14.7.04

Ég setti helvítis kerfið í vinnunni í gang. Eða. Svo virðist vera. Það kom ekkert high-pitched VÍÚVÍÍÚÚVÍÍÍÚÚÚ í því, en það tók mig svolítinn tíma að setja guðsvolaðann kóðann inn, enda hef ég ekki þurft þess í.. tja.. rúmt ár. Það endaði með því að annar starfsmaður kom mér til bjargar og við vorum viss um að þetta hefði náðst hjá okkur (honum), fyrst að það kvartaði ekkert helvískt. Heyrðu! Svo bara baktalar það mig við skúrítas. Ekkert smá ömurlegt að þora ekki að segja neitt við mig persónulega.

Skúrítas maðurinn kom rétt í þessu í skúrítas gallanum sínum á skúrítas bílnum og skammaði mig. Eða. Hann skammaði mig ekkert. Labbaði til mín og skoðaði upp í munninn á mér hvort ég væri með svarta tungu þegar ég sagðist ekki vera stórvarasamt glæpakvendi. Svo spurði hann mig hvað ég héti og flögraði svo aftur heim í skúrítasland.

Djöfull. Ég og vatnsdælan með fallega bláa takkanum og uppstoppaða pálmatréð höfum myndað bandalag gegn þjófavarnarkerfinu lævísa! Það er augljóslega að reyna að láta kjósa okkur af eyjunni.

Engin ummæli: