13.8.04

Föstudagur segið þið? Já, ég finn föstudaginn berjast um í mér eins og hundur í peysu. Ég hef undarlega þörf til þess að horfa á Matlock og borða vínber og kotasælu. Hvað getur verið meira föstudagur en það? Fátt er allavega eins villt og fancy free.
Við höfum annars lofað okkur að gera eitthvað á morgun. Erum að spá í að gerast túristar og valsa um dýragarðinn með öðrum ferðamönnum og grenjandi börnum í frekjuköstum. Kannski einhvern stórmerkilegan grasagarð líka og ef stelpan fær að ráða, eitthvað safn sem skilar mér af sér með menningu lekandi út um öll vit. Monet og Degas málverkin eru kannski heima hjá sér núna. Hver veit?
Eruð þið með einhverjar magnaðar tillögur, hæfar drottningu á laugardegi?

Ég er allavega hætt að versla. Ég kaupi mér ekkert, ekkert meira nema kannski kannski bara bara skó. Fátt þykir mér leiðinlegra en að versla mér skó. Drottningadrésarnir eru nefnilega fullkominn kassi, og eins langir eins og þeir eru háir eins og þeir eru breiðir. Vond galdraskækja bölvaði bífurnar á mér þegar ég var bumbubúi, svo nú sit ég uppi með labbara númer 35+ (köllum'ða bara 36) og háu ristina hans föður míns og drésana hennar mömmu. Það er nánast ómögulegt að versla skó á slík undur veraldar. Að sjálfsögðu eru þetta glæsilegir fætur, þó svo þeim svipi dálítið til lego dubblo kubbs í yfirstærð.
Búðarstarfsmenn tísta og benda á barnadeildina. Ef mér tekst að finna skó, mér samboðna, sem eru jafnframt í stærð 36, eru allar líkur á því að þeir séu of þröngir fyrir drésana. Þetta er að sjálfsögðu bara samsæri, sprottið frá félagi stórfættra einstaklinga, sem er illa við að ég sé gangandi um, gullfalleg og spengileg OG eigi auðvelt með að kaupa mér skó.

Ussss. Það er ljótt að vera bitur!

Engin ummæli: