29.8.12

Töffarar

Stelpurnar mínar eru töffarar. Þær vilja orðið miklu frekar hlusta á Alice Cooper, Foo Fighters og allskyns gæðarokk frekar en barnatónlist.

Áðan lumbraði sú eldri að vísu á mér með dúkkusæng því hún vildi ekki hlusta á Death Cab for cuite, hedur bara býflugulagið (no rain með blind melon). Þurfum að taka þetta eitt skref í einu :P

25.8.12

Kvef

Að sjálfsögðu náði ég mér í hor í nef eftir að hafa eytt/nýtt viku á leikskóla. Ennisholur stíflaðar eins og fucked-up crazy-ass weirdo beaver hafi gert stíflu í nefinu á mér. Alveg magnað hvað þetta getur verið mikið pirrandi, sérstaklega miðað við hvað þetta er í raun og veru lítið mál.

24.8.12

Datt!

Eða fallin. Dagur sjö af engu nema hnetum, fræjum, baunum, grænmeti og ávöxtum. Ég er svo þreytt og orkulaus eitthvað, þrátt fyrir að hafa gert mitt allra besta til að halda uppi hitaeiningum, að þetta getur ekki verið sniðugt. Rétt í þessu fékk ég mér ristað brauð með smjöri og osti, dætrum mínum til samlætis. Þetta var besta ristaða brauð í öllum heila heiminum.

23.8.12

Spy-d-uhh

Ég fatta ekki alveg köngulóafóbíu. Bíddu, leyfið mér að umorða þetta. Ég fatta ekki alveg köngulóafóbíu á Íslandi. Í Ástralíu myndi ég pottþétta skylja köngulóafóbíu. Ef köngulóin er orðin eitruð eða það stór að hún gæti unnið þig í slag með fimm fætur bundnar fyrir aftan bak, þá er óttablandin virðing æskileg og skiljanleg.

Þegar köngulær eru á stærð við smartís og ekki líklegri til að valda meiri óskunda en að spinna vef í andlitshæð... hví þá öskur og drama upp á bak?

21.8.12

Aðlögun

Junior Junior er í leikskólaaðlögun. Hún er að verða 15 mánaða og hefur fram að þessu bara verið heima með mér. Eða ég heima hjá henni. Næsta mánudag byrjar hún svo í leikskólanum eins og almennur leikskólaborgari. Kannski 6,5-7 klst vinnudagur hjá henni eða svo. Hinn harði heimur þar sem það þarf að vera tilbúinn til að berjast fyrir dóti og lemja með skóflu ef svo ber undir. Sem betur fer er stóra systir ekki langt undan og eflaust tilbúin til að lumbra á börnum með skóflu fyrir hennar hönd ef svo ber undir.

Það er örugglega gott að vita að það sé einhver til sem lítur svo á að enginn megi lemja þig með skóflu nema hún sjálf.

20.8.12

Baunir

Það er hreinsun í gangi. Ég held það sé betra að segja það heldur en detox. Detox hljómar eitthvað svo buzzwordlega að mér finnst eiginlega að það ætti að vera "Group" á eftir því. Eða Holding. Sjálfbært detox.

Þetta er líka ekki beint detox. Meira tími til að leyfa líffærum að jafna sig.

Tvær vikur af engu nema grænmeti, ávöxtum, fræjum, hnetum og baunum. Stundum fer meltingakerfið á mér í eitthvað rugl og þetta á víst að hjálpa til með að hreinsa ristil og lifur og ekkert nema hamingja og gleði í framhaldinu. Okay, það er amk kenningin og það er alveg þess virði að prufa fyrst þetta eru bara tvær vikur. Segi ég núna sko. Bara. Kem með update þegar ég er komin lengra í ferlinu. Dagur þrjú. Fram að þessu hefur þetta verið merkilega auðvelt, en ég get ekki sagt að maturinn sem ég sé að borða sé voðalega spennandi. Allar uppskriftir eru með frekar mikinn svona "þetta er alveg eins og alvöru matur.. for reals!" brag á sér. Er ekki alveg að botna í fólki sem getur staðið í þessu til lengri tíma, sérstaklega ef það sleppir mjólkurvörum, eggjum og kornmeti eins og ég er að gera núna.

Baunir hafa alltaf verið mér dálítið erfiðar. Mér finnst eitthvað ógeðsleg áferð á þeim og á erfitt með að koma þeim niður í því magni sem ég tel nauðsynlegt til þess að þetta prógram sé ekki beinlýnis óhollt, svona fyrst þetta er eini próteingjafinn í boði. Ég komst að því núna í hádeginu að baunaboozt er alls ekkert svo klikkað, þó það hljómi verulega viðbjóðslega. Ég jukkaði saman slatta af linsubaunum, smjörbaunum, banana, avocado, frosnum ávöxtum og smá hreinum ávaxtasafa og það var vel drekkanlegt. Skárra að drekka þetta helvíti en að borða. Heh.. Baunaboozt í tvær vikur. FML.

Svona fyrir utan það hefur gengið nokkuð vel. Ég reyni að spá dálítið í næringasamsetningu og hvernig ég geti haldið kaloríum uppi. Að minnsta kosti fór ég í crossfit í morgun og fannst ég ekkert vera orkulausari en venjulega. Spurning hvernig þetta þróast..

19.8.12

Wft skammtímaminni? Já og litir. Og viðarvörn.

Hér er því slegið fram að nú muni hefjast pósk-á-dag átak og svo gleymi ég því bara um leið. Fail.

Annað sem ég hef alveg klúðrað í sumar er að viðarverja pall, grindverk og garðhúsgögn. Ég hef það fyrir satt að margir séu að standa í þessu á vorin, en ég er fyrst að spá í þessu núna þegar það er næstum því komið haust. Það er svo mikið næstum því komið haust að yfirspennt laufblöð eru búin að skipta litum og.. (Þessi setning er ekki lengri eða betur samin þar sem að vatnið á linsubaununum sem ég var að sjóða var farið að bubblast upp úr pottinum og út um allar trissur. Sagan á bak við þessar linsubaunir gætu verið tilefni til annars pósks..)

Fyrir rúmlega 2 vikum drifum við helmingurinn loksins í því að þrífa pallinn og í kjölfarið bar ég á hann. Svo kom rigning. Það ringdi í tvær vikur og ég hélt það væri komið haust. Viðarvarnarfatan, sem var náttúrulega enn nánast full, horfði á mig ásakandi augum. Nú var bara komið haust og við tæki rigning og snjór í marga, marga mánuði.. og grindverkið algjörlega óvarið fyrir grimmum náttúruöflum Ártúnsholtsins.

Sem betur fer sá Veðurguðinn, hann Veðurguð aumur á mér og skellti smá auka sumri svona aftast. Ég komst loksins í að bera á grindverkið með ipod í eyrum og sól á himni. Svo var komið að húsgögnunum.

Það er ekki nema svona ár síðan að við Einar áttuðum okkur á því að við værum með smekk. Við vorum nefnilega á tímabili að versla húsgögn og annað miðað við annara manna og kvenna smekk. Allt í einu áttuðum við okkur á því að massívt eikarborðstofuborð og svartir leðurborðstofustólar með eikarfætur væru bara hreint ekki okkar poki elskan. Við seldum næstum öll stofuhúsgöngin, létum smíða hringborð í staðinn og keyptum okkur stóla í lit.


Litur! Það er sko málið. Auðvitað komst ég að því að það yrði að vera sæmilega smekklegur í litavali og fyrir svona ekki-arkítekta-plebba eins og okkur þýðir það að takmarka sig við nokkra liti. Við erum aðallega í grænum og fjólubláum út af afskaplega flóknum innanhússarítektúrapælingum. Because of reasons. Jebbjebb.


Ég smellti meira að segja í "lúðalistaverk" með grænum og fjólubláum og málaði hvíta blómapotta og ljósaskerma svo þær væru í réttum lit. Við erum með talsvert fleiri græna og fjólubláa hluti í stofunni.En það er náttúrulega bara stofan. Útihúsgögn eru í allt öðru domaini og því önnur lögmál sem gilda. Vúhú! NÝJIR litir! Í gærkvöldi og í morgun var ég loksins að vinna með einhvern annan lit en brún-glæran (er brúnglær til? Þetta var amk c.a. brúnglært). Það er náttúrulega illa glatað að vera loksins að klára þetta svona seint á sumrinu, en það verður amk gaman að horfa á fallega gult borð og bláa stóla út um gluggann, vitandi að allt saman sé tilbúið fyrir veður og vinda. Okay.. kannski ekki vinda. En veður!16.8.12

Annað átak

Rétt í þessu kíkti ég á póskið mitt og komst að því að ég skrifa aldrei neitt. Aldrei aldrei. Ég er að spá í að taka annað "pósk á dag í mánuð átak". Held það hljóti bara að gera konu gott að skrifa öðru hvoru.

Öðru hvoru.

Haha.

29.6.12

Öskjuhlíðarstuð


Mamma og pabbi fengu Ernu (1 árs í Séð og Heyrt stjörnu) lánaða í smá quality time, svo að Sara (2ja og hálfs) gæti fengið smá quality time ein með okkur Einari. Tvær flugur og allt það.

Við vorum búin að þvælast eitthvað og enduðum svo á gönguferð um Öskjuhlíðina og stuði í Nauthólsvík. Á röltinu í Öskjuhlíðinni fannst okkur hún vera farin að ganga frekar asnalega og ég spurði hana hvort hún þyrfti að pissa. Hún viðurkenndi það og svona fyrst við vorum í miðjum óbyggðum og í ljósi þess að það sé ekki alltaf of langur fyrirvari á svona tilkynningum, ákvað ég að vera sérstaklega ósmekkleg og fara bara með hana út af stígnum og á milli einhverra runna til að pissa.

Þegar við vorum svona nokkurn veginn komin í hvarf lyfti ég barninu upp í sómasamlega klósettstellingu og sagði henni að láta vaða sem hún og gerði. Ekki piss. Tvö stykki Öskjuhlíðar-offroading-kúkar. Æðislegt. Sem betur fer var ég með pakka af snýtubréfum í töskunni, svo ég gat þrifið barnið og svo sá ég þann kost vænstan í stöðunni að fjarlægja sönnunargögnin með fleiri snýtubréfum. Ég meina, mér finnst það alveg verulega ógeðslegt að sjá hundaskít sem hefur ekki verið tekinn upp, svo ég bauð nú ekki í það ef einhver bláeygður sakleysingi myndi lenda í því að stíga í eitt eða tvö stykki mannara í óspilltri náttúrunni (eða eitthvað svoleiðis).

Ewwewweww.. Klígjugjarna ég er sko farin að gera allskonar hluti sem ég hefði aldrei talið mögulega áður en ég eignaðist börn. Þau gera okkur af betri manneskjum hef ég heyrt. Ég hefði amk ekki séð fyrir mér að ég væri röltandi um með kúk í bréfi fyrir nokkrum árum síðan.

Sem betur fer hélt ég haus og mundi eftir því að við hefðum verið ný búin að ganga framhjá nokkrum bekkjum og ruslatunnu, svo ég stormaði á milli runna og beint í áttina að áðurnefndri tunnu með síli og eiginmann á eftir mér. Þegar þangað var komið sá ég að maður var að setjast niður á bekk við hliðina á ruslatunnunni. Fuuuu. Ég setti upp besta casual "ég er bara að henda smá rusli, nevermind me" svipinn minn, þegar Sara brýst fram á milli runnanna.

Sara: Mamma! hvar er kúkurinn?

"Meira fuuuuu" hugsa ég og ákveð að láta á engu bera. Kannski heldur maðurinn að ég sé bara ein af hetjum samtímans sem taki upp hundakúk á víðavangi.

Sara: Mamma. Ég þarf að kúka meira

...þar fór það.

Við stormuðum með barnið á veitingastaðinn Nauthól þar sem hún kláraði að gera sínar þarfir eins og náttúran gerði ráð fyrir... í klósett.

Spurning um að fara að bæta hundaskítspokum við í töskuna mína..


15.5.12

BrúntAðeins að uppfæra gervigreindina. Ég er búin að vera að máta "dökkljóst" hár síðustu mánuði og færði mig svo á næsta level í gærkvöldi. Eða niður um level.. Pakkalitur nr. 6 í staðinn fyrir nr. 7 eða eitthvað svoleiðis. Kemur í ljós hvernig þetta gengur.

9.5.12

Vesó

Piff. Hvað er Öryggismiðstöðvarfólk að boða komu sína kl. 9:30 um morguninn til að taka eitthvað once-over? Veit þetta lið ekki að ef fólk býr á tveimur hæðum, þá er bara annarri hæðinni haldið sæmilega gestavænni og draslið geymt á hinni? Ég þurfti að skutla krílinu í rimlarúmið sitt og múta henni með snuði og dóti, þjóta svo í að moppa yfir og henda öllu sjáanlegu drasli inn í hjónaherbergi og loka. Ahh ég fékk alveg svona unglinga-flashback þegar ég skutlaði drasli undir rúm og lét svo rúmteppið hanga fram fyrir.

3.4.12

Zumba á nærbuxunum

Ég var að eignast nýja tölvuleik. Ég var sko alveg komin í stellingarnar með að prufa hann og þá tók sílið aldrei þessu vant upp á að vera með vesen við það að sofna. Eiginmaðurinn stakk af í körfu (hann er basket case 1x í viku sko) og eftir sat ég með eitt stykki barnapíutæki sem spilaði eitt stykki tveggja ára barn syngja "1,2,3 áfram Latibær", kalla "ÉG er Glanni Glæpur" og fara með leikþætti og klósett-tengd gamanmál.

Allt í einu ranka ég við mér og geri mér grein fyrir því að það hefur ekki heyrst svo mikið sem múkk í barninu í svolítinn tíma, klukkan orðin miklu meira en ég sá fyrir mér að hún yrði þegar ég væri á zumbandi siglingu og ég ekki búin að skipta yfir í æfingaföt. Ég greip til þess ráðst að draga fyrir gluggana og strippa niður á gammó (ég er bara ekki tilbúin til að segja "leggings". Mér finnst það ennþá vera of Þjóðverjalegt. Hvað næst? Handy í staðinn fyrir GSM síma? Hmmha?) og bol. Gammó reyndust svo vera of sleypar fyrir wii-remote mjaðmabeltið sem fylgir, þannig að ég endaði á nærbuxunum í zumbandi zumbí-rarí-rei. Pfff.. þetta hefur ekki verið falleg sjón og ég vona innilega að það séu engar faldar myndavélar hérna svo ég endi ekki eins og Star Wars kid.

En aftur að Tímon og Zumba.. Nærbuxur eða engar nærbuxur (og jú, til að koma í veg fyrir frekari óþægilegar "mental pictures", þá voru vissulega nærbuxur) þá er þetta alveg öskrandi snilld, allavega svona miðað við fyrstu zúmbun. Ég ákvað að byrja hægt, svona fyrst að klukkan væri orðin margt og vegna þess að ég hafði aldrei prufað zumba áður og valdi "short class, low intensity".

Það var að vísu einhver valmöguleiki að láta kenna þér skrefin á ultra hægum hraða en hver nennir því eiginlega? Ég demdi mér bara út í þetta og komst að því að "low intensity" þýddi sko ekki að þetta væri eitthvað hægt. Á tímabili var ég farin að sjá eftir því að hafa ekki byrjað í aula-hjálpadekkja-mode og látið kenna mér, en zumbaði bara áfram blindandi og tók fljótlega upp stefnuna að ef ég væri ekki viss, þá bætti ég bara við auka mjaðmahnykkjum. Það bar alveg ferlega góðan árangur og ég endaði með 3 stjörnur af 5 mögulegum og einkunina "zumba expert" eða eitthvað álíka fyrir wii-rkoutið. Zumbi fjörálfur?

Ég sé fyrir mér mikið zumba í minni nánustu framtíð.

30.3.12

Fyrir vin minn, litla Kínverjan

Ég held ég þekki engan Kínverja lengur að vísu. Þegar ég var í DTU vann ég verkefni með tveimur stelpum frá Kína, en ég held að þar með sé það upp talið.

Það sem ég vildi samt sagt hafa er að það er ekki nógu mikið af gulum fötum til í heiminum. Gulur er glaður og fallegur litur. Þegar ég var lítil var gulur meira að segja uppáhalds liturinn minn. Það er gaman að halda upp á gulann því að á sumrin er allt morandi í túnfíflum og sóleyjum út um allar jarðir. En hvað sem að lagið segir, þá er "góða appelsínan" sko ekki gul. Ekki nema að "góða appelsínan" sé sítróna sem sé að villa á sér heimildir.

Í gær breytti ég gulum suttermabol í lítið gult pils með gulu blómi og í gult hárband. Saumavélin mín var svo hissa þegar ég sótti hana upp á háaloft að hún pissaði tvinna út um öll gólf.

Nú á frumburðurinn allavegana gul föt og mætti glöð á gulan dag á leikskólanum. Þess má geta að þetta er í þriðja skiptið sem barnið mætir í pils eða í kjól á leikskólann. Hin tvö tilefnin voru afmælið hennar og litlu jólin. Ég er ekki stuðningsmaður þess að senda börn í kjólum og pilsum á leikskólann.. Skraaaambinn nei.

28.3.12

Tannsi

Ég fór til tannlæknis áðan. Það er eitthvað svo brjálæðislega vandræðalegt við að fara til tannlæknis. Ekki svona félagslega vandræðalegt, heldur meira svona... næstum því alveg á hvolfi með gapandi munninn, hendur af hálf ókunnugri manneskju upp í þér og þurfa öðru hvoru að svara spurningum með "agghaaaa" eða "hnnnrrrrrghh".

Annars er ég gölluð. Það er alveg slatti síðan ég tilkynnti það hérna. Ég er sem sagt með tvær barnatennur, hlýtur að vera þessvegna sem ég er forever young. Eða eitthvað svoleiðis. Það eru engar fullorðinstennur undir. Þær eru samt ekkert tiny tiny eða neitt. Fæðingargalli. Svo kemur í ljós áðan að ég er líklega með frekari fæðingargalla - engir öftustu jaxlar í efri góm. Stuttu fyrir þetta hafði tannsinn tilkynnt mér að ég þyrfti líklega að láta taka þessa í neðri gómi, svo ég get ekki verið annað en sátt að hinir muni aldrei koma. Aldreialdrei. ALDREI!

En ég meina, enginn er fullkominn svo það er ekki slæmt að vera bara með það svart á hvítu á röntgenmynd hver gallinn hjá mér er. Jessörr.

25.3.12

Náttfatapartý

Tæplega tveggja og hálfs árs grallaraskott á náttfötum, 10 mánaða (í dag) grallaraskott á náttfötum, mamman á náttfötum og Sól dúkka á náttfötum. Hafragrautur og lýsi á línuna og svo kannski vagnalúr fyrir yngri dótturina og jafnvel Skoppa og Skrítla fyrir þá eldri. Sunnudagskósí.

"Þegar ég var lítil, þá var ég hrædd við jólasveininn" sagði eldri dóttirin í fyrra dag. Það er sko ekkert smá sem er hægt að stækka á 3 mánuðum. Annars kom í ljós í gær að Skoppa og Skrítla eru svolítið eins og jólasveinninn. Fínt concept, en afskaplega hræðilegar í persónu.

14.3.12

Leitileit

Ég er að leita að blaði sem er búið að vera að þvælast fyrir mér svo gott sem á hverjum degi í svona 2 mánuði. Í dag þarf ég á því að halda og það er hvergi sjáanlegt. Típííííískt

13.3.12

Kvefuð

Ég er með allsvakalega stíflað nef. Það er ekkert annað að angra mig, svo ég lifi þetta alveg af, en vandamálið er að ég nenni ekki að borða neitt. Til hvers að borða ef ég finn ekkert bragð? Pff.

7.3.12

Eldhúsið

Ég gleymdi alltaf að monta mig af leikeldhúsinu sem ég smíðaði úr 2 náttborðum fyrir hana Söru í 2ja ára afmælisgjöf.


Ég held að ekkert dót hafi verið eins mikið notað á þessu heimili og þetta eldhús og mikið afskaplega var gaman að búa þetta til. Það eina sem ég hef út á þetta allt saman að setja er að núna er ég alltaf með einhverja óstjórnlega þörf til þess að smíða og ég á engan bílskúr. Það er ekki endilega kúl að smíða inni í eldhúsi og þurfa að vera með ryksuguna á lofti eftir hvert sag.

Ég á mér draum

Lengi hefur blundað í mér sá draumur að mála kastalaveggi í einhverjum öðrum lit en þessum beinhvíta sem varð fyrir valinu áður en við fluttum inn. Ókay.. kannski ekki háfleygasti og göfugasti draumur sem blundað hefur í höfði drottningar, en alveg pottþétt háfleygari og göfugri en sumir. Einu sinni dreymdi mig t.d. um að eignast fjaðraskraut um hálsinn. Hvað er það? Allavega ekki háfleygt sko.

Það er samt eitthvað ógnandi við að velja málningu í lit, svo fram að þessu þegar draumurinn hefur pikkað hikandi í öxlina á mér hef ég trampað á honum og sent hann aftast í röðina. Ég veit ég var náttúrulega bara að hvetja hann þegar ég málaði gulan sand og bláan sjó inn í barnaherbergið og passaði mig að mála ekki óléttubumbuna í leiðinni. Núna hefur kvikyndið verið að sækja í sig veðrið og þegar ég reyndi að senda hann aftast sagði hann...

NEI!

Ég ákvað þá að reyna að drífa mig í því að finna út úr þessu, því ekki get ég haft snarklikkaðan og upp-buffaðan draum hoppandi á öxlinni á mér í tíma og ótíma. Ég var svona eiginlega búin að ákveða að mála einn veggstubb og einn stóran vegg í stofunni til að byrja með og helst í sitthvorum litnum. Svo horfði á þennan stóra vegg í stofunni og hugsaði "ah.. þessi væri flottur grænn. Mér finnst grænn fallegur litur". Þrátt fyrir að vera nokkuð viss um að ég hafi aldrei rangt fyrir mér, ákvað ég að það yrði kannski best að fara út í smá rannsóknarvinnu til þess að ég myndi ekki vera að gerast sek um hroðaleg innanhússarkítektaamatöramistök (<-- bjó til þetta orð sjálf. Takkfyrirtkkfyrir. Mér finnst þessi tvö "a" í röð þarna gefa þessu svolítið finnskan blæ. Finnskt þér ekki? H0h0). Eftir gífurlega heimildasöfnun og miklar rannsóknir hef ég komist að því að það virkar ekki alveg þannig að kona getur bara horft á vegg og hugsað um lit sem henni finnst fallegur og málað vegginn í svoleiðis lit. Neineineinei..  Þó svo að einhver litur sé rosa fallegur, passar hann kannski alls ekki heima hjá þér. Eða í þessu tilfelli mér. Liturinn á veggjunum er víst það sem á að ákveða síðast. Fyrst þarf að taka mið af litum á gólfi, litum á húsgögnum og fylgihlutum, lýsingu o.fl.

Nú snúa gluggarnir í stofunni t.d. í suður og það er mikil náttúruleg lýsing í stofunni stærstan hluta ársins. Þá er víst betra að mála veggina í köldum lit. Sá kaldi litur sem liggur beinast við er grár. Það eru steingráar flísar inni í eldhúsi sem sjást úr stofunni og eins valdi ég steingrátt teppi á stigann á sínum tíma. Einn af borðstofustólunum okkar er líka grár (6 stólar í 6 litum). Sko mig! Búin að beita allskonar innanhússarkítektapælingum. Veggstubbur! Þú verður líklega grár.

Það kemur víst flott út að poppa gráan upp með bjartari lit. Þeir litir sem komu til greina með gráum eftir að hafa skoðað borðstofustólalitapallíettuna (bjó þetta orð til líka. Ég ætti kannski að leggja þetta fyrir mig) voru gulur, fjólublár og grænn. Gulur er hlýr litur, svo honum var hent út af borðinu vegna áðurnefndar lýsingar og þó svo að fjólublár geti verið fallegur finnst mér hann vera meiri svefniherbergis- og baðherbergislitur. Þá var eftir grænn. Já.. ég er sem sagt að spá í að mála stóra vegginn í stofunni grænan. 

....bíddu nú aðeins eitt augnablik. Grænan? 

Getur það verið að ég sé með innanhússarkítektarblóð í æðum mér? Bara svona náttúrutalent þegar það kemur að innanhússarkítekt...imsa? Það getur bara vel hugsast. Það eina sem heldur mér frá því að ganga að því sem vísu og fara að skipta um starfsvettvang, er að ég er ekki aaaalveg búin að negla niður hvor veggurinn á að vera grár og hvor á að vera grænn. Já.. eða tala við eiginmanninn og greina honum frá rannsóknarvinnu og niðurstöðum. 

Ég sé allavega fyrir mér græn og grá litaspjöld í náinni framtíð (hva! Bara spádómsgáfa líka.. Hún getur allt þessi stelpa!).

6.2.12

Orð sem venst ekki..

"Mömmuhjartað". Ég hef heyrt þetta orð oft í gegnum tíðina og mér finnst það ennþá eins ferlega bjánalegt og þegar ég heyrði það fyrst. "Mömmuhjartað var nú svolítið stollt"... "Mömmuhjartanu var bara illt". Fyrst hélt ég að notkunin á þessu orði væri einangruð við lið í einhvejru undarlegu költi, en síðan þá hafa allskonar kvenmenn sem ég hélt að væru sæmilega heilir á geði farið að sveifla þessu fram eins og þetta meiki sense. Geta konur ekki bara sagst vorkenna lösnum börnum sínum eða að þær séu stoltar af erfingjunum án þess að þurfa að taka hjartað í sér út fyrir sviga og skella "mömmu" fyrir framan og tala um það í þriðju persónu. Þetta er eins og þegar litlir krakkar eru að leika sér með bangsana sína og segja "bangsa langar í kex" til að reyna að kría út kex án þess að sníkja. 

Ætli "pabbahjartað" mæti næst á staðinn? Eða "ömmuhjartað", "afahjartað", "systrahjartað", "frænkuhjartað", "vinkonuhjartað" eða "hundaeigandahjartað"? 

"Mömmuhjartað var rosalega stollt, en pabbahjartað var hins vegar frekar stressað. Afahjartanu var skemmt". 

Póskhjartanu finnst þetta glatað. 

3.2.12

Ég opnaði banana vitlausu megin

Nei ég ætlaði ekki að segja "röngu megin". Þetta var alveg akkúrat það sem ég ætlaði að segja. Í gegnum tíðina hafa ákveðnir aðilar reynt að halda því fram að það sé betra að opna bananan vitlausu megin. Rétt í þessu var ég að fá mér banana og rak allt í einu minni til þess að ein ástæðan fyrir því að fólk heldur því fram að þessi geðveiki sé hnén á býflugunni og náttföt kattarins, sé að þá séu engar bananalínur eftir á bananananananaanum eftir aðfarirnar. Ég er sko innilega ekki banananalínuaðdáandi og blóta hverri einustu til dubstep lags um leið og ég ríf hana af. Mér er svo illa við bananalinur að ég var meira að segja tilbúin til þess að prufa að opna banana vitlausu megin til að losna við þær.

Hey.. getiði hvað. Það er lygi! Bananalínurnar eru bara samt á banananum þó svo að kona fari niður á þetta level.

LYGI!

Ég opnaði banananananananananann asnalegu megin til einskins.

30.1.12

Faaaallin

Fallin á sykurleysinu. Það eina sem togaðist ofan í mig yfir allan gærdaginn var ein poweraid flaska, skipt niður á svona eins og 12 klst. Það er sykur í poweraid. Usss :)

Er að spá í að láta eins og þetta hafi aldrei gerst.

29.1.12

Ein heima

Bæði börnin í pössun og við eiginmaðurinn ein heima í fyrsta skipti í fjölda mánaða. Ákváðum að skipta hæðunum á milli okkar svo hvort okkar um sig hefði eigið klósetti og þyrfti ekki óvart að gubba á hnakkann á hinu. Gubbupest...... Glorious

28.1.12

Nachos

Í gær fékk ég einhverja gífurlega þörf fyrir að sukka yfir Sherlock þætti/mynd/whaevs. Ég fékk einhverja vitrun um að nachos getur sko verið hveiti- og sykurlaust sukk, en það þarf að lesa aftan á pokann til að vera viss. Sumar týpur, eins og t.d. Doritos eru frá USA (eða er það ekki örugglega?) og þá væri það á móti lögum að setja hvorki sykur né HFCS í. Ég komst líka að því að það er möguleiki á að kaupa salsasósu og ostasósu án þess að það sé búið að setja sykur út í, svo ég bjó mér til ofurídýfu með því að jukka áðurnefndum sósum saman við mozzarella ost og setja inn í ofn *homerslef*. Sumir eru þeim ranghugmyndum gæddir að það eigi að nota rjómaost en ekki ostasósu. Veit ekki alveg hvaðan það kemur.

Allavegana. Ég komst að því að Einar borðar nachos sem snakk og vill helst ekkert vera að blanda neinum sósum eða ídýfum í málið. Ég nota hins vegar nachos sem ætilegar skeiðar til þess að skófla upp í mig ídýfum. Noooom nachos-ídýfur.. Guacamole, salsa, ostasósa og svona ofnajukkisósa.

Einhverra hluta vegna hef ég aldrei komist í sama gír með old school kartöfluflögurnar. Fyrir það fyrsta finnst mér þær ekki eins góðar og svo eru mæjónessósurnar ekkert að gera eins gott mót.