14.6.04

Obbosí! Gleymdir þú að klæða þig elskan mín?
Fátt þykir mér sorglegra en kvenfólk sem klæðir sig ekki rétt. Ég veit reyndar sjálf að ég gerðist sek um slíka hluti á yngri árum (samanber alla portkonukjólana sem ég fann og gerði útlæga úr skápunum mínum í fyrra). Núna er ég hinsvegar eldri og vitrari.

Ég hef ákveðið að gefa grunlausum ungum meyjum nokkur ráð um klæðaburð. Veit ekki hversu mörgum ég næ að bjarga, þar sem að flestir lesendur mínir virðast vera karlkyns :oÞ. Ef ég bjarga einni stúlku, þá er það vel þess virði!

1. Hættu að ljúga að sjálfri þér
- Oft sé ég gellur í gallabuxum sem eru tveimur númerum of litlar, þannig að þær sagast inn í kviðinn og síðurnar og hroðaleg fitubunga myndast á oft annars grönnum líkama

Þú notaðir kannski þessa stærð fyrir tveimur árum síðan. Þú vildir kannski óska þess að þú notaðir þessa stærð núna. Ég veit ekki hver ástæðan er, en í guðana bænum HÆTTU að reyna að troða þér í hana núna.
Ég skal alveg lofa þér því, að þú lítur miklu betur út í fötum sem passa. Það að þú getir mögulega hneppt einhverju þegar þú ert á innsoginu, þýðir ekki að það passi. Ég get bara ekki séð að þú takir ekki eftir þessum fitukúlum á síðunum á þér sjálf. Þú horfir örugglega í spegil öðru hvoru. Þú sérð örugglega djúpa buxnastrengjafarið þegar þú ferð úr þeim aftur á kvöldin. Legðu saman tvo og tvo. Fjárfestu í stærri fötum!

2. Veldu eitthvað sem fer þér vel, ekki eitthvað sem fer anorexíumódelinu í sjónvarpinu vel
- Það sem mér finnst allra verst að sjá, er þegar stelpur, sem eru ekkert sérstaklega feitar, troða sér í nýþröngar, eða flennistuttar múderingar, þannig að þær líta út eins og rúllupylsur og hvert einasta aukakíló er undirstrikað

Það getur verið að þú sért aðeins of feit. Hey! Ég líka! Það er allt í góðu, það þýðir ekkert að þú þurfir að líta illa út!
Ef þú hefur einhverja auka þéttingu, endilega klæddu hana af þér, ekki flagga henni eins og medalíu. Þröng föt sýna allar útlínur. Allar! Ef þú ert með fellingar á maganum, villtu að allir í kringum þig geti talið þær?
Sá fasismi hefur einkennt mig að mér finnst að mini-pils og magabolir ættu ekki að vera seldir í stærðum ofar en 12. Þegar þú ert orðin stærri en það, þá einfaldlega fara þessi föt þér ekki vel (allavega í 99% tilvika). Þó svo að þú lítir ekki vel út með bumbuna úti í loftið og lærin beruð, þýðir það ekki að þú lítir ekki vel út í neinu. Veldu frekar eitthvað sem er svona loose-fit og kannski aðskorið frekar en plain þröngt. Þarf alls ekki að vera eitthvað tjald eða mussur. Gullni meðalvegurinn sko!
Sjálfri líður mér miklu betur í fötum sem eru ekki eins og sleikt utan á líkamann á mér.

3. Druslulegt er ekki það sama og sexy
- Færðu alveg geðveikt mikla athygli þegar þú skemmtir þér í snípsíða pilsinu þínu og þrönga, fleygna bolnum þínum? Heldur þú að það sé vegna þess að gaurum finnst þú svo geðveikt hot?
Jáneielskan mín. Alveg eins og gaur sem gengur um í lögreglufötum er gjarnan talin lögga, þá er gella sem gengur um í gleðikonu múderingu talin….. ódýr hóra. Í lang flestum tilfellum eru gaurarnir sem eru að gera tilraunir til þess að riðlast á löppunum á þér, ekki að því vegna þess að þeim finnst þú vera flott. Þeir eru að því vegna þess að þeir halda að þú sért easy og sért líkleg til þess að taka betur í þetta en stúlkur í heilum flíkum.


Það er mín reynsla að karlmönnum finnst það vera miklu meira sexy þegar þú sýnir ekki allan varningin. Það vill bara svo skemmtilega til, að lang flestum finnst skemmtilegra að fá jólapakka í fallegum umbúðum, heldur en algjörlega án þeirra, eða í pappír sem er rifinn, þannig að það sést vel í innihaldið.

Ef þér finnst erfitt að hætta að klæða þig mellulega, skaltu taka þetta í litlum skrefum. Ágætt t.d. að byrja á því að vera ekki BÆÐI í stuttu og þröngu pilsi og varla-sjáanlegum bol, heldur bara öðru hvoru, og svo heillri flík með.

4. Í guðana bænum vertu svolítið sjálfstæð
- Viltu vera púkó? NEI EKKI ÉG!

Já. Alltaf gaman að vera í tísku. Tískuföt eru samt ekkert alltaf sérstaklega glæsileg. Gerðu það fyrir mig að ganga ekki út frá því að skærlitaðir támjóir skór, trukkara derhúfur, neonlitaðir netabolir eða þeim mun verri flíkur séu glæsilegar, bara vegna þess að einhver tískumógúll segir að þær séu rosalega “in”.
Veldu frekar eitthvað sem ÞÉR finnst í alvörunni vera flott. Ég held að fólk líti alltaf betur út í fötum sem það er sjálft hrifið af. Það er líka miklu skemmtilegra að eiga svolítið sinn eigin stíl, heldur en að vera eins og afrit af öllum hinum stelpunum sem eru í tísku.


Takk fyrir. Góðar stundir.

Engin ummæli: