintökum og fann eina týpu sem mér leist á. Í hendingskasti leitaði ég að sömu tegund í sömu stærð nema í öðrum litum.

Ég labbaði út með einn bleikan, einn hvítan og einn svartan brjóstahaldara.

Þegar í flennistóra húsið kom, ákvað ég að skella mér í einn sérstaklega pæjulegan, svartan bol sem ég hafði keypt mér daginn áður. Af því tilefni tók ég upp nýja, svarta brjóstahaldarann. Eitthvað var skrítið við hann, þar sem að krækjan var ekki aftan á eins og hún var á hinum, heldur framan á. Ég fýla það ekkert voðalega vel, en skellti mér í hann engu að síður.

Svo einkennilega vildi til að bolurinn, sem hafði smellpassað daginn áður var allt í einu orðinn helst til þröngur. Ég leit niður og ég sá ekki tærnar á mér lengur. Það eina sem ég sá voru brjóst. Sama hvert ég leit, upp, niður eða til hliðanna - allstaðar voru brjóst. Ég þakkaði bara fyrir að ég væri í þessu rosalega húsi, þar sem að í minni hýbýlum hefði skort pláss.

Ég prufaði að pota í þennan tröllaukna barm. Áferðin var merkilega lík svampi. Mér leið eins og ég væri að káfa á puppet-versioninu af Pamelu Anderson.

Í hendingskasti snaraði ég mér úr múderingunni aftur og starði á þennan ótrúlega brjóstahaldara. Hann leit nógu sakleysislega út svona brjóstalaus. Einhvern veginn, tekst honum að fela þessa rosalegu púða nema ef farið væri í hann. Í útliti er hann næstum því alveg eins og hinir tveir sem eru algjörlega púðalausir. Í actioni er hann hinsvegar eitthvað allt annað og meira. Relic bra!

Þessi kaup voru nú ekki algjörlega tilgangslaus, þar sem að við Einar skemmtum okkur í góðar 2 mínútúr við það að setja skálarnar á hausinn á hvoru öðru og lemja ofan á með krepptum hnefanum án þess að finna nokkuð fyrir því. 100% höggdeifing. (100% Hunts. 100% Íslandsbanki).

Engin ummæli: