29.12.04

Stundum velti ég því fyrir mér hvers vegna ég gef ekki bara skít í þetta allt saman og held jólin 24. janúar. Jólamatur, jólaföt, jólaskraut og jólagjafir, allt saman á 70-90% afslætti á neyslufylleríisútsölunum og hægt er að pikka bara laglegasta jólatréð upp fyrir utan húsin í götunni sinni.

Daginn er svo sem ennþá að lengja þegar þarna kemur við sögu. Það er kannski svolítið síðan að lengsti dagur ársins kvaddi, en ég sé ekki að það ætti að skipta miklu máli. Ef það á að blanda blessuðu Jésubarninu inn í þetta allt saman, þá fæddist hann ekkert í desember hvort eð er. Hver hefur séð lömb sprangandi um í haganum í desember?
Ég er meira að segja nokkuð viss um að það væru meiri líkur á hvítum jólum.

Hmm.. Kannski hljóma ég "cheap". Fyrir okkur námsmennina, sem lifum eingöngu á góðmennsku ættingja og lánum frá LÍN, lengst undir fátæktarmörkum, er þetta þó ansi girnilegur kostur.

Engin ummæli: