6.8.04

Eigingjörn í annara þágu
Á hinum endalausa vegi sem liggur að betri persónugæðum eigin sjálfs (þar sem alltaf er hægt að bæta sig kemst kona aldrei á leiðarenda. Þetta er eins og að elta regnboga) komst ég að dulitlu áhugaverðu.
Í seinni tíð, hefur tilfinningin sem fylgir því að gleðjast yfir gæfu þeirra sem nálægt mér standa, verið næstum eins sterk og sú sem kemur þegar ég gleðst yfir eigin gæfu. Það getur ekki verið annað en gott, þar sem þetta hefur í för með sér fleiri stundir af hreinni og klárri hamingju fyrir mig. Ef ég væri ekki hugsandi manneskja, þá hefði ég áhyggjur að því hversu eigingjarnt seinni partur setningarinnar hljómaði. Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að allar tilraunir hjá mér til þess að bæta mig sem manneskju eru eigingjarnar og aðalega hugsaðar til þess að mér sjálfri líði betur. Þetta er staðreynd sem ég hef löngu sætt mig við og með tímanum lært að meta.
Þó það sé að sjálfsögðu eigingjarnt, þá getur það einnig verið göfugt að vilja að sjálfri þér líði vel. Merkilegt nokk, þá hefur það gjarnan áhrif út á við líka og stuðlar að því að fólkinu í kringum þig líður líka betur.

Engin ummæli: