16.6.04

Ég held ég hafi aldrei deilt með ykkur uppáhalds ljóðinu mínu. Það er eftir Guðmundur Böðvarsson og heitir Rauði steinninn. Ég hef haldið voðalega mikið upp á það, alveg síðan í grunnskóla. Það þarf engan snilling til að sjá myndlíkinguna ;o)

Í vegarins ryki lá rauður steinn
- við riðum þar hjá, eins og gengur,
með háværum þys í þeysandi hóp.
Þá var ég ungur drengur.
Og röðull skein þá
hverri rós á brá.
Við riðum þar hjá.

En ljósið féll á hann um örskanna stund
með ósegjanlegu bliki.
Við hvarflandi jóreyk og hófaspark
hann hvarf mér, - í vegarins ryki.
Eins og rúbínsteinn
var hann rauður og hreinn.
Eins og rúbínsteinn.

Ég leitaði hans seinna hinn sama dag,
einn sveinstauli lítill og hljóður,
en degi var hallað, dimman í hönd,
- það var döggfall og hásumargróður.
Og ég fann hann ei þar,
sem að fyrr hann var,
- hann fannst ekki þar.

Ég leitaði hans seinna dag eftir dag.
Mig dreymdi hann löngum um nætur:
Hann væntir þín, hulinn við hófsporsins grunn
og hljóðlega í dimmunni grætur.
En ég fann hann ei þar,
sem að fyrr hann var.
Hann fannst ekki þar.

Oss verður svo oft, síðan vorið leið,
að vakna við sárasta drauminn:
um æskunnar kallandi ævintýr,
sem ósnortin hverfðust í strauminn.
En röðull skein þá
hverri rós á brá.
- Og við riðum þar hjá.

Minn glitrandi steinn, hví greip ég þig ei
úr götunni höndum tveimur?
Hví bar mig þar fram um? Þar beið mín þó
heill blikandi unaðarheimur.
Eins og rúbínsteinn
varst þú rauður og hreinn,
eins og rúbínsteinn - - -

Engin ummæli: