30.6.04

Játningar um félagslega geðveiki eigin sjálfs
Ef ég hefði aldrei póskað, ætti ég mér engan Einar. Hann nefnilega fór að lesa buddlið mitt og fannst ég svo skemmtileg (eðlilega.. hehe) að hann ákvað að reyna að kynnast mér. Ég efast um að við myndum þekkjast mikið annars, þó við séum í sama námi, í sama skóla og á sama ári.

Ég er nefnilega ekkert voðalega dugleg við að kynnast fólki. Ég get haldið uppi tussugóðum samkvæmis-samtölum ef svo ber undir og ég á alls ekkert erfitt með að tala við einhverja sem ég þekki ekki vel. Ég er ekki einu sinni sérstaklega feimin. Ég er sjaldnast of gagnrýnin á mér ókunnugt fólk og mér er ekki illa við að gefa einhverjum séns.

Málið er bara að ég á ótrúlega erfitt með að ná þessum fyrstu tengslum. Komast á það stig að ég geti tekið upp símann og hringt í einhvern. Sest hjá einhverjum að fyrra bragði og spjallað. Mætt einhvert án þess að hafa öryggisnet. Ég upplifi mig alltaf einhvernveginn eins og að ég sé að troða mér upp á fólk. Sérstaklega ef það er hópur af fólki sem virðist hafa það bara fínt án mín.
Ég er samt alls ekki með ónýtt sjálfsálit. Mér finnst ég vera rosalega klár og sniðug og það er fátt í mínu fari sem ég er ósátt við. Ég held alls ekkert að fólk eigi bágt að þekkja mig.

Að þessu leiðir að vinirnir ég á eru ógeðslega góðir vinir mínir. Þeir hafa á einhverjum tímapunkti þurft að hafa heilan helling fyrir því að kynnast mér. Ég er virkilega þakklát fyrir það að það séu einhverjir þannig þarna úti :o) Vinir mínir eru bestu vinir í heimi.

Engin ummæli: