18.7.04

Skortur á samúð gagnvart drottningunni er að buga hana
Óli Lokbrá, einnig þekktur sem Sandmaðurinn, hefur verið að stytta sér leið yfir augun á mér, þegar hann missti allan lúllusandinn sinn. Nú er klukkan bara rétt að ganga níu, en stelpan er samt syfjuð eins og köttur. Kettir eru alltaf syfjaðir (Cat. I'm a kitty cat.. and I... ).

Ég yfirgaf Efstasundið til þess að fara heim til mín að sofa. Pottasvamlandi nágrannarnir virðast hafa frétt þetta í gegnum einhverja af þeirra djöfulegu njósnaskækjum og boðað stórfjölskylduna og sundföt þeirra á sinn fund. Ég get svo svarið það að núna er ættarmót í gangi þarna hinumegin. Einmitt þegar reiði múgurinn er í sumarfríi á Flórída og heygafflarnir í hreinsun. Ömurleg tímasetning!

Ég býð óttaslegin eftir því að reiði, 14 ára, taktlausi og skjálfhenti unglingurinn verði klappaður upp og beðinn um að spila eilítið á trommurnar (ekki veit ég hvað dýrið sem átti húðina, strengda yfir fordæmda trommusettið, hefur gert af sér í fyrra lífi, en það hefur verið verra en nokkur vond söbbvejmella gæti áorkað eh... fyrir hádegi). Kannski eiga þeir líka litla frænku sem kann Írafár diskinn utan af og getur sungið honum til samlætis.

Húsaflugan sem hefur gert sig heimakomna í gluggakistunni minni sýnir heldur enga samúð. BZZZZZZ segir hún hátt og reglulega. Ég get svo sem ekki áfellst elsku kútinn. Húsaflugur lifa bara í mesta lagi í viku og það er svo sem ekkert skrítið að hún hafi mikið að segja, ef hún þarf að koma öllu frá sér fyrir miðvikudag.

Frammi er sjónvarpið á fullu blasti. Einhverstaðar er meitlað í stein, að ekki sé hægt að njóta nýrra græja almennilega, nema að þær séu stilltar á þann hæðsta mögulega hljóðstyrk sem veldur fólki ekki varanlegum heyrnaskaða eða geðveiki.

Þetta lúll á eftir að krefjast geypilegrar einbeytingar og viljastyrks, sem ekki er á færi hvers sem er........

Engin ummæli: