21.7.04

Hin "eðlilega" staðalímynd konunnar
Einn dag í mars vaknaði ég og fattaði að í ár yrði ég 23ja. Það er í ekkert sérstaklega hár aldur, en ég fór samt að hugsa. Skyndilega fór ég að velta því fyrir mér hversu hlutfallslega lítinn tíma af æfinni ég yrði ung og mér fannst það allt í einu ótrúlega mikil sóun að líta þá ekki vel út á þessum stutta tíma. Shallow pæling, en mér finnst hún samt eiga rétt á sér. Ég er sem sagt að redda þessu núna. Það hefur meira að segja gengið nokkuð vel.

Í gær rann upp fyrir mér annað ljós (er þetta málfræðilega rétt setning? I wonder). Samkvæmt öllum mælingum er ég núna "eðlileg", en mér finnst það alls ekki þegar ég lít í spegilinn. Þetta var kannski ekkert svo skrítið þegar ég var í alvörunni aðeins of chubby, en núna á þetta í rauninni ekki rétt á sér. "Avarage konur" á mínum aldri hafa fituprósentu á milli 20 - 25%, alveg eins og ég. Ég nota fatastærðir sem flokkast undir "medium". Meira að segja BMI stuðullinn (sem er c.a. það heimskulegasta sem fundið hefur verið upp) er sammála þessu öllu saman.

Af hverju finnst mér þetta þá?
Ég hef ALDREI borið mig saman við anorexíufyrirsætur, enda veit ég vel að það er ekki eðlilegur eða fallegur vöxtur á konum. Hvaða konur er ég þá að bera mig saman við? Þessar í sjónvarpsþáttunum eða í bíómyndunum? Þessar í sundfata-sectioninu í fatabæklingum? Þessar sem eru hengdar upp hér og þar í líkamsræktarstöðvum eða spóka sig í heilsutímaritum.
Guess what! Þær eru ekki eðlilegar heldur. Eðlilegar konur eru ekki með C skálar OG fituprósentuna 15, en það eru konurnar sem mér finnst líta vel út og það eru augljóslega konurnar sem ég ber mig saman við þegar ég skoða sjálfa mig í spegil.

Hingað til hef ég aldrei fattað kvabbið um óraunhæfar fyrirmyndir. Þegar ég var yngri og leit í alvörunni eins vel út og er mér mögulegt, var ég samt ekki ánægð með mig. Í seinni tíð hef ég skrifað þetta á að 16 ára stelpur séu alltaf óöruggar, en það var ekki fyrr en í gær sem ég fattaði þetta almennilega.

Takmarkið mitt er að ná í 18% fitu, sem er í næsti flokkur fyrir neðan "eðlilegur" og flokkast sem "grannur". Þegar ég næ þangað eru allar líkur á því að ég verði heldur ekki ánægð með hvernig ég lít út. Er virkilega búið að heilaþvo kvenfólk svona mikið?
Ég heyri karlmenn oft tala um að konur séu aldrei ánægðar með útlitið sitt. Karlar eru það hinsvegar gjarnan. Er það skrítið? Ég man t.d. ekki eftir einum grínþætti þar sem konan er feit og karlinn fullkominn. Einhverra hluta vegna er það alltaf akkúrat hinsegin.

Núna þegar ég hef gert mér grein fyrir þessum ranghugmyndum mínum get ég tekist á við þær. Ég veit að ég er með óraunhæfar viðmiðanir og þarf að leitast við að finna mér nýjar. Vandamálið er að ég veit ekki alveg hvar ég á að byrja að leita....

Engin ummæli: