20.6.05

Einu sinni var strákur sem hitti niðurleitan, gamlan mann sem sat á bekk við tjörnina. Strákurinn spurði gamla manninn varlega hvort að eitthvað væri að. Maðurinn horfði á hann með döprum, en vinalegum augum, eins og að hann væri þakklátur fyrir athyglina. Gamli maðurinn svaraði ekki spurningunni, en dróg þess í stað upp lítið skrín úr vasa sínum. Út úr skríninu kom fallegur silfurþráður og maðurinn sagði stráknum að ef tosað væri í þráðinn, myndi tíminn líða. Hann rétti piltinum skrínið og brosti daufu brosi. Því næst staulaðist hann á fætur og haltraði á braut.

Strákurinn tosaði fyrst í þráðinn í einum af leiðinlegu stærðfræðitímunum í skólanum sem virtust aldrei ætla að enda. Viti menn! Skrínið virkaði. Hann þurfti aldrei aftur að láta sér leiðast í skólanum!

Í eitt af skiptunum, þegar pilturinn var reiður yfir því að enginn hlustaði á hann vegna þess að hann væri bara lítill strákur, tosaði virkilega fast í þráðinn. Allt í einu var hann orðinn fullorðinn, giftur fallegri konu og átti myndarlega fjölskyldu. Þegar börnin grétu á nóttinni eða það var erfitt að ná endum saman, tosaði hann mis-fast í þráðinn og vandamálin hurfu á braut.

Einn daginn rankaði strákurinn við sér. Hann var ekki lengur strákur, heldur gamall, hrumur maður sem sat á bekk við tjörnina og syrgði konuna sína. Hann gerði það sem hann gat til þess að ýta þræðinum aftur inn í skrínið, en allt kom fyrir ekki.


Alltaf þegar mér leiðist, eins og í 8 klst flugi eða á langdreginni útskrifarathöfn, sitjandi undir sömu ljósum og hita Sahara, þakka ég Alberti kóalabirni fyrir að eiga ekki svona skrín.......

Engin ummæli: